mánudagur, 26. maí 2014

Washi tape mania!

Ég er hrædd við tannlækna. Alveg stjarnfræðilega hrædd. Ég er eiginlega hræddari við þá en flugvélar. Ekki fyrir svo löngu síðan, þegar ég fór til tannlæknis af því að ég hafði misst fyllingu, spurði ég hana hvað ég gæti eiginlega gert til að koma í veg fyrir að þetta endurtæki sig. Og svarið: "Númer 1, 2 og 3 er að borða ekki karamellur". Þar fór í verra! Uppáhalds nammið mitt eru nefnilega Bingókúlur.
Þær eru bara einhvernvegin fullkomin blanda af lakkrís og dökku súkkulaði. Næst þegar ég kom til hennar var ég sigri hrósandi, ég hafði fundið "örugga" leið til gæða mér á þessum unaði. Ég bræði þær í potti ásamt rjóma og suðusúkkulaði og helli þeim út á ís :) Það er ekki hægt að lýsa því með orðum hvað þetta bragðast vel... 1 poki af Bingókúlum, 1 plata af suðusúkkulaði og 1/2 líter af rjóma, þið bara verðið að prófa!

Ég fékk hins vegar skyndihugmynd í gær. Ég var að vafra um netið eins og svo oft áður og googlaði washi tape. Ég skoðaði bara myndirnar. Þið ættuð að prófa það ef þið hafið ekki þegar gert það. Það er bara hafsjór af hugmyndum til að gera ótrúlega flotta hluti úr eins einföldum hlut og límband nú er. 







Ég átti dágóðan slatta af svona límbandi svo ég ákvað að prófa mig aðeins áfram. Það er jú ekki mikið mál að fjarlægja svona af veggjum og öðrum húsbúnaði ef illa tekst til. 










Þessi fannst mér sniðug og ákvað prófa. Ég er ekki búin að gera það upp við mig hvort hún fái að vera eða verði látin fara...










Seinni tilraunin var aðeins útpældari. Innblásin af púðanum á hjónarúminu kviknaði hugmyndin í kollinum á mér. Ég náði mér í blað og penna og teiknaði upp litla fuglinn á púðanum. 
Þetta lofaði ekkert séstaklega góðu en með það hugfast að það mætti alltaf rífa þetta niður hélt ég áfram.



Ég náði mér í hallamál, stóra reglustiku og blýant og teiknaði upp rúður á vegginn í svefnherberginu. Og svo varð þessi til og mér finnst hann æði!


Hann gerir alveg ótrúlega mikið fyrir herbergið og fær klárlega að vera...



þriðjudagur, 20. maí 2014

Vegghillur, svo einfalt að það er hlægilegt!

Ég hef alltaf verið sökker fyrir svona gamaldags trékössum. Ég átti samt enga af því að ef þeir eru fínir þá kosta þeir alltaf annan handlegginn og svo hef ég aldrei almennilega vitað hvað ég á að gera við þá. Ekki get ég haft þá á pallinum og sett í þá blóm því þau myndu ekki lifa í minni umsjá. Kaktusar væru hugsanlega einu plönturnar sem ég gæti annast. Ég var svo á röltinu í Rúmfatalagernum um daginn og rakst á kassana á myndinni hér til hægri. Þrír saman á tæpar 5000 krónur. Ég stóðst ekki mátið þó að ég vissi ekkert hvað ég ætlaði að gera við þá og keypti tvö sett! Já svona er ég, ég hef bara svo oft rekið mig á að hlutirnir klárist ef maður grípur ekki gæsina þegar hún gefst ;)

Ég var svo að fletta einu af mínum uppáhalds blöðum, Bolig LIV, þegar ég sá þessa mynd hér:


Þetta fannst mér fínt! Ég hafði hins vegar enga þörf fyrir skóhillu í forstofuna, ég bý nefnilega svo vel eftir að ég flutti að ég er með tvær forstofur. Eina fyrir okkur fjölskylduna og allt okkar drasl og aðra fyrir gesti og gangandi. En af hugmyndum spretta hugmyndir og á 3 mínútum var ég búin að útfæra þetta í kollinum á mér. 

Á þessum vegg skildu mínar hillur hanga!

Þegar ég er í ham verða hlutirnir að gerast hratt og örugglega. Ég átti engar svona trékúlur eins og búið var að þræða á böndin á hillunni á myndinni og það var allt of tímafrekt að fara að æða í föndurbúð til að kaupa þær. Fyrir utan tímann sem það tæki að spreyja eða mála þær og bíða svo eftir að þær þornuðu! Ég átti hins vegar þessar hér. Þær eru frá Ferm Living og ég keypti þær á útsölu í Epal fyrir 2 árum síðan. Þær hafa svo bara legið upp í hillu og aldrei verið hengdar upp. Synd að fara svona með þær myndi kanski einhver segja, en ekki ég!
6 götum í vegginn og 10 mínutum síðar, já og smá brasi við að festa kúlurnar leit veggurinn í forstofunni svona út:


Svo var bara að finna eitthvað fínt dót til skreytinga... "Nu er entreen ligefrem hyggelig"!



