fimmtudagur, 20. mars 2014

Hreindýr vikunnar ;)

Hver kannast ekki við það að standa á kassanum í föndurbúðinni með fiðrildi í maganum og hugsa: "Nennir þú að drífa þig að stimpla þetta inn kona! Ég þarf að komast heim að föndra!" Það var allavegana það sem ég hugsaði í fyrradag þegar ég fór að kaupa strigann sem ég notaði í þetta verkefni ;). Ég var svo oft búin að rekast á svipaðar hugmyndir á vafri mínu um netheima. Þá var búið að raða tölum í bókstafi og hengja á herbergishurðar og fleira í þeim dúr. bókstafahugmyndin heillaði mig ekki beint en hugmyndin um að nýta tölurnar fannst mér góð. Ég meina eiga ekki allar konur fulla kassa af allskyns tölum sem aldrei verða notaðar? Ekki?
Svo laust því niður: hreindýr! Þau eru í tísku er það ekki, ásamt allskyns öðrum dýrum, en ég sá fyrir mér að útlínur af hreindýri myndu njóta sín vel í svonalagað.

Ég æddi því í Liti og föndur til að kaupa striga. Á leiðinni var ég að hugsa hvernig ég ætti að mála strigann því mér fannst ómögulegt að hafa hann hvítan. Svo fór ég að hugsa að kanski yrði þetta of mikið tjúll með lituðum bakgrunni og marglitum tölum? Þá langaði mig allt í einu að strengja einhverskonar hör á blindramma og líma tölurnar á það. Grábrúnn er eitthvað svo neutral og gengur með öllum litum. Þegar ég fór svo að skoða málningarstrigana í búðinni sá ég að bakhliðin á þeim var bara akkúrat liturinn og áferðin sem ég hafði í huga! Stúlkan í búðinni horfði á mig í forundran þegar ég spurði hana hvort hún gæti ekki strengt strigann á röngunni fyrir mig á einn svona ramma og gat ekki stillt sig um að spyrja hvað ég ætlaði eiginlega að gera við þetta? :)

Svo var bara að græja útlínur af hreindýri. Þó að mér sé ýmislegt til lista lagt er ég ekki flink að teikna og skrifa alveg tímamóta illa! Svo ég fór á netið og fann þessa mynd af svona líka sætu jóla-hreindýri :) Útlínurnar voru tiltölulega einfaldar sem var það sem ég var að leita að. Mér fannst reyndar hornin ekki nógu stór en sá fyrir mér að það yrði nú auðvelt að bæta úr því. Ég klippti því myndina út, lagði hana á strigann og teiknaði laust með blýanti eftir útlínunum.
















Áður en ég byrjaði fannst mér gáfulegt að leggja svolítið grunninn að "listaverkinu" svo ég lagði tölurnar ofan á myndina þar til ég var orðin nokkuð sátt við uppröðunina. Hún breyttist nú reyndar lítillega þegar ég fór svo að líma tölurnar á strigann. Ég átti svo í fórum mínum útsaumsgarn sem ég hafði einhverntíman keypt og áður en ég festi tölurnar á þræddi ég þær alla með mismunandi litum til að þetta liti út fyrir að vera saumað á strigann.







Og sjáiði bara! Nú langar mig bara að gera fleiri og stærri! Ég held jafnvel að ég þurfi að hætta að vinna...


sunnudagur, 16. mars 2014

Enginn verður óbarinn biskup, það er bara þannig.

Um daginn fékk ég hugmynd. Hugmyndin var góð og vel framkvæmanleg en vandamálið var að finna rétta efniviðinn. Mig langaði að hekla gólfmottu úr einhverju grófu garni, helst bómull, en fann ekkert sem var mér að skapi. Ég var svo að rölta Laugaveginn á miðvikudaginn í síðustu viku og ákvað að kíkja í Storkinn sem er frábær handavinnubúð staðsett í gamla Kjörgarði. Þar í glugganum hékk akkúrat það sem ég var að leita að! Dásamleg finnsk bómull sem er vélprjónuð í gróft garn.

