þriðjudagur, 16. desember 2014

Hugmyndir af hekluðum jólagjöfum

Það er vika í jól. Úti er snarvitlaust veður, alveg eins og það á að vera í desember. Ég er búin að berjast í gegnum fjúkið að sækja Litla í skólann og við erum búin að fá okkur heitt kakó. Af því að samkvæmt öllum settum reglum í heimi níu ára, þá fær maður sér heitt kakó þegar svona viðrar!

Ég setti mér það markmið í haust að sem flestir fengju heimatilbúnar jólagjafir í ár. Að minnsta kosti að hluta. Ég skal viðurkenna að þetta er búið að valda mér töluverðum höfuðverkjum svona inn á milli, og ég er oft búin að hætta við. En þetta er að hafast, svona nokkurnveginn...
Og af því að ég ætlaði að vera komin í jólafrí frá blogginu, en get ekki slitið mig frá því, þá langar mig að nota þessa viku til að deila með ykkur tveimur hugmyndum af tiltölulega fljótlegum og afar einföldum hekluðum hugmyndum af jólagjöfum. Þetta eru engin geimvísindi, en voða sætt... :)

Í fyrsta lagi tekur ekki nema klukkutíma að hekla eina svona og ganga frá henni. Að því gefnu að maður eigi allt í hana að sjálfsögðu...


Og þær taka sig svona brjálæðislega vel út í kössum sem ég keypti í Söstrene Grene:


Það tók mig smá tíma að átta mig á hversu margar lykkjur þyrfti, en á endanum komst ég að því að í fullorðinsslaufu er 14 lykkjur á heklunál nr 4,5 passlegt og 10 lykkjur í barnaslaufu. Svo er bara að hekla fram og til baka þar til tvöfaldri lengd á slaufunni er náð og svo er hún saumuð saman í hliðunum og tekin saman í miðjunni. Mér fannst koma betur út að nota efni til að taka þær saman en að hekla lítinn renning. Ég notaði aðferð sem kallast tweed-hekl í mínar slaufur.


Og svo í öðru lagi tekur um það bil tvær klukkustundir að hekla eina svona tusku...


Og þær eru frábær leið til að æfa sig á nýjum aðferðum við heklið, bæði í stykkjunum sjálfum og köntunum. Í þessar notaði ég að sjálfsögðu 100% bómull og fylgdi leiðbeiningum af munstrunum úr Stóru handavinnubókinn.



Æi sjáiði hvað þær eru sætar! 


Þá er ekkert að gera nema spýta í lófana og halda áfram...
Tíu tuskur to go!
;)


miðvikudagur, 10. desember 2014

Föndurstund með frænku...

Ég fékk ótrúlega skemmtilega heimsókn um síðustu helgi. Amma og afi komu alla leið frá Akureyri með tvö lítil frænkuskott í farteskinu. Við skemmtum okkur konunglega! Fórum í sund, sáum Línu Langsokk og skólaleikrit hjá Litla, borðuðum rosalega mikið af smákökum og drukkum heitt kakó með og svo varð ég að sjálfsögðu að standa undir væntingum og slá upp föndurstund :)

Það verður aldrei lögð nægjanleg áhersla á það hversu mikilvægt það er að gefa börnum af tíma sínum. Veita þeim óskipta athygli, þó ekki sé nema í smá stund, það gefur svo margfalt til baka! Ég geri mér fulla grein fyrir því að oft er tíminn af skornum skammti, en stundum borgar sig bara að láta þvottinn bíða. Ég er svo langt frá því að vera saklaus og læt tölvuna allt of oft passa fyrir mig, en svona föndurstundir eru frábær leið til að kynnast börnunum okkar betur, þau eru skemmtilegt fólk. Ég vildi óska þess að ég gerði þetta oftar...

En að föndrinu, sem var einstaklega vel heppnað! Ég hugsaði með mér að þetta yrði að vera eitthvað tiltölulega einfalt því ég vissi ekki hversu öflugir föndrarar frænkurnar væru (það kom svo í ljós að þær eru alveg keppnis!). Þetta mátti helst ekki innihalda mikið límsull og svo finnst mér alltaf skemmtilegra þegar útkoman er eiguleg :)

Svo ég fór í Tiger. Þar fékk ég allt sem þarf: Skrautlegan pappír, vír, perlur, bönd og hringlaga piparkökuform í þrem stærðum. Það er að sjálfsögðu hægt að nota misstór glös eða hvað sem er! Svo var bara að byrja!



