miðvikudagur, 28. janúar 2015

Brasiddíbras... ;)

Ég las grein um daginn skrifaða af innanhússarkítekt sem mér er lífsins ómögulegt að muna hvað heitir! Hann var ekki íslenskur en margt af því sem stóð í greininni var alveg hreint eitursniðugt og alveg ókeypis! (Þetta hljómar pínulítið eins og erlendir innanhússarkítekrtar geti ekki verið sniðugir... En það var ekki það sem ég meinti :)
Eitt af því sem ég hjó sérstaklega eftir í greininni var að sé maður orðinn þreyttur á híbýlum sínum getur verið hressandi að bara raða skrautmunum upp á nýtt.

Ég er með hansahillur á þrem stöðum í húsinu. Eina einingu í eldhúsinu og tvær í stofunni. Ég bókstaflega elska þær! Mér finnst þær passa í hvaða rými sem er og möguleikar á uppröðun eru takmarkalausir. Ég ákvað að fara að ráðum þessa ágæta manns sem skrifaði greinina en að takmarka mig samt við hansahillurnar. Mér fannst eitthvað svo yfirþyrmandi að ætla að fara að endurraða öllum skrautmunum á heimlinu! Svo ég byrjaði á að tæma allar hillurnar á borðstofuborðið:


Þá komst ég að því að þó að mér finndust hillurnar hálftómar þá ég bara helling af dóti!

Eldhúsið eftir
Eldhúsið fyrir
Breytingin hér er kanski ekki mikil en samt finnst mér þetta mun hreinlegra. Þið ættuð að prófa að gera þetta, það er eins og sumir hlutir séu einfaldlega grónir á vissa staði!
Ég á mér nokkra uppáhaldshluti í þessari hillu:


Kimmi-dúkkurnar eru þar fremstar í flokki! Þær eru allar gjöf frá sömu vinkonu minni og hafa allar merkingu sem vísar í vinskap okkar... Fallegt!


Svo er það Tinni. Hann er líka gjöf og var keyptur á Tinna safninu í Brussel. Þangað þarf ég einhverntíman að komast! Það er alveg klárt mál. 


Og að lokum þessar dásamlegu uglu-bókastoðir sem ég keypti í Lauru Ashley...

Svo var það stofan, þar var líka eins og sumir hlutir væru óaðskiljanlegir:

Fyrir
Eftir


Þarna á ég mér líka uppáhaldshluti. Númer eitt eru það vasarnir sem eru á eftirfarandi myndum. Þeir funndust báðir í Góða með tveggja daga millibili. Litirnir og formin höfða svo ótrúlega til mín! Og svo eru það Shorebird fuglarnir frá Normann Copehagen. Ég var búin að gefa þeim auga í einhvern tíma en stóðst ekki mátið þegar ég komst að því að það er íslendingur sem hannar þá, Sigurjón Pálsson. Ég var svo heppin að fá mína áritaða...




Eftir
Fyrir

Þessi er nú hálftóm greyið. Og nú hef ég alveg óstjórnlega löngun til að spreyja skúffurnar í kommóðunni aftur hvítar! Hvað sagði ég? Ég vissi að þessi saga HÉR færi í hring einn góðan veðurdag.



Það voru svo tveir staðir í viðbót sem fengu andlitslyftingu:

Fyrir
Eftir


Fyrir
Eftir

Það sem ég hefði helst viljað gera var að mála með einhverjum fallegum litum á veggina inn í nokkrar af hillunum eins og ég gerði hér:


Myndirnar eru teknar úr 4. tbl Húsa og híbýla 2013
 En þar sem til standa breytingar á heimilinu sem munu kalla á að hillurnar verði færðar til, þá lagði ég það ekki á aumingja Gumma ;) Mér finnst þetta hins vegar koma ótrúlega vel út svona og á klárlega eftir að endurtaka þennan leik...


mánudagur, 19. janúar 2015

,,Myndlist" :)

Það er sko ekki fyrir hvern sem er að skreyta veggi heimilisins með ,,alvöru" lista- eða málverkum. Þau eru bara alveg rándýr! Meira að segja fjöldaframleiddar myndir úr IKEA eða ILVU geta kostað annan handlegginn.

Mig er lengi búið að vanta mynd eða myndir á vegginn fyrir ofan sjónvarpið. Mig vantar reyndar myndir á fleiri veggi en það er önnur saga. Ég var búin að prófa að gera þennan veggstubb doppóttann með vegglímmiðum sem ég reif jafnharðan af og sýndi ekki nokkrum manni! Svo var ég búin að láta mér detta í hug að setja bara upp hillur þarna, en ég á bara ekkert dót til að setja í fleiri hillur... Svo ég ákvað að prófa að gera bara mynd sjálf! ;)

Ég fór í Söstrene Grene og keypti mér striga og kreppappír. Svo náði ég í Mod Podge dolluna, acrylmálninguna góðu frá Mörthu Stuart sem má sjá í þessum pósti HÉR og virðist endast endalaust og svo að sjálfsögðu pensla. Þá var mér bara ekkert að vanbúnaði:



Ég byrjaði á að taka kreppappírinn og krumpa hann og krumpa og krumpa...


Svo límdi ég hann á strigann með Mod Podge...


Og festi brúnirnar aftan á ramman og klippti afganginn af.


Þá leit þetta svona út! Ég leyfði þessu ekki að þorna alveg áður en ég byrjaði að mála eingöngu vegna þess að ég hafði ekki þolinmæði í það :)


Til að fá málninguna til að renna betur þynnti ég hana út með slatta af vatni...


og þá leit hún svona út.