Hinir 3 kassarnir sem ég keypti enduðu svo upp á vegg inni hjá Litla. Það eru endalausir möguleikar í þessu eins og svo mörgu öðru. Bara gefa hugmyndafluginu lausan tauminn!






þriðjudagur, 13. maí 2014

Gullmoli fyrir lítið!

Í gær var ein af mínum uppáhalds frænkum í sumarfríi... Sú hefur mikið skemmtanagildi og dagur með henni getur bara ekki klikkað! Hún hefur fylgst grannt með gangi mála hér í Framkvæmdahöllinni og allt í einu kviknaði hjá henni áhugi fyrir því að kíkja í Góða hirðinn. Hún bað mig um að koma með sér sem ég gerði að sjálfsögðu. Við mældum okkur mót á bílastæðinu klukkan tólf. Ég var aðeins of sein svo ég hringdi í hana til að segja henni að ég væri alveg að koma. "Elva, er þetta grín? Ég hélt bara að Duran Duran væru með tónleika hérna þegar ég renndi upp að húsinu og sá röðina! Það voru svona 60 manns í röð hérna fyrir utan þegar ég kom!" Henni var mikið niðri fyrir. "Ég var alveg viss um að ef það væru ekki tónleikar í uppsiglingu að þá hlyti þeim að hafa áskotnast risa teak-búslóð sem allir væru búinir að frétta af nema ég!" Hún þorði því ekki annað en að smella sér í röðina þó að ég væri ekki komin til að halda í hendina á henni. "Það er bara brjálað að gera" sagði hún við þann sem stóð við hliðana á henni í röðinni, sem hlýtur að hafa verið fastagestur því honum fannst hún hvorki fyndin né tók undir athugasemdina. Henni varð ljóst að hér var grafalvarlegt mál á ferðinni :D. Frænkan setti sig því í hlaupastellingarnar, tók kortið upp úr veskinu, setti það í rassvasann og var tilbúin í slaginn. Hurðin opnaðist og fólkið þusti inn. Þegar ég labbaði inn stóð hún eins og steinrunnin innan um gulu og brúnu illa lyktandi sófasettin sem taka á móti manni við innganginn. Vonbrigðin leyndu sér ekki og upp hófst skemmtilegasta ferð í Góða sem ég hef nokkurntíman farið!

Stundum er ekkert að finna í Góða hirðinum en stundum dettur maður niður á gullmola. Frænkan hefði þurft að vera með mér í síðustu viku þegar ég fann þennan.

Hann var ekki frýnilegur að sjá þarna innan um allt hitt, en þá verður maður að sjá möguleikana. Fyrir 1500 krónur var hann minn. Ég vissi strax hvað ég ætlaði að gera við hann. Brunaði niður í Slippfélag í Borgartúni og hitti þar Ævar sem er að verða góður vinur minn. Ég keypti af honum þrjá spreybrúsa og þetta undur hér: 


Þetta eru einskonar svampar sem þjóna sama tilgangi og sandpappír. Þeir eru til í tveim grófleikum og eru algjör snilld þegar maður er að pússa eitthvað þar sem maður vill komast inn í litlar raufar eða eitthvað sem er útskorið td. Ég pússaði vel yfir skápinn, fyrst með þessum grófari og svo þessum fínni og þreif hann svo með blautri tusku. Ég tók skúffurnar úr, skrúfaði höldurnar af og pússaði létt yfir þær þar sem þær voru mjög heillegar. Svo bar ég teak-olíu á allt nema skúffufrontana með fínustu gerð af stálull. Það er ótrúlegt hvað teak-olía gerir. Það var fullt af rispum á skápnum sem voru alveg hvítar en þær hurfu eins dögg fyrir sólu þegar ég var búin að bera á hann. Skúffufrontana spreyjaði ég svo með þrem mismunandi tónum af turkísbláum. Það þekur alveg stjarnfræðilega vel þetta sprey sem ég er farin að kaupa og það þurfti ekki nema eina umferð á frontana. Svo er brúsinn 5-700 krónum ódýrari en mörg önnur og verri svo þetta er bara win-win!

Mig hefur alltaf langað að gera svona, spreyja
skúffur í mismunandi tónum af sama lit.

Annað sem ég þurfti að gera var að verða mér út um lykil af skápnum. Hann var læstur þegar ég keypti hann og enginn lykill! En á öllum vandamálum eru lausnir. Þeir í Brynju á Laugavegi eiga riiiiiisa lyklakippu með gömlum lyklum sem þeir leigja út. Svo ferð þú bara heim og finnur þann rétta, merkir hann og kaupir af þeim eitt stykki. Ég fékk alveg kitl í magann af spenningi þegar ég heyrði af þessu ;) Í leiðinni keypti ég svo hjá þeim lítið skráargat sem ég negldi á skápinn.