Við byrjuðum á að velja okkur pappír og teikna á hann eftir formunum og klippa út hringina. Þeir eru svo brotnir saman eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Því næst er klipptur passlega langur vírbútur og gerð lítil lykkja á annan endan. Svo er bara að þræða stærsta hringinn upp á vírinn. Næsta skref er að þræða 3-4 perlur á hann áður en að hringur númer tvö er settur á vírinn. Þetta er gert til að það myndist smá bil á milli pappíshringjanna á vírnum. Svo settum við aftur 3-4 perlur á vírinn áður en minnsti hringurinn var þræddur upp á hann. Í lokin voru svo settar nokkrar perlur á toppinn áður en gerð var lykkja á vírinn fyrir bandið. 


Þetta heppnaðist svona líka ljómandi vel hjá okkur en myndavélinn á símanum náði engan veginn að fanga fergurðina... ;)

Æi mér finnst þetta hrikalega krúttlegt! :)




Mig langar svo að lokum að minna ykkur á Facebook síðuna mína, en hana finnið þið HÉR. Endilega smella einu læki á hana.

Og svo eru það hálsmenin, loksins hægt að panta þau aftur eftir að þau seldust upp í nóvember. Tilvalið í jólapakkan handa litlum snúllum!
Pantanir mega berast á verkefnivikunnar@gmail.com eða í einkaskilaboðum á Facebook.



Góðar föndur-stundir... 

föstudagur, 5. desember 2014

Innlit...

...Það fyrsta af mörgum!

Það er til svo mikið af smekklegu, handlögnu og hugmyndaríku fólki. Ég er umvafin slíkum snillingum. Allir veita þeir mér innblástur, hver á sinn hátt. Ég átti erindi til einnar gamallar og góðrar vinkonu minnar í vikunni (vinkonan er ekki gömul, ég er bara búin að þekkja hana rosalega lengi ;) ) og þá rak ég augun í aðventuskreytinguna hjá henni. 



,,Vá! En sniðugt! Hvar fékkstu þennan?" Spurði ég, og átti þá við kertavasann. Það kom þá upp úr kafinu að hún hafði gert sér lítið fyrir og búið hann til. Vasinn er úr Söstrene og límmiðarnir eru úr A4. 


Hugsunin er svo að strika yfir hvern dag sem líður fram að jólum með glærupenna! Mér finnst þetta alveg yfirmáta smart og skemmtileg hugmynd. Svo ef þú, lesandi kær, ert ekki búin að græja aðventukrans þá er þetta alveg málið. Einfalt og Fljótlegt!


Eigið nú alveg dásamlega helgi og reynið eftir fremsta megni að staldra aðeins við og bara njóta aðventunnar.


þriðjudagur, 2. desember 2014

Öðruvísi jólaskraut...

...Á nokkrum mínútum!

Ég á töluvert af afgöngum frá því ég gerði diskamotturnar í síðustu viku og er með fullt af hugmyndum hvernig hægt væri að nýta svona krossviðsplötur í eitthvað skemmtilegt. Ég er rosalega oft spurð hvar ég fái allar þessar hugmyndir. Ég get eiginlega ekki sagt það. Ekki af því að ég vilji það ekki, heldur af því að ég veit það ekki. Og stundum finnst mér ég alls ekkert hugmyndarík. En ég skal samt reyna. Stundum sé ég eitthvað í tímaritum, á netinu eða bara út í búð sem mér finnst fínt og mig langar að prófa að gera. Stundum kasta ég öllu frá mér og rýk í málið, en stundum er hugmyndin að gerjast í kollinum á mér í langan tíma og svo bara allt í einu er ég búin að framkvæma hana án þess kanski að hafa ætlað mér það. Stundum geri ég bara nákvæmlega eins og einhver annar en stundum spretta nýjar hugmyndir af hugmyndum annara. Í þessu tilfelli var ég til dæmis ekkert að fara að gera neitt jólaskraut. Ég var bara að leika mér að því að prófa að mála á krossviðinn með málningu sem ég átti...




Þegar hingað var komið við sögu, lagði ég plöturnar bara frá mér. Svo í gær, röltum við Gummi Laugaveginn og kíktum meðal annars í verslunina Brynju. Og þar rak ég augun í þetta hér:


Og þá mundi ég eftir nokkru sem ég hafði einhverntíman séð og alltaf ætlað að prófa. Í því tilfelli voru notaðar hjarir í bland við skráargöt. Það var töluvert stærra en þetta sem ég gerði og límt á gamla skáphurð. Mjög fallegt en passaði ekki inn heima hjá mér.. Aðeins fáeinum mínútum eftir að ég kom heim var þetta svo tilbúið. Enda rosalega fljótlegt að líma bara stykkin á plöturnar með límbyssu.


Öðruvísi... en mér finnst þetta kúl!