mánudagur, 29. september 2014

Gamalt verður betra en nýtt!

Ég hef komist að því að bras-genið hef ég erft þráðbeint úr móðurættinni. Þó mamma vilji stundum ekki viðurkenna það þá á hún það til, alveg eins og ég, að missa svefn fái hún hugmynd. Hún ferðast td. iðulega til Montana-heima á nóttunni :) Og móðuramma mín á líka sína hugmyndaspretti en ég skal alveg fúslega viðurkenna að sennilega er ég verst...

Síðan við fluttum í "nýja" húsið hefur helmingurinn af stofunni staðið auður því það var ekki samstaða í stjórn Framkvæmdahallarinnar hvernig hann skildi nýttur. Ég vildi borðstofuborð en aðrir vissu ekki alveg hvað þeir vildu. Á endanum urðum við svo sammála um það sem mér fannst, og borðstofuborðið var keypt. Ég átti mér svo draum um að hlaða Eames-stólum allan hringinn við borðið. En þeir sem vita hvað slíkar gersemar kosta skilja að maður hleypur ekki alveg út í búð og kaupir sér átta stykki. Þeim yrði að safna yfir tíma! Við áttum tvo hvíta með örmum sem við skelltum á endana við borðið og ég var svo búin að sanka að mér gömlum stólum úr Góða sem ég ætlaði að spreyja og nýta í millitíðinni. Ég á því miður ekki fyrir myndir að þessu sinni, en ef þið rýnið í myndina hér að neðan sjáið þið stólana þarna á bakvið:


Amma leit svo við hjá mér þar sem stólarnir stóðu allir á stofugólfinu og spurði hvað ég ætlaði nú að fara að gera?! Ég útskýrði mál mitt og þá kom upp úr kafinu að hún átti borð við þessa stóla niðri í kjallara sem hafði ekki verið notað í háa herrans tíð! Og borðið var mitt ef ég vildi! Ég hélt það nú og á sekúndubroti sparaði ég Framkvæmdahöllinni háar fjárhæðir því nú get ég sett teak stólana sem voru við eldhúsborðið við borðstofuborðið og Eames-draumurinn fauk gjörsamlega sársaukalaust út um gluggan. 

Nú stóð ég frammi fyrir því að fara að mála eða spreyja allt heila draslið. Það er ekki margt sem mér vex í augum þegar kemur að svona löguðu en þetta var mér ofviða. Ég vildi líka að þetta yrði eins slitsterk og kostur var því það mæðir jú mikið á eldhúsborðum og stólum. Það varð því úr að við fórum með borðið og stólana og létum sprauta það með háglans, hvítu bílalakki. Ég get eiginlega ekki lýst ánægju minni með orðum... Borðið og stólarnir eru betra en nýtt!






Er þetta ekki fallegt?! 

Ég stóðst svo ekki mátið og keypti Tiger-skálina frægu til að hafa á borðinu ;)


Mér finnst ótrúlega skemmtilegt hvað þessar ódýru búðir eins og Tiger og Söstrene Grene eru farnar halda vel í við tískustraumana. Sumar af þessum rándýru hönnunarvörum eru nefnilega bara alls ekki klassík. Svo það er frábært fyrir fagurkera að geta keypt svona hluti fyrir slikk og skipt þeim svo samviskulaust út.

Að lokum langar mig svo að sýna ykkur nýju ástina í lífi mínu. Vintage lína frá Jamie Oliver sem þolir örbylgju, uppþvottavél og 220° í ofni! Fáanleg í þrem litum, en þessi antik-blái er algjörlega minn uppáhalds! Þarf klárlega að eignast fleiri hluti úr þessari línu.


Elsku amma og afi, takk fyrir borðið!


þriðjudagur, 23. september 2014

EInfalt fyrir alla!

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mikið náttúrubarn og er ekki með græna fingur. Get varla haldið stofublómunum á lífi og þau fá bara að drekka ef þau eru farin að halla undir flatt! Litirnir í náttúrunni geta hins vegar heillað mig uppúr skónum. Ekki landslagið sjálft eða lögunin á blómunum. Ef maður gefur sér tíma til að rýna í litadýrðina þá getur það veitt mikinn innblástur. Það er sjaldan sem náttúran klikkar á litasamsetningum. Þess vegna held ég líka að haustin séu uppáhalds tíminn minn. Þessi örstutti tími ársins þar sem laufin fara að "fölna" er í raun litríkasti árstíminn! Í morgun leit ég til dæmis út um gluggann og yfir garðinn minn, sem hefur algjörlega verið vanræktur í sumar. Mér varð starsýnt á runnana sem voru blautir eftir rigningu næturinnar en jafnframt skein morgunsólin á þá og magnaði upp þessa ótrúlegu litadýrð sem býr í haustinu. Ég stóðst ekki mátið og hljóp út í garð á tánum og náttfötunum og tók þessa mynd... Enginn filter, ekkert flass eða brjáluð linsa... bara smartsími og ósvikin fegurð!


