þriðjudagur, 17. júní 2014

Neon-æðið skollið á í Framkvæmdahöllinni...

Það er kominn 17. júní! Hvert flýgur tíminn eiginlega? Þegar ég horfi á dagatalið líður mér pínu eins og sumarið sé bara búið... En það er þannig að tíminn flýgur þegar það er gaman. Svo ég kvarta ekki!

Við fjölskyldan ætlum að prófa að eyða þessum þjóðhátíðardegi í Kópavogsbæ, athuga hvort þar ráði maður hvort maður fari til hægri eða vinstri og hvort hugsanlega maður sleppi við að koma heim með candy-flossklístur á buxnaskálmunum :) Ég er ekki mikið fyrir múg og margmenni... ;)

En að verkefni vikunnar. Ég er búin að sitja sveitt við hárbandagerð þessa vikuna. Ég ætla nefnilega að skella mér á handverkshátíðina í Eyjafjarðasveit í ágúst svo ég þarf að vera dugleg að sauma í sumar ;) Á myndinni hér til hægri eru tvær útgáfur af hárböndunum sem ég gerði til að gefa tveim litlum 8 ára vinkonum mínum í afmælisgjöf. Hárböndin verða svo fáanleg í ýmsum litum og stærðum og engin tvö verða eins, blómin og slaufurnar eru með smellum svo hægt er að skipta um skraut á bandinu!

Milli þess sem ég saumaði hárbönd, blóm og slaufur sat ég og heklaði þennan púða. Mig hefur lengi langað að gera svona hringlaga púða í akkúrat þennan stól. Í púðann notaði ég Álafosslopa af því að hann er grófur og til í neonlitum. Ég er alveg kolfallinn fyrir þeim...

Ég hafði lopann tvöfaldan og notaði nál nr 8. Heklaði svo framhliðina tveimur umferðum stærri en bakhliðina til að samkeytin yrðu aðeins inn á bakhliðina á púðanum, mér finnst það bara fallegra svoleiðis.

Ég ætlaði nú bara að kaupa fyllingu í púðann en fann enga kringlótta. Og þegar ég fór að leita að ódýrum púða sem ég gæti þá bara sett inn í minn komst ég að því að það er illfáanlegt. Ég keypti þess vegna bara hvítt léreft og tróð og saumaði fyllinguna.

Svo var bara að lykkja herlegheitin
saman og setja fyllinguna inn í...


Tada!

Innblásin af blómunum sem ég var að gera á hárböndin langaði mig að sjá hvernig þau kæmu út sem veggskraut. Ég fór því og keypti striga og lét strengja hann á röngunni á rammann og þetta er útkoman:




Heildarútkoman bara nokkuð góð og tvímælalaust framför frá því sem áður var... :)




Þetta dásamlega borð fékk ég Góða fyrir slikk og eftir þrif
og tekkólíuáburð lifnaði heldur betur yfir því!


Borðið eins og nýtt!


Gleðilegan þjóhátíðardag kæru vinir!





þriðjudagur, 10. júní 2014

Pennastatíf... þetta þarf ekki að vera flókið til að vera fínt!

Hvítasunnuhelgin er liðin, við fjölskyldan eyddum henni á "Hótel Halldóru" á Akureyri þar sem dekrað var við okkur alla helgina. Það jafnast ekkert á við að vera hjá ömmu og afa í nokkra daga. Maður kemur endurnærður heim. Alltaf.

Verkefni þessarar viku er því af smærri gerðinni, en ótrúlega sniðugt engu að síður! Ég rakst á þessa hugmynd einhversstaðar fyrir löngu síðan og hef alltaf ætlað að prófa þetta. Þetta tekur nákvæmlega 16 mínútur og 40 sekúndur ef maður á allt sem þarf! :) Og það sem þarf: Límbyssa, áldós, trélitir/blýantar og sprey í réttum lit.

Það er einfaldlega byrjað á því að líma
litina/blýantana utan á áldósina með límbyssunni.

Svo er gripurinn bara spreyjaður!
Þetta þarf ekki að vera flókið til að vera fínt...



Ég ætlaði að stoppa þarna en af því að ég átti nokkrar áldósir í viðbót, og Litla vantaði pennastatíf í herbergið sitt, ákvað ég að gera fleiri. Þessi gerði ég einfaldlega með því að sníða til efni sem ég átti ofan í skúffu og líma utan á dósirnar með Mod Podge. Ég notaði möttu tegundina og fór svo tvær umferðir yfir í lokin þegar efnið var komið á.


Þangað til næst...

mánudagur, 2. júní 2014

Mix and match...

Ég byrjaði snemma að eiga börn. Ég er að ferma frumburðinn á sama tíma og vinkonur mínar eru með slef og ælu á öxlinni. Það hefur bæði sína kosti og galla. Kostirnir eru þeir að ég get kjassast í litlum krílum þegar ég vil og skilað svo... Kanski svolítið eins og ömmur hafa það. Ég á tvo stráka og stundum held ég það hafi allt saman verið útpælt hjá æðri máttarvöldum því ef ég ætti stelpu væri ég sennilega farin á hausinn. Það er svo mikið til af fallegum stelpufötum! 

Ein af mínum bestu vinkonum varð þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast dásamlega fallegt stelpukrútt fyrir örfáum mánuðum síðan. Þessi vinkona mín er hægt og rólega að uppgötva heim barnatískunnar og það er svolítið gaman að fylgjast með því. Hún keypti td. hárband á litlu dömuna um daginn og þegar ég heyrði hvað hún mátti borga fyrir það blöskraði mér. Ég skoðaði hárbandið í bak og fyrir. Nærbuxnablúnda með áföstu blómi. Svo einfalt var það nú. Voða sætt en einfalt og yfirverðlagt. Þetta var borðleggjandi dæmi, ég varð bara að spara henni skildinginn og græja hárbönd á barnið og það mörg!

Ég fór á stúfana í leit að efnivið og rak nefið inn í Virku í Mörkinni. Þar ofan í kjallara fann ég himnaríki! Já, einmitt... átti ég bara að velja úr þessu?



Þetta hárbandaverkefni vatt svolítið upp á sig og í þetta sinn ætla ég að leyfa myndunum að tala...

Ég saumaði 4 hárbönd og setti á þau smellur.
Bjó svo til blóm og slaufur og setti líka smellur á það.
Með þessu móti get ég alltaf bætt við blómum
og slaufum eftir litaóskum móðurinnar ;)


Jeminn þetta er svo sniðugt! Mix and match hárbönd... Hvaða mamma vill það ekki?


Ooog to go with it: Kjólar og samfestingar!







Barnið er svo ekki af verri endanum... Gullfalleg alveg hreint!






Eru ekki svona litlar tær það sætasta í heimi?!


 Það skemmtilegasta við þetta verkefni var að sjá hvað mamman var innilega glöð með þetta...
Það er svo sannarlega sælla að gefa en þyggja!