þriðjudagur, 18. nóvember 2014

Barnaherbergi tekið í nefið...

...helmingurinn af því allavegana ;)

Ég elska barnaherbergi. Þau bjóða upp á svo margt. Bæði í litavali, allskyns lausnum, skreytingum og bara nefndu það. Ég hef alltaf lagt mikinn metnað í herbergi strákanna minna og gengið í gegnum hin ýmsu tímabil í þeim efnum eins og td. Flexa tímabilið og Mammut tímabilið :D
Mér finnst mikilvægt að herbergi barnanna séu falleg, notaleg og vel skipulögð. Fyrir því eru margar ástæður en kanski helst vegna þess hversu miklum tíma er eytt þar við nám, leik og hvíld. Þetta eru svo ótrúlega mikilvægir staðir fyrir svo ótrúlega mikilvægt fólk!
Um daginn fékk ég verðugt verkefni. Ég var beðin um að innrétta herbergi fyrir lítinn tæplega tveggja ára vin minn sem er að eignast sitt fyrsta herbergi. Þetta var efniviðurinn:


Ég fékk í hendurnar gamalt rúm sem mamman svaf í þegar hún var lítil, litla kommóðu frá ömmu hennar sem við ákváðum að nýta sem náttborð, lítinn stól og eina einingu af gamalli Píra-hillu.
Svo mátti ég bara leika mér! Vei! Eins og þið sjáið er herbergið ekki stórt. Ég ætla að skjóta á ca. 5 fermetra, svo möguleikar á uppröðun voru ekki margir. Líka vegna þess að það er glerveggur með rennihurð á herberginu. En allt hefur möguleika og það var ekkert að gera nema bretta upp ermar og hefjast handa. Ég held ég leyfi myndunum bara að tala í þetta sinn...

Rúmið málaði ég með krítarmálningu frá Mörthu Stuart. Ég held næstum því að ég þurfi að eignast annað barn bara til að geta haft svona rúm heima hjá mér! Ég er gjörsamlega ástfangin af litnum!
Svo málaði ég Ribba myndarennu úr IKEA í sama lit fyrir ofan rúmið. Gulu skýin sem ég setti í rennuna til að passa bækurnar betur eru servíettustandar sem fást líka í IKEA. Svo setti ég uppáhalds barnabækurnar mínar í hilluna... Ef þið hafið ekki lesið Gunnhildi og Glóa og Blómin á þakinu fyrir börnin ykkar er kominn tími til! ;)
Púðarnir eru svo úr Rúmfatalagernum, allir nema þessi röndótti, en hann og rúmteppið eru úr IKEA.

Nafnaborðinn er úr versluninni Unikat, en fæst á fleiri stöðum. ,,Hillurnar" eru svo bara vírkörfur úr Söstrene Grene sem ég boraði fastar á vegginn. Töskurnar og póstkortin eru líka þaðan.

Það er smá saga að segja frá þessum. Litli vinurinn, sem á herbergið, á annan svona bangsa. Sá heitir Aggú. Aggú hefur fylgt honum hvert fótmál síðan hann var pínu peð. Af ótta við að Aggú glataðist og ekki fengist nýr keypti móðirin vara-Aggú. Mér fannst þetta frábær leið til að geyma hann einhversstaðar annarsstaðar en inn í skáp.  





Þessar fást svo í öllum regnbogans litum í rúmfatalagernum fyrir örfáar krónur!



Og ef maður finnur ekki réttu mottuna, þá heklar maður hana. Þessa heklaði ég úr afgangs garni sem ég lumaði á...

Og þá er bara hinn helmingurinn eftir... ég er aðeins búin að undirbúa mig og er æsispennt að halda áfram!

Þangað til næst... ;)

2 ummæli:

  1. Vá vá vá....vildi að ég gæti fengið þig heim til mín....þú ættir í marga þriðjudaga hjá mér...

    SvaraEyða
    Svör
    1. Knús mín kæra! Kem sko einhverntíman heim til þín...

      Eyða