En að allt öðru. Ég skemmti mér konunglega í vikunni sem leið. Mér finnst alltaf skemmtilegast þegar ég læri eitthvað nýtt. Og nú lærði ég að bora í gler! Það er þolinmæðisvinna, ég skal viðurkenna það, en opnar alveg óteljandi dyr að föndurheimum... Og er ekki fókið. Það eina sem þarf er borvél og sérstakur glerbor.

Ég er lengi búin að ganga með þetta verkefni í maganum. Sá svona einhversstaðar á veraldarvefnum og fannst hugmyndin góð.




















Flöskuna fékk ég í Góða, perustæðið, klóna, rofann og glerborinn fékk ég í BYKO.  Í versluninni Glóey er svo líka hægt að kaupa svona snúrur í öllum regnbogans litum í metravís. Svo kaupir maður stök perustæði, klær og rofa, allt eftir smekk.

Ég byrjaði á því að bora gat á flöskuna, alveg eins nálægt botninum og ég komst. Það tók dágóða stund því borinn hitnar alveg rosalega og maður þarf að passa að glerið springi ekki. Það er líka hægt að gera þetta undir köldu vatni, en ég er ekkert sérstaklega heit fyrir að vera mikið að blanda saman vatni og rafmagni...  Því næst klippti ég klóna sem var á snúrunni af.


















Þegar maður er með svona "tausnúrur" er nauðsynlegt að líma rafmagnsteip utan um þær áður en maður klippir því annars raknar hún upp og verður ljót. Þegar klóin var farin af þræddi ég snúruna í gegnum gatið, tróð restinni ofan í flöskuna og lét svo perustæðið hvíla á flöskuhálsinum. Ég tengdi svo nýju klóna við snúruna.

Þá var ekkert eftir annað en að setja rofa á snúruna til að ekki þyrfti alltaf að kippa úr sambandi til að slökkva...


Og tada! 
Þessi lenti inni hjá unglingnum í skóginum. 


Ég bið ykkur að afsaka myndgæðin hérna... Stundum fangar smartsíminn ekki alveg fegurðina :) 

Svo langar mig að minna ykur á Facebook síðuna mína. Hana getið þið fundið HÉR. Endilega smella einu læki á hana ef þið eruð ekki þegar búin að því :)
Góðar stundir!

þriðjudagur, 16. september 2014

Uglan Ólafur og músin Marta.

Ég man þegar ég var lítil hvað ég elskaði þegar mamma gaf sér tíma til að föndra eða baka með mér. Ég á eina ljóslifandi minningu um mömmu að blása úr eggjum fyrir einhverja páskana og svo máluðum við á þau. Ég hef verið svona 6 ára, ég veit það vegna þess að ég man hvar við bjuggum á þessum tíma. Það þýðir að mamma hefur verið 22 ára! Í minningunni er hún samt svo fullorðin og ég man líka hvað mér fannst hún mögnuð að geta þetta án þess að brjóta skurnina :)
Ég hef alls ekki verið nógu dugleg að föndra með börnunum mínum, svona ef maður tekur mið af fönduráráttunni sem ég er haldin. Það finnst mér sorglegt, sérstaklega þegar ég hugsa um það hvað mínar minnangar um þessar stundir eru notalegar. Börn eru líka svo ótrúlega hugmyndarík og þegar þau komast á flug geta ótrúlegir hlutir gerst. Það sýndi sig um daginn þegar við Litli sameinuðum krafta okkar og hönnuðum og saumuðum, ugluna Ólaf og músina Mörtu :)

Litli átti hugmyndina nánast skuldlaust. Það eina sem ég stakk upp á var að sauma bangsa. "Já mamma! Saumum uglubangsa, og setjum mús í magann á henni af því að uglur veiða mýs!"

Hann teiknaði sniðin:




Og hann valdi efnin:


Ég klippti...


Og hann skemmti sér konunglega!