Garnið er selt í tveggja kílóa einingum og kemur í svona hálfgerðum hrúgum eins og sést á myndinni hér til hægri. Það er ákveðinn ókostur fyrir fólk eins og mig sem vill byrja strax og gefur sér því ekki tíma til að vefja það upp í hnykla. Úr þessu geta myndast alveg rosalegar flækjur get ég sagt ykkur! Garnið er fáanlegt í ótal litum en þar sem við Gummi keyptum nýlega símabekk í Góða hirðinum sem við ætlum að gera upp og láta bólstra fannst mér upplagt að velja liti í stíl við áklæðið sem við völdum.

Ég var búin að ákveða að mottan yrði samansett úr misstórum hringjum sem ég myndi svo sauma saman á brúnunum þar sem hringirnir mætast. Ég var hins vegar ekki búin að ákveða hvort hringirnir yrðu einlitir eða röndóttir, eða hvort mottan yrði regluleg eða óregluleg. Úr varð að allir hringirnir urðu röndóttir.

Ég get hins vegar aldrei gert neitt eins og á að gera það, svo þegar ég var komin vel á veg komst ég að því að mér fannst eiginlega rangan (myndin til hægri hér að neðan) fallegri en réttan (myndin til vinstri), svo ég ákvað að rangan yrði hin nýja rétta!




Þetta var tiltölulega fljótlegt þar sem garnið er svo gróft og áður en ég vissi af var ég búin að hekla 17 misstóra hringi. Nú var bara að ganga frá endunum og ákveða hvort djásnið ætti að vera reglulegt eða óreglulegt í laginu.
Þegar ég var hins vegar búin að ganga frá öllum endunum sá ég að þegar maður heklar röndótt í hring skarast litirnir alltaf aðeins þar sem skipt er um lit. Þetta átti ekkert sérstaklega vel við mig þannig að úr varð að ég saumaði mottuna ekki saman! Ég er ekki búin að gera það upp við mig hvort ég rek herlegheitin upp og hef alla hringina einlita, eða hvort ég reyni að þagga niður í OCD-púkanum og hafi þetta svona :)

Svo núna stendur Gummalingur í stofunni, hofir á mottuna og síendurtekur: "Elva, um hvað ertu að tala? Hvað skarast og hvar skarast það?" ;)


miðvikudagur, 12. mars 2014

Ég get ekki fundið upp hjólið í hverri viku!

Það er alltaf gaman þegar maður getur verið fólki innblástur eða hvatning í hvaða samhengi sem það kann að vera. Góð vinkona mín sendi mér SMS í gærkvöld og benti mér á að kíkja á þessa síðu hér: bergruniris.com sem ég gerði. Þar hafði eigandi síðunnar málað inn í hansahillur að minni fyrirmynd eftir myndum sem birtust í Hús & híbýli, því frábæra tímariti, í fyrra! Ég verð að viðurkenna að ég varð pínulítið montin :) Má það ekki?

En að verkefni vikunnar, sem er lítið og löðurmannlegt, og alls ekki verkefni síðastliðinnar viku! Í síðustu viku var ég með fjölskylduna á skíðum á Akureyri, þar sem við nutum okkar í botn í faðmi fjölskyldu og vina. Þegar ég var búin að sitja stjörf í tvo daga að flétta hálsmen fyrir síðustu færslu var kominn tími til að eyða fjölskyldufríinu með fjölskyldunni, svo ég lagði niður störf... 

Einhverntíman í fyrra uppgötvaði ég dásemdir krítarmálningarinnar. Fór hamförum og málaði hitt og þetta með henni. Ekki bara hluti sem átti að kríta á heldur bara það sem mér datt í hug. Ástæðan er einföld; krítarmálning þekur alveg einsatklega vel og er stjarnfræðilega fljót að þorna. Krítarmálninguna á myndinni hér til hliðar fékk ég í föndurbúðinni í Holtagörðum og mæli hiklaust með henni. Ef mála á hins vega stóran flöt með krítarmálningu er ódýrara að kaupa hana í málningavöruverslunum.