Ég byrjaði með gula litnum, bara strauk honum jafnt yfir með svamppensli.


Tók svo dökkgráan og gerði slíkt hið sama.


Ég ætlaði sko að gera par. En myndirnar urðu svona gjörólíkar þrátt fyrir að ég hafi notað sömu aðferð við þær báðar! Þarna liggur kanski munurinn á mér og myndlistafólki, það veit hvað það er að gera en ekki ég... :D 
Það var því ljóst að þær yrðu aldrei par.

Þegar dekkri myndin hafði þornað og var orðin vel ,,crunchy" tók ég gulan vaxlit, lagði hann flatan á myndina og strauk létt yfir hana alla. Þannig litaði ég bara krumpurnar gular og útkoman varð þessi:


Skemmtilegt, ekki satt?!

Svo var bara að þrusa þessu í ramma og hengja upp á vegg:


Ég meina, þetta er allt annað líf! Blindramman fékk ég líka í Söstrene sem og litlu myndirnar. Ramminn var reyndar silfurlitur en ég spreyjaði hann bara svartann, fannst það passa betur.




Hin myndin er ekki enn komin í ramma, en upp fór hún í dag engu að síður:



Ég er bara nokkuð sátt skal ég segja ykkur... Svona miðað við að þetta sé frumraun.
Þetta er að minnsta kosti ekki fjöldaframleitt! ;)










mánudagur, 12. janúar 2015

Staaaakur?!

Það býr hjá mér lítill álfur sem stelur stundum einum sokk. Hann stelur aldrei pari.. bara einum sokk. Stundum skilar hann sokknum en þá er ég yfirleitt búin að henda eða týna hinum! Ég er lengi búin að leysa þennan vanda með því að vera með taupoka í þvottahúsinu sem ég hef hent stökum sokkum í og svo þegar það er kominn slatti í pokann þá fer ég í gegnum sokkana og athuga hvort þar leynist kanski par.  Þetta fyrirkomulag hefur ekki verið vandræðalaust því ég nenni eiginlega aldrei að fara í gegnum pokann og nú var hann orðinn stútfullur. Í dag gekk ég svo vasklega til verks, fór í gegnum pokann og sá að álfurinn hafði skilað hvorki meira né minna en 32 stökum sokkum. (Það skal tekið fram að ég hafði ekki farið í gegnum pokann í rúmt ár) Það var löngu búið að bæta fjölskyldumeðlimum skaðann með sokkakaupum svo nú eigum við bara alveg rosalega mikið af sokkum! Ég ákvað svo að ráða bót á þessu máli og úr varð verkefni vikunnar:


Þetta er allt sem þarf... Ég sé það reyndar núna að ég hef skellt þarna Mod Podge dollu í staðinn fyrir málninguna sem ég notaði :D En þið ímyndið ykkur bara að þarna standi dolla af dásamlega fallega myntugrænni kalkmálningu frá Mörthu vinkonu minni Stuart... já og pensill! (Hvað er að mér? Roðn)


Svo var bara að skrifa textann á plötuna með límmiðunum, en þá fékk ég í Pennanum. Þeir fást reyndar út um allt. Svo átti ég þennan límrenning sem mér fannst upplagt að bæta við þetta.


Þá var ekkert að gera nema mála bara yfir herlegheitin...


...leyfa málningunni að þorna og taka svo límmiðana af!


Klemmurnar átti ég nú bara á snúrunni. Ég ætlaði fyrst að líma þær svona á plötuna, en ég sá fyrir mér að það myndi halda illa þar sem ég geri ráð fyrir að þetta verði í mikilli notkun ;)


Svo ég endaði á að festa snæri á plötuna sem ég límdi kirfilega aftan á hana með sterku teipi.


Og nú hangir þessi dásemd upp á vegg í þvottahúsinu mínu, ready to use! Ég held að mamma verði stolt af stelpunni sinni núna... ;)

   ...Þar til í næstu viku    







sunnudagur, 11. janúar 2015

Innlit nr. 2

Í haust uppgötvaði ég snilldar leir, ég birti færslu um hann í nóvember og hana má sjá HÉR. Í desember hélt ég svo föndurkvöld með tveimur mismunandi saumaklúbbum þar sem við bjuggum til pakkaskraut og merkimiða eins og enginn væri morgundagurinn! 






Við fórum svolítið út af jólabrautinni eins og sjá má á meðfylgjandi myndum:


Hér er búið að þekja leirinn fyrst með servíettu og Mod Podge og þegar það hafði þornað voru dýramyndirnar límdar ofan á, líka með Mod Podge. Myndirnar eru bara teknar af netinu, prentaðar og klipptar út.




 Og hér eru dýramyndirnar bara límdar beint á leirinn með Mod Podge.



Þetta hjarta varð líka til á öðru þessara kvölda og mér finnst það alveg hreint gordjöss! Hér eru nokkrar perlur þræddar upp á grannan vír. Því næst er nokkrum lengjum af vírnum vafið saman og í lokin er mótað hjarta. 

Það er hins vegar ekkert sem gefur mér meira en þegar mér tekst að veita öðrum innblástur! Og inblásin af þessu brasi mínu fékk svo góð vinkona mín hugmynd. Hún er skólahjúkrunarfræðingur, smekkleg með endemum og starfar meðal annars í Tjarnarskóla. Hún fékk þá frábæru hugmynd að færa samstarfsfólki sínu þar litla jóla-önd á jólahlaðborði starfsmanna. Þetta er einfalt, fljótlegt og ódýrt en gleður tífalt meira en keyptur konfektkassi!



Þetta er bara alveg sjúklega sætt og getur vel verið heilsárs-önd!