þriðjudagur, 28. janúar 2014

Svo einfalt og svo fljótlegt!

Ég tók mér frí í síðustu viku. Ekki láta ykkur detta í hug að ég hafi setið auðum höndum þrátt fyrir það! Nei, síður en svo. Það var kominn tími til að ganga í tölvu-/gestaherbergið sem hefur fengið að sitja á hakanum. Þangað hefur öllu sem við vitum ekki hvað er eða hvar á vera verið hent inn frá því við fluttum og hurðinni lokað kirfilega á eftir. Staðan var orðin þannig að ég komst ekki lengur fyrir við tölvuna til að blogga svo ég hafði ekkert val. Svona til að þið áttið ykkur betur á stöðunni læt ég þessa mynd fylgja:



Þetta var samvinnuverkefni okkar hjónaleysanna svona til að byrja með, en svo "púllaði" Gummi gamalt "stönt" og skellti sér til svíaríkis að vinna fyrir hillunum sem voru keyptar inn í herbergið :). Það kom þó ekki að sök því Hamingjusami hjálparinn er alltaf boðinn og búinn og mætti því á svæðið og var mér til halds og trausts í því sem eftir var.
Þegar ég var búin að fara tvær ferðir á Sorpu og henda nánast öllu sem var í herberginu fyrir utan bókunum, skrifborðinu og tölvunni, var það heldur hvítt og tómlegt að sjá. Mig langaði að hengja eitthvað á vegginn fyrir ofan skrifborðið, eitthvað annað en bara myndir í römmum. Korktafla skyldi það vera, og þá skaut upp í kollinum á mér gamalli hugmynd sem ég hafði séð í einhverju blaði. Það eina sem mig vantaði voru hringlaga korkplattar og þá fann ég þrjá saman í pakka í IKEA á 495 krónur. Ég keypti tvær pakkningar og fann til málningu, pensil, double-tape og skæri. Það er allt sem þarf! Ég málaði þrjá af plöttunum með gulri málningu en eftir fyrstu umferðina varð mér ljóst að korkurinn drekkur í sig töluvert af málningunni svo ég fór tvær umferðir á þá.


Þegar málningin var þornuð raðaði ég þeim saman eins og ég vildi hafa mína korktöflu og snéri þeim svo á hvolf og límdi saman með límbandinu. Ég setti kassana svona upp við plattana til að fá ekki skekkju á töfluna.


Með því að nota double-tape slær maður tvær flugur í einu höggi og getur hengt töfluna bara beint á vegginn. 


Sjáiði bara hvað þetta er fínt! Þetta er svo einfalt og svo fljótlegt...


Krítartöfluna sem hangir á veggnum líka, bjó ég til í fyrra. Ég keypti ramma í IKEA, hvar annarsstaðar, tók glerið úr honum, snéri bakinu við til að fá sléttari flöt og málaði það með svartri krítarmálningu. Gummi færði mér svo dýrindis krítar-túss í öllum regnbogans litum að gjöf einhverntíman. Þeir eru frábærir því bæði hrynur ekkert úr þeim eins og venjulegum krítum og svo mást þeir ekki af ef eitthvað nuddast eða rekst í töfluna.



þriðjudagur, 14. janúar 2014

Og áfram held ég...

Ég er rosa hrifin af IKEA. Sérstaklega þegar kemur að því að innrétta barna- og unglingaherbergi. Búðin er uppfull af sniðugum lausnum svo ekki sé nú minnst á alla kassana sem smellpassa í hillurnar frá þeim sem þýðir að hægt er að skipuleggja leikföngin í öreindir og fela allt "rusl". Það hentar mér vel :). En öllu má nú ofgera og herbergið hjá Litla var að verða eins og sýningarbás í IKEA. Það hentaði mér ekki vel.

Ég var búin að eiga lítið teak skrifborð sem ég keypti í Góða hirðinum á litlar 5.000 krónur í tæpt ár og ætlaði mér alltaf að flikka upp á. Það smellpassaði þar sem gamla borðið var og því ekki eftir neinu að bíða...


Ég ætlaði mér í upphafi að lakka borðið gult, en minningin um gula stólfótinn sem þurfti fjórar umferðir á var of fersk í minninu, svo hvítt varð það heillin. Ég átti enn grunn og hvítt lakk svo það var ekki eftir neinu að bíða. Ég byrjaði á að bera teak-olíu á borðplötuna og framhliðarnar á skúffunum, því það ætlaði ég ekki að lakka. Mér finnst best að nota svona svampa sem eru með fínni stálull öðru megin þegar ég ber á teak húsgögn og nota þá hliðina með stálullinni. Þá nær maður að "pússa" létt yfir í leiðinni og húsgagnið verður eins og nýtt!


Ég límdi málningarlímband meðfram brúninni á borðplötunni til að fá góðan kant, grunnaði tvær umferðir og þá dugðu tvær umferðir af lakkinu.


Botninn í skúffunum var orðinn ljótur svo ég ákvað að í staðinn fyrir að mála yfir það gæti verið gaman að hafa einhverjar myndir. Ég á ógrynnin öll af skrapp-pappír og fann þessar arkir sem mér fannst tilvalið að nota. 


Ég leyfði Litla að velja sér þær myndir sem hann vildi hafa. Ég klippti þær svo til og límdi í botninn á skúffunum með möttu límlakki eins þessu á myndinni hér fyrir ofan. Svo fór ég tvær umferðir yfir myndirnar til að fá endingarbetri áferð á pappírinn. Þegar pappírinn blotnar í líminu krumpast hann svolítið en þau undur og stórmerki eiga sér stað þegar límið þornar að það sléttist að mestu úr honum. Ef maður vill alls ekki eina einustu krumpu væri hægt að nota límfilmu eins og ég notaði til að líma servíetturnar á krukkurnar til að líma pappírinn í botninn og lakka svo yfir með límlakkinu. 