Lykillinn góði og skráargatið.

Ég er ekki að ýkja, en svona verkefni tekur ekki nema 2-3 klukkutíma.
Þetta geta allir!

Litlu flöskurnar og álbakkann sem blómin eru í fékk ég í Fakó á Laugaveginum. Þar eru meðal annars seldar vörur frá Housedoctor. Ég límdi svo skrautteip á flöskurnar og bakkann, en teipið er líka frá Housedoctor. Blómin eru frá Sia, sem mér skilst að við Íslendingar fáum ekki að njóta mikið lengur því miður. Sérstaklega fyrir okkur sem getum ekki með nokkru móti haldið lífi í alvöru blómum...



Mig klæjar í puttana að halda áfram að brasast...
Sé ykkur í næstu viku!

mánudagur, 5. maí 2014

Einföld lausn!

Í síðustu viku kom málarinn og gluðaði grárri málningu á einn vegg í herberginu hjá Litla. Við völdum sama lit og við settum á tvo veggi í stofunni um daginn. Alveg ótrúlega fallegan gráan lit. Þetta er gluggaveggurinn í herberginu og því ekki mikið pláss til veggskreytinga. Það er þó smá ræma á milli glugganna sem eru tveir. Þar héngu áður verðlaunagripir drengsins sem mér fannst í ekki mikil príði af svona upp á miðjum vegg... Þeim hefur samt verið fundinn nýr staður í herberginu þar sem þeir hafa mikla þýðingu fyrir eigandann. Verkefni vikunnar var því að finna veggskreytingu við hæfi.

Mér finnst myndir dýrar. Jafnvel fjöldaframleidd plaköt í IKEA og ILVA geta kostað annan handlegginn og oftar en ekki eru þau lítið spennandi. Ég veit eiginlega ekki hvernig þessi hugmynd kviknaði. Mig langaði til að gera einhverjar myndir á viðarplötur. Þegar ég var að velta því fyrir mér hvernig við ég ætti að nota datt mér í hug að fórna einni Hansa hillu og þar sem það er teak skrifborð í herberginu fannst mér hugmyndin góð. Ég rauk af stað upp í Grafarholt þar sem Húsasmiðjan er með timbursölu og sögunarverkstæði. Gaurinn á verkstæðinu gerði sér lítið fyrir og sagaði eina hillu fyrir mig í þrennt þannig að hver plata varð 25x25 cm. Þegar ég fékk svo plöturnar í hendurnar áttaði ég mig á því að ég yrði að gera eitthvað við brúnirnar. Þær voru ýmist spónlagðar eða ekki. Ég mundi þá að mamma hafði einhverntíman talað um að kantlíma eitthvað. Ég mundi líka að hún hafði talað um að maður bara straujaði kantinn á. Ég er strau-sérfræðingur svo þetta gat ekki verið mikið mál! Maðurinn sem afgreiddi mig með "kantlímið" horfði hins vegar efasemdaaugum á mig og sagði: "þetta getur nú verið vandasamt verk vina mín".

Þetta er algjör snilld og
ekkert mál!
Allar myndirnar kantlímdar,
Svaka fínt!














Ég fór svo á smá flandur í leit að frekari efnivið í þetta föndur. Fundur ferðarinnar var klárlega þetta:


Rakst á þessi álbox með myndskreytingum eftir Paul Pava í Góða. Í hvoru þeirra var óopnað servíettubúnt og kaffikrús og fyrir herlegheitin borgaði ég heilar 800 krónur! Ég á vatnskönnu og glös úr þessari línu frá honum og mér finnst myndirnar ótrúlega skemmtilegar. Fyrir áhugasama má nálgast þessar vörur í Epal. Boxin ætla ég að hafa inni hjá Litla, ætla að drekka kaffi úr krúsunum og úr servíettunum föndraði ég tvær af myndunum:














Nashyrninginn gerði ég með því að líma servíettu á svona filmu eins og ég notaði þegar ég bjó til krukkurnar fyrir jólin. Svo prentaði ég mynd af nashyrning út af netinu, klippti hann út og teiknaði eftir útlínunum á bakhlið "servíettu-límmiðans". Ég hefði að sjálfsögðu bara getað klippt myndina út með skærum en ég notaði hníf ef ég skyldi vilja nota rammann af nashyrningnum.




Svo límdi ég nashyrninginn einfaldlega á plötuna og lakkaði yfir með möttu límlakki. Ég notaði svipaða aðferl við að gera L-ið. L-ið sjálft er úr tré og það fékk ég í Litir og föndur á Skólavörðustígnum. Ég festi það svo á plötuna með límbyssu. Púslu-nashyrninginn á myndinni hér til hliðar fékk ég svo í Minju á skólavörðustíg. Púslaði honum saman og hengdi hann á nagla á þriðju plötuna.



Glimrandi ánægð með útkomuna og eigandi herbergisins líka!
Einstök lausn í orðsins fyllstu merkingu...