Ég var á saumavélinni en hann festi augun í:


Og hann vandaði sig mikið :)


Svo var ekkert eftir nema troða í Ólaf...


Og ánægjan með afraksturinn var einlæg og gleðin leyndi sér alls ekki!


Ólafur og Marta prýða nú herbergið hans og ég hef ekki tölu á þeim skiptum sem hann er búinn að spyrja mig hvenær við getum saumað annan bangsa :)



Heyrumst! ;)

þriðjudagur, 9. september 2014

Mini-makeover, part two

Ég er þeim kosti eða lesti gædd, fer eftir því hvernig á það er litið, að þurfa að hafa allt í röð og reglu og hreint í kringum mig. Að minnsta kosti þar sem það sést. Ég hef alltaf átt svona Monica´s closet þar til við eignuðumst hús með bílskúr. Þá varð þetta Monica´s garage. Þegar við Gummi byrjuðum að búa tók ég húsmóðurhlutverkið mjög alvarlega. Við höfðum leigt okkur 90 fermetra íbúð í Kópavoginum, Gummi var í fullu námi og ég í fullri vinnu. Ég ætlaði sko aldeilis að standa mig! Fyrst eftir að við fluttum kom ég því samviskusamlega heim úr vinnunni rúmlega fimm og þreif alla íbúðina. Þurrkaði af, ryksugaði og skúraði. Daglega. Þetta entist í uþb. viku. Þá kom Gummi að mér þar sem ég sat grátbólgin á forstofugólfinu með skúringafötuna í fanginu, algjörlega buguð. Ég man að ég hugsaði: "Ég verð aldrei almennileg húsmóðir" en það sem ég sagði var: "Gummi, ég bara get ekki meir!"  Ég hef lagast töluvert síðan þá, sem betur fer... ;)

Ég ætla að gefa ykkur tvö sjónræn dæmi.

Númer eitt. Á mínu heimili er öllum bókum raðað eftir lit. Einfaldlega vegna þess að það lúkkar betur! Nú fá einhverjar mannvitsbrekkurnar og bókasafnsfræðingarnir eflaust hland fyrir hjartað. En svona er ég bara, það gæti verið verra :) Eins og glögg augu greina þá eru þetta Disney bækur á myndinni hér til hliðar. Við vorum áskrifendur af þeim í fjöldamörg ár eins og sjá má og allan tímann velti ég því fyrir mér afhverju í ósköpunum þeir gáfu bara út EINA brúna bók! Á tímabili var ég að hugsa um að henda henni...

Númer tvö. Legókubbarnir eru líka flokkaðir eftir lit. Það er reyndar ekki bara fyrir lúkkið, þó að það skemmi alls ekki fyrir, heldur hef ég komist að því að Litli leikur sér frekar með þá eftir að ég tók upp þennan háttinn...








Ókei þá! Upphaflega var þetta gert fyrir lúkkið en hitt var jákvæð afleiða! :)


En að verkefni vikunnar. Ég hef alveg látið baðherbergið í nýja húsinu eiga sig síðan við fluttum inn. Einfaldlega vegna þess að það var alltaf á planinu að taka það í gegn. Það er ofboðslega lítið, ég ætla að leyfa mér að segja svona uþb. 6 fermetrar að sturtuklefanum meðtöldum. Þar er heldur engin innrétting fyrir utan smá skáp fyrir ofan vaskinn. Það kom svo til að klóakið var myndað hjá okkur í sumar og dómurinn féll. Nýtt klóak yrði að vera á fimm ára fjárhagsáætlun Framkvæmdahallarinnar ef við vildum ekki eiga það á hættu að það rigndi yfir okkur hlandi og skít. Það var því boðað til stjórnarfundar og ákveðið var að safna fyrir klóakinu, baðherberginu og þvottahúsinu og gera þetta allt í einu innan þess tímaramma sem okkur var gefinn. Og þá fór nú allt á flug í hausnum á mér. Ef ég hugsanlega þyrfti að bíða í 5 ár, sem ég vona nú ekki, þá VARÐ ég að gera eitthvað í þessu.

Og fyrir eina ferð í IKEA og 30.000 krónur gerðust þessi undur:



Ný klósettseta og lítil Ribba renna með smá dúlleríi...


