þriðjudagur, 15. júlí 2014

Þróunarsaga lítillar kommóðu.

Það er gleðidagur í dag! "Viðhaldið" er á leiðinni til mín alla leiðina frá súkkulaðilandinu Sviss! Ég hef ekki séð hana í rúmt ár, svo það verða fagnaðarfundir. Síðast þegar við hittumst var stemningin einhvernvegin svona:


Það er aldrei lognmolla í kringum hana þessa og það ættu bara að vera grundvallar mannréttindi að eiga eina Ólöfu...

En af því að hún er að koma og hefur aldrei komið í "nýja" húsið ákvað ég að drífa í nokkru sem er búið að vera á dagskránni lengi. Þetta átti ekkert að vera flókið sko... Óli smiður og vinur átti bara að mæta og bora fyrir mig 10 göt fyrir hansa-stoðum og upp skildu stoðirnar ásamt hillunum að sjálfsögðu og málið dautt. En eins og áður hefur komið fram eiga hlutirnir það til að vinda örlítið upp á sig hjá mér.

Muniði eftir þessari gömlu kommóðu hér?


Já, einu sinni var hún alveg hvít. Þá var ég á einu af hvítu tímabilunum í lífi mínu. Þá streitist ég af alefli á móti litagleðinni sem mér er í blóð borin og vil hafa allt alveg svakalega hvítt og stílhreint. Það varir hins vegar aldrei lengi og það leið ekki á löngu áður en kommóðan var komin í þennan búning hér:


Ég var bara nokkuð ánægð með útkomuna á þessu... svona á mynd allavegana. Það sem sést ekki á þessari mynd er að hinu megin við kommóðuna er íðilfagur hægindastóll sem ég fékk á 1500 krónur í Góða og bólstrarinn á Langholtsvegi blés nýju lífi í fyrir mig. Og í stólnum var púði...


Í mínum heimi, sem er alls ekki alltaf jafn einfaldur og þessi færsla gæti kanski gefið til kynna, gekk ekki að hafa eina hölduna GULA þegar það var APPELSÍNUGULT í púðanum! :) Svo ég var ekki lengi að kippa því í liðinn eins og sést á myndinni hér að ofan.

Það var samt alltaf eitthvað sem truflaði mig við þessa kommóðu, ég get ekki sett fingurinn á hvað það var nákvæmlega. Ég var búin að ákveða að kommóðan ætti að standa við sama vegg og hillurnar sem ég var að hengja upp svo í gærkvöldi þegar Óli smiður var farinn og ég var búin að bera á stoðirnar, hillurnar og skápana og henda þessu á vegginn ákvað ég að vera með smá tilraunastarfsemi. Rétt áður en það skall á með ausandi rigningu náði ég að klára verkið...

Er þetta ekki málið?

Ég get ekki dásamað þetta sprey sem ég notaði nægjanlega! Jafnvel þó höldurnar hafi verið svartar dugði ein umferð á skúffurnar og fyrir áhugasama fæst það í Litalandi í Borgartúni.

Hansahillurnar fóru upp þar sem Gullmolinn stóð áður, svo hann er nú heimilislaus ræfillinn. En mér fannst veggurinn bara illa nýttur með svona lítilli hirslu.






Er þetta ekki fallegt?! Ég er farin að hallast að því að hansahillur séu einhver mesta hönnunarsnilld mannkynssögunnar. Viðurinn er svo ótrúlega fallegur á litinn og það er svo auðvelt að flikka upp á hann með fínni stálull og smá teak-olíu. En mesta snilldin eru allir möguleikarnir á uppsetningu. Allir skáparnir, skrifborðin, kommóðurnar og hinir fylgihlutirnir sem voru framleiddir í þetta. Svo finnst  mér þær bara passa allsstaðar, hvort sem er í stofu, eldhús, bókaherbergi eða barnaherbergi. 

Nú þarf ég bara að fara að sanka að mér fallegum hlutum í þessa... Jei! 
Og hver veit nema þróunarsaga litlu kommóðunnar haldi áfram?
Eflaust fer hún í hring einhvern daginn og allar skúffurnar verða hvítar á nýjan leik...

Bis weiter, eins og þeir segja í Súkkulaðilandinu ;)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli