þriðjudagur, 28. október 2014

Afsakið hlé...

...vegna anna og of miklu af hugsi!

Ég ætla samt að byrja á því að þakka frábærar viðtökur við hálsmenunum úr síðasta pósti! Vonandi eru allar litlu skvísurnar sem hafa eignast svoleiðis síðan þá himinsælar... ;)

Stundum vildi ég að einhver gæti komið sér haganlega fyrir inn í höfðinu á mér og tekið til. Bara flokkað í burtu óþarfa pælingar og skilið eftir allar góðu hugmyndirnar sem vert er að framkvæma. Um tvö-leytið í dag kom betri helmingurinn heim og nappaði mig þar sem ég sat með úfið hár og enn í sveittum íþróttafötum frá því í morgun, að bisast við að útfæra verkefni vikunnar. Ég viðraði hugsanir mínar við hann. Hann sagði ekki margt en náði sér í blað og penna og rissaði eftirfarandi upp:


Hann meinti vel, en ég veit ekki hvort þetta er málið... :D

Fyrir nokkru síðan vatt samstarfskona mín á bráðamóttökunni sér að mér og spurði hreinskilningslega hvort að það mistækist aldrei neitt af því sem ég gerði. Ég fór nú bara að hlægja og hugsaði um allan sandinn af seðlum og tíma sem liggja í valnum vegna mistaka í framkvæmdagleðinni. Ég sagði henni að einhverntíman myndi kannski eitthvað svoleiðis rata á síðuna mína. Í dag er ég eiginlega nauðbeygð til að deila með ykkur mistökum! :D Einfaldlega vegna þess að ég hef ekkert annað fullklárað til að sýna ykkur!

Þetta byrjaði bara nokkuð vel sko. Ég var alveg búin að pæla svolítið í þessu og sjá þetta fyrir mér. Mig langaði að sauma út á striga einhverskonar geometriska mynd. En til þess að hún yrði jöfn og fín yrði ég að hafa stramma til að sauma í. Ég hafði keypt stramma sem hægt er að leysa upp í vatni fyrir nokkru síðan. Svo ég hugsaði með mér að ég myndi bara nota hann og leggja síðan myndina í bleyti... Hmmm??? Svo fór ég að hafa áhyggjur af því að striginn, sem er svartur, myndi lita garnið sem ég ætlaði að nota. Ég endaði því á að leggja bara strammann á strigann og stinga lítil göt með nálinni þar sem ég ætlaði að sauma og svo hófst ég handa...

Svona uppleysanlegur strammi býður samt upp á ótal möguleika... ;)



Þetta var bara ekki að gera sig! Varð allt skakkt og ójafnt... Grrrr... Mér finnst samt hugmyndin ennþá góð og ég geri aðra tilraun seinna! ;)

Ég fékk hins vegar fyrsta "alvöru" verkefnið mitt í hendurnar um helgina. Ég á lítinn vin sem er að fara að eignast sitt fyrsta herbergi og hann bað mig að hjálpa sér að græja það. Herbergið er ekki stórt, kannski 5 fermetrar en það hefur sko möguleika! Allt hefur möguleika...


Það sem sést á myndinni er það sem var til, það sem uppá vantar er í mínum höndum. Ég og eigandi herbergisins erum æsispennt að hefjast handa og leyfa ykkur að fylgjast með!


Svo langar mig að minna ykkur á facebook síðuna mína, endilega smella einu læki á hana ef þið eruð ekki búin að því, ég er að safna. Þið finnið hana hér :)


þriðjudagur, 21. október 2014

Jólin eru að koma... Svona næstum því!

Það var mikil gleði á mínu heimili í morgun þegar við litum út um gluggann. Við nefnilega elskum snjóinn! Enda akureyringar í húð og hár. Ég á svo ótal minningar úr snjónum á Akureyri. Mannhæðaháir skaflar. Skíði um hverja helgi, ja eða bara eftir skóla og vinnu, með kakó á brúsa. Ég og hin börnin í hverfinu á skautum á KA vellinum undir dansandi noðrurljósunum. Hljómar þetta ekki dásamlega? Þetta var svona, ég lofa, nákvæmlega svona ;)

Skammdegið er líka minn tími. Kertaljós, kósý og rútína... Mér finnst jólaundirbúningurinn líka dásamlegur, ekki bara jólin sjálf heldur þessi tími þar sem allt er á fullu í bakstri og jólagjafastússi. Fólk að hittast í kakó og smákökur, labba Laugaveginn í skammdeginu upplýstu af jólaljósum eða þramma í gegnum þvöguna í Kringlunni á aðventunni. Það er stemning! Mér finnst líka alveg ótrúlega gaman að skreyta fyrir jólin og í ár er ég uppfull af allskyns hugmyndum af jólaskrauti... Hver veit nema þið fáið að fylgjast með ;)

En í morgun fann ég hjá mér óseðjandi löngun til að gera snjókarl. Þeir eru ekki endilega bara jóla er það nokkuð? Ég skal viðurkenna að ég átti ekki allan efniviðinn í fórum mínum. Ég var búin að spá aðeins í þetta fyrr í haust þar sem ég fékk í hendurnar sleðann og skíðin sem sjást á myndinni hér til hliðar og var beðin um að gera úr því einhverskonar vetrarskreytingu. Það er svo sem engin ástæða til að tíunda þetta neitt frekar. Þetta eru engin geimvísindi. Það eina sem ég gerði sem sést ekki á myndunum er að ég málaði kúlurnar sem ég notaði í snjókarlinn með kalkmálningu sem í er smá gul slikja svo hann yrði ekki svona "neonhvítur". Annars er þetta bara spurning um að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn og ekki vera hræddur við að prófa sig áfram.


Æi er hann ekki mikið krútt? Alveg tilbúinn að skella sér á skíði með eyrnaband og allt! 


Alveg er ég viss um að einhver veltir því núna fyrir sér hvar ég fékk bakkann ;) Hann keypti ég í Blómaval bara núna í morgun. Alveg gordjöss!

En að allt öðru. Eins og dyggir lesendur mínir vita hefur mér ekki tekist að framleiða stelpu :) Ég á hins vegar tvo gull-drengi sem ég þakka fyrir á hverjum degi. Ég er alveg á því að örlögin gripu í taumana hvað þetta varðar því ef ég ætti stelpu þá væri ég sennilega gjaldþrota. Ég er alltaf að sjá eitthvað svo óendanlega sætt stelpudót, og ég alveg elska að fara í stelpuafmæli því þá hef ég afsökun til að kaupa eitthvað dúllerí. Í sumar fór ég í eitt slíkt og efst á óskalistanum hjá þeirri dúllu var hálsmen. Ég fór á stúfana og fann ekkert sem mér leist á. Sú fékk því ekki ósk sína uppfyllta í það skiptið. Ég er svo búin að hafa þetta á bakvið eyrað síðan og að lokum fæddist hugmynd í kollinum á mér og ég ákvað að prófa... hér er afraksturinn:









Ég er í skýjunum með útkomuna! Væri alveg til í að eiga eina litla í tjullpilsi með svona hálsmen...

Njótið dagsins!

þriðjudagur, 14. október 2014

Kalkmálning... Það er nú meiri snilldin!

Ég missti úr viku. Ég þarfa að læra að skipuleggja tímann minn betur. Ég get skipulagt heilu fataherbergin, bílskúrana og forstofurnar. Ég get flokkað leikföng í flokka og undirflokka... og undir-undirflokka alveg þangað til að það er eiginlega ekki hægt að leika sér að dótinu lengur! En að skipuleggja tímann minn er eitthvað sem ég á eftir að læra. Kanski þarf ég bara að forgangsraða betur. Ég ætla nefnilega alltaf að þrífa smá fyrst, áður en ég geri hitt og þetta. Eða bara rétt aðeins að koma reglu á þennan skápinn eða hinn. Þetta verður oft til þess að dagurinn er búinn þegar ég loksins klára það sem ég ætlaði bara aðeins að gera fyrst en það er ekki endilega brýnast! ;)



Ég rakst á þetta skilti í blómabúð um daginn. Og ég staldraði við og hugsaði með mér: "Ætli börnin mín séu óhamingjusöm af því að ég skúra reglulega og baka sjaldan? Eða er þetta bara góð afsökun til að þrífa ekki?" Dæmi hver fyrir sig, ég keypti allavegana ekki skiltið en ætla að reyna að bæta mig... ;)



En að verkefni vikunnar. Síðasta vetur fjárfestum við betri helmingurinn í símabekk nr. 2. Við bara stóðumst hann ekki. Hann var hrikalega ljótur og illa lyktandi eins og hann var en við sáum bæði möguleikana. Gummi er nefnilega búinn að læra að ég hef alltaf rétt fyrir mér... Að minnsta kosti þegar kemur að svonalögðu ;)


Um daginn var svo komið að því að gera gripinn upp. Við vorum ótrúlega sammála um efnisval og ég fékk svo bara frjálsar hendur með skúffuna og fæturna. Fyrst langaði mig til að ná þessu háglans hvítu en af því að það var brotið upp úr skúffunni á einum stað og platan var töluvert hoggin vissi ég að það yrði þrautinni þyngra að ná fullkomnun í því. Ég ákvað því að nota kalkmálningu og reyna bara að ná þessu vintage-lúkki í staðinn. Ég var með stóran hnút í maganum þegar ég byrjaði því ég hef aldrei notað svona kalkmálningu áður. En þvílík snilld! Hún þornar á augabragði og svo bara held ég að það sé ekki hægt að klúðra þessu með sandpappírinn. Ég er allavegana í skýjunum með útkomuna! 
Ég keypti málninguna í Föndru á Dalvegi, þurfti tvær umferðir og engann grunn. Ég pússaði ekki einu sinni!




Svo var bara að fara með gripinn í bólstrun og haldið ykkur fast... Er ekki útkoman dásamleg?!


Það eina sem ég er ekki viss með er haldan sem ég valdi á skúffuna en það er nú lítið mál að breyta því. Hvað finnst ykkur? Ætti hún kanski að vera dekkri?



Þessi elska fékk svo stað í forstofunni og þvílíkur munur!


Þetta er ekki fyrsta og alveg örugglega ekki síðasta húsgagnið sem við látum bólstra fyrir okkur. Ég skal deila hinum með ykkur við tækifæri. Það eru ótal ástæður fyrir því að mér finnst gaman að gera upp gamla hluti. Fyrst og fremst heilla formin og lögunin mig. Í öðru lagi gerir það hlutinn einstakan og persónulegan að blanda svona gömlu við nýtt og leggja sem allra mest af vinnunni til sjálfur. Og í þriðja lagi leifi ég mér að segja að gömul húsgögn eru oftar en ekki vandaðri í grunninn en það sem framleitt er í dag.  
Æ lovitt mar!