Eins og áður sagði smellpassaði borðið þar sem gamla borðið var...


Ég er rosalega ánægð með útkomuna og borðið veitir herberginu ákveðinn hlýleika þar sem allt annað er hvítt og grænt. 



Nú er bara að vinda sér í að "smíða" hillurnar sem eiga að hanga fyrir ofan borðið... :)

þriðjudagur, 7. janúar 2014

Eitthvað sem ALLIR geta dundað við...

Ég er ósköp fegin að jólin eru búin. Ég er meira svona aðventu-týpa. Elska að baka og skreyta. Nýt þess að upplifa spennuna sem fylgir desembermánuði í gegnum börnin mín. Finnst dásamlegt að kaupa gjafir handa þeim sem mér þykir vænt um, svona þangað til síðustu dagana fyrir jól þegar útgjöldin eru orðin þannig að maður getur ekki einu sinni hugsað sér að kaupa eina Malt í gleri til viðbótar... Svo koma jólin, hviss-bang-búmm og allt í einu situr maður í hrúgu af sundurtættum jólapappír og Machintosh bréfum. Ég veit að fleiri en ég kannast við þessar tilfinningar í tengslum við jólin, ég held að við ættum að fara að staldra aðeins við og endurskoða þetta...
Í kjölfar þessara hugsana minna hef ég nokkur ár í röð sagt við Gumma í janúar; "Á næsta ári fá allir heimatilbúnar jólagjafir frá okkur". Ég hef aldrei staðið við þetta þó að stöku skrappbók handa ömmum og öfum hafi læðst með í pakkann í gegnum tíðina. Ég er alltaf búin að jafna mig þegar desember rennur upp á nýjan leik :).

Ég á þrjár vinkonur sem ég kynntist öllum þegar ég bjó í Svíþjóð. Fyrir einhver jólin kom upp sú hugmynd að við myndum gefa hvor annari jólagjafir en þær yrðu að vera heimatilbúnar. Þetta eru skemmtilegustu pakkarnir sem ég fæ! Ég hef fengið málaðan bolla, peningabuddu úr fiskiroði, snyrtiveski, "portrait" mynd af fjölskyldunni á striga, heimagerða sultu, eyrnalokka og trefil svo eitthvað sé nefnt. Í ár var ég svolítið seint á ferðinni með þetta. Þetta eru jú þrjár gjafir sem þarf að föndra og það getur tekið tíma. Ég átti hins vegar erindi í föndurbúðina í Holtagörðum fyrir jól og sá þá að þar var búið að stilla upp krukkum sem búið var að líma servíettur utan á. Ég hef alltaf verið með smá fordóma fyrir krukku- og kertaföndri, fundist það hálf halló, en þessar krukkur höfðuðu einhverra hluta vegna til mín og ég ákvað að prófa. Stuttu seinna var ég svo eitthvað að vafra á netinu og sá þá hugmynd að svona minningakrukku. Þá setur fjölskyldan kvittanir eða miða fyrir leikhúsferðum, bíóferðum, veitingahúsaferðum og bara öllu því skemmtilega sem hún gerir saman yfir árið í krukku og svo á nýjársdag ári síðar er hægt að rifja upp allt það skemmtilega sem fjölskyldan hefur gert á nýliðnu ári. Þetta fannst mér bæði falleg og sniðug hugmynd. Ég læddi því litlum miðum í krukkurnar með leiðbeiningum um notagildi hennar og úr varð að tólf minningakrukkur fengu að fljóta með í jólapakkana frá mér í ár.

Þetta er ótrúlega einfalt, skemmtilegt og fljótlegt föndur. Servíetturnar smellpassa utan á krukkurnar eins og þessar á mynd númer eitt, en þær fást í IKEA. Það er nauðsynlegt að grunna krukkurnar með sérstakri glermálningu til að myndin á servíettunum sjáist þegar búið er að líma þær á krukkurnar. Ég notaði málningu eins og þessa á mynd númer þrjú og ein svona túpa dugði á allar krukkurnar tvær umferðir. Svo spreyjaði ég lokin og litlu snjókornin með koparlitu spreyi.


Til að líma servíetturnar á krukkurnar notaði ég sérstakar límarkir sem eru í raun örþunn límfilma þegar búið er að fjarlægja pappírinn af þeim beggja vegna. Þannig býr maður til einskonar límmiða úr servíettunni sem er einfaldlega límdur á krukkuna. Með því að nota Þessa filmu í stað límlakks verður servíettan slétt á krukkunni en ef maður notar límlakk blotnar hún og krumpast. Flestar servíettur eru í þrem lögum og maður notar eingöngu efsta lagið.


Ég notaði hins vegar matt límlakk eins og sést á mynd númer fjögur hér fyrir neðan til að fá skemmtilegri áferð á krukkurnar í lokin. Lakkið er hvítt þegar það er blautt eins og sést á mynd númer tvö en verður glært þegar það þornar.


Ég valdi þessa servíettu á krukkurnar handa "sænsku" vinkonunum, fannst hún eitthvað svo viðeigandi:


Ég valdi hinsvegar múmín-servíettu á restina:


Útkoman kom mér skemmtilega á óvart og fordómum mínum fyrir krukkuföndri hefur verið eytt :).