fimmtudagur, 28. ágúst 2014

Tinni í Kjaló

Ég bara gat ekki hamið mig fram á þriðjudag... Var svo spennt að deila þessu með ykkur! :D

Ég skrapp í eina af uppáhalds búðunum mínum, Epal, á mánudaginn. Mamma átti afmæli og þar er alveg tryggt að maður finnur eitthvað sniðugt við allra hæfi. Ég var lengi búin að leita að einhverskonar, kassa eða glerboxi eða bara einhverju undir Tinna-safnið mitt. Ég var alltaf með það í svona smáhlutahillu en ég er bara orðin eitthvað þreytt á þeim. Ég var hins vegar ekki orðin þreytt á Tinna og félögum, enda eru þeir ekkert nema svalir ;)

En í Epal rakst ég á þetta box hér:



Boxið er frá Ferm Living og er til alveg ferkantað líka og með mismunandi lit í bakið. Það er plexigler sem lokar því og til að toppa þetta allt saman eru festingar á því til að hengja það upp á hvorn vegin sem er.

Safnið mitt er nú ekki stórt. Mér áskotnuðust fyrstu þrjár fígúrurnar þegar mamma heimsótti Tinna safnið Brussel, þrjá keypti ég í Húsi fiðrildanna og restina í Epal.


Ég lagði svo höfuðið í bleyti í smá stund. Mig langaði ekki til að raða þeim bara í kassann. Enda kassinn allt of stór til þess. Þá mundi ég allt í einu eftir Brio kubbum sem ég fann út í skúr um daginn þegar við Gummi létum greipar sópa þar. Þeir voru fullkomnir í þetta!



Oooog eigum við eitthvað að ræða það hvað þetta er "ógisslega" fínt?!





Svo renndi ég að sjálfsögðu glerinu fyrir og stillti kassanum bara upp í hillu... Elsketta!

mánudagur, 25. ágúst 2014

I´m back! :)

Uss... Ég átti alls ekki von á þessu! Ég sem hélt ég gæti allt og ekkert væri of mikið fyrir mig ;) Ég hins vegar drukknaði bókstaflega í þessari hárbandagerð í byrjun ágúst og ekkert annað komst að. En nú er ég komin á skrið aftur og uppfull af allskonar hugmyndum! Eiginlega svo mörgum að ég á erfitt með að vera kyrr :)

En mikið hrikalega var þetta nú gaman! Ég framleiddi hvorki meira né minna en 200 hárbönd á rétt rúmum mánuði, sem þýðir að ég saumaði 350 blóm, og haldið ykkur fast, saumaði 550 smellur í herlegheitin. Stormaði svo norður í land með góssið og stóð heila helgi á Handverkshátíðinni í Eyjafjarðasveit og seldi þeim sem kaupa vildu.



Þetta gekk rosalega vel og viðtökurnar voru mjög góðar, enda ekki við öðru að búast þegar fyrirsæturnar sem ég fékk lánaðar voru jafn dásamlegar og þessar myndir bera með sér!



Ég lærði heilmikið af þessu ferli og ætla að halda ótrauð áfram. Það er ekkert sem gefur mér jafn mikið og að sjá verkin mín fullkláruð! Hárböndin verða áfram til sölu og geta áhugasamir haft samband við mig á verkefnivikunnar@gmail.com

En að allt öðru. Á föstudaginn sl. var ég að þrífa sem er nú ekki frásögu færandi. Ég var að þurrka af stofuborðinu sem fór heldur illa út úr öllu brasinu þarna í júlí og ágúst. Það voru komnar allskonar rispur og límklessur á það sem ég náði ekki af.
Það var því búið að setja nýtt stofuborð inn i fjárlög Framkvæmdahallarinnar fyrir árið 2014. Þarna sem ég stóð og lét þessar klessur fara alveg óstjórnlega í taugarnar á mér fékk ég hugmynd. Hún var ekki flókin á nokkurn hátt og hversvegna að bíða? Ég vippaði borðinu út á svalir, teipaði hringinn með málningarlímbandi og bjó til pils úr dagblöðum á borðið til að hlífa því. Ég rétt reif upp ysta lagið á borðplötunni með sandpappír áður en ég fór hamförum með spreybrúsann!


Ég skal viðurkenna það að stundum er ég svolítið bráðlát og í þessu tilfelli var ég það. Það hefði verið bæði fljótlegra og ódýrar að grunna plötuna fyrst með hvítum grunni því það tók uþb. 5 umferðir áður en brúni liturinn hætti að blæða í gegnum þennan hvíta. Það eru 2 spreybrúsar sem er allt of mikið á ekki stærri flöt. En ég er hrikalega ánægð með útkomuna og nýtt stofuborð hefur verið tekið út af fjárlögum Framkvæmdahallarinnar með öllum greiddum atkvæðum!




Hlakka til næstu viku...
Have a nice one!