Eins og svo oft áður lá leið mín svo í Góða hriðinn. Teak-æðið sem ég er haldin var í sínum hæstu hæðum á þessum tíma. Þar rakst ég á þessa dýrindis veislubakka á litlar 300 krónur stykkið. Ég keypti upp lagerinn sem taldi 10 stykki. Ég ætlaði mér að mála þá alla með krítarmálningu, en komst nú aldrei lengra en að mála tvo. Ekki það að þetta sé tímafrekt verk, heldur hef ég örugglega bara verið rokin í eitthvað annað þegar þessir voru þornaðir. Mér finnst þetta lífga heilmikið upp á bakkana og það verður svo miklu skemmtilegra að nota þá.
















Svo er líka upplagt að taka gamla og ljóta bakka og hressa aðeins upp á þá með krítarmálningunni eins og ég gerði við þennan bakka úr Tiger á myndinni til hægri.

Þangað til í næstu viku... :)

þriðjudagur, 4. mars 2014

Sumar hugmyndir eru einfaldlega betri en aðrar!

Nú kom ég sjálfri mér á óvart!

Ég var að vafra um netið í síðustu viku og rakst á mynd af hálsmeni sem var fléttað saman úr skóreimum, pakkaborðum og gömlum hálsfestum. Það var eitthvað við þessa hálsfesti. Hún var gróf og litrík en það var líka eitthvað kvenlegt við hana. Hugmyndirnar gjörsamlega hrúguðust upp í kollinum á mér. Ég sá fyrir mér að flétta inn í svona hálsmen allskyns bönd, borða, leðurreimar, perlufestar og keðjur, að þetta gætu verið hálsmen sem bæði væri hægt að nota við fína kjóla og skyrtur, og líka bara við blaser og bol eða gallaskyrtuna...
Hálsmenið sem kveikti hugmyndina var í öllum regnbogans litum, en litli OCD-púkinn á öxlinni á mér vildi hafa meiri sétteringar í þessu. Ég ákvað að byrja á því að notast við borða, keðjur og bönd sem ég ætti, til að sjá hvort þetta væri raunverulega góð hugmynd. Ég þurfti reyndar að kaupa grunnkeðjuna, festingu, vír og lím til að geta pússlað þessu saman.


í þetta fléttaði ég m.a. skóreim, pakkaborða
frá HAY og keðju úr gömlu H&M hálsmeni.
Er ekki neon örugglega í tísku? :) Ég var svo ánægð með frumraunina að ég gat ekki setið á mér að útfæra þetta aðeins betur og fór á stúfana til að skoða hvað væri í boði í föndur- og hannyrðabúðunum. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Mér féllust eiginlega bara hendur! Úrvalið er ótrúlegt af allkyns borðum, blúndum, keðjum, perlufestum, leðurböndum, glimmerböndum, böndum með semelíusteinum og bara hverju sem hugurinn girnist. Ég ætla samt að vera hreinskilin og segja ykkur að svona dót er ekki alveg ókeypis, og ef maður vill vera virkilega flottur á því og kaupa alvöru perlur, steina og keðjur þá fer maður rakleiðis í Handverkshúsið á Dalvegi. Snilldarverslun sem ég vissi ekki að væri til fyrr en á föstudaginn sl.


Ég er búin að flétta átta hálsmen og
verð alltaf jafnhissa hvað þau koma vel út! 



Við Gummalingur áttum smá frí og ákváðum því að skella okkur norður til Akureyrar á Hótel Halldóru og fara á skíði og svona. Þessi fallega, bráðum 18 ára, frænka mín býr þar og var yfir sig hrifin af föndri stóru frænku. Hún fékk því að velja sér eitt og valdi þetta bleika.







Helsti höfuðverkurinn í þessu öllu saman var að ganga frá endunum á fléttunni. Að fela þá á smekklegan hátt og þannig að það héldist. Niðurstaðan varð sú að velja passlega gróft band og vefja það eins þétt og mögulegt er utan um endana og líma það niður með Superglue eða E6000. Hvoru tveggja eru dúndurlím! 




Ég ætla bara að leyfa myndunum að tala sínu máli... Gleðilegan þriðjudag!