Þetta júnit sem ég boraði á vegginn er svo ótrúlega sniðugt! Hægt að fá rennurnar í tveimur lengdum, snagarnir eru seldir fjórir saman í pakka og svo er hægt að fá allskonar dót til að festa í rennurnar meðal annars þessa hillu. Skúffueiningin undir vaskanum er í raun skrifstofuvara en þar sem vaskurinn er svo lágur fann ég ekkert annað sem komst undir hann. Ég sleppti því meira segja að setja hjólin undir hana til að koma henni fyrir þarna...



Svo skellti ég lengri gerðinni af þessum rennum á vegginn á bakvið hurðina og setti hvorki meira né minna en tólf snaga á hana... Það var kanski smá overkill :) En það er þá bara hægt að hengja þarna nóg af handklæðum og sveittum íþróttafötum. Spegillinn er líka úr IKEA og stækkar þetta litla bað um allan helming!




Og nýtt ljós í loftið and we´re all done!


Heyrumst...

mánudagur, 1. september 2014

Nammi-namm!

Ég er búin að vera í vinnugallanum alla helgina að taka til og mála bílskúrinn svo ég geti frelsað heimilið mitt og þá sem þar búa undan öllu draslinu sem fylgir mér. Það verður líka frábært að geta staðið upp frá því sem maður er að gera án þess að þurfa að ganga frá eftir sig... Af því að það geri ég alltaf! ;) Stundum hef ég mig ekki í hlutina af því að það er ekkert sérstaklega gaman að vera alltaf með stofuna fulla af spreybrúsum og sandpappír og húsið ilmandi eftir því... Og það er heldur ekkert gaman að þufa alltaf að ganga frá eftir sig. Þetta er svona svipað og þegar barnið spyr: "Mamma má ég sturta úr dótakössunum?" og mamman svarar: "Já, ef þú gengur frá eftir þig!" Þetta er ávísun á að barnið snarhætti við að leika sér að dótinu. En þegar vinnustofan verður tilbúin skal ég lofa deila henni með ykkur.

Svo er ég líka komin á Facebook! Endilega líkiði við síðuna mína og deilið henni, hana má finna HÉR.

En að verkefni vikunnar. Við á mínu heimili, þe. við fullorðni helmingurinn, erum algjörlega LKL frelsuð. Þeir sem þekkja okkur hafa sennilega ekki farið varhluta af því ;) Hinn helmingurinn, Litli og Stóri, var svo settur í sex vikna nammibindindi. Hvað er þá meira við hæfi en að föndra nammikrúsir og stilla þeim upp í hillu í eldhúsinu! Flokkast það kanski undir einhverskonar form af ofbeldi? :) Mér til varnar ætlaði ég að hafa tyggjókúlur í krukkunum en fann engar nógu stórar og flottar!

Ég get ekki sagt ykkur hvernig þessi hugmynd fæddist. Ég hef alltaf verið pínu skotin í svona DIY krukkum með einhverjum áföstum plastdýrum á lokinu sem búið er að spreyja í öllum regnbogans litum. Ég var svo í Góða í dag og rak augun í þessa "svöngu" froska og fannst þeir eitthvað svo tilvaldir á svona nammikrukkur. Svo sá ég þessa kertastjaka og datt í hug að það gæti komið vel út að líma krukkurnar ofan á þá til að gera meira úr þessu öllu saman. Krukkurnar sjálfar keypti ég í Nettó...






Þetta er alveg súper einfalt. Það er allt svona dúll bara frekar einfalt, það er meira bara að koma sér að verki. Ég byrjaði á því að líma "svangan" frosk á annað lokið með líminu á myndinni hér til hægri. Það á að vera alveg skothelt í svonalagað er mér sagt en ég hef ekki prófað það áður.
Svo stormaði ég með þetta út í bílskúr og spreyjaði með spreyi sem ég átti. Ég þarf nú að fara að skipta um lit, en það er bara endalaust í þessum brúsum og svo pössuðu litirnir líka bara svo vel í eldhúsið. Ég límdi svo krukkuna á kertastjakann þegar ég var búin að spreyja hann.

Æi, mér finnst þetta voða krúttlegt! Ég sé þetta alveg fyrir mér í allskonar litum, með allskonar fígúrum á lokinu og á allskonar útgáfum af fæti... Væri til dæmis tilvalið borðskraut í barnaafmæli, eða undir jólakonfektið, eða páskanammið... Bara í rétta litnum!


Nú getum við fjölskyldan starað löngunaraugum á þetta þegar við sitjum við matarborðið og snæðum mat án alls viðbætts sykurs! ;)
Þangað til næst...