miðvikudagur, 26. febrúar 2014

Og áfram prjóna ég...

Ég átti afmæli í gær. Átti yndislegan dag með þeim sem mér þykir vænt um. Mikið óskaplega er ég heppin, með allt þetta fallega og góða fólk í kringum mig! Suma daga er lífið svo gott að maður bókstaflega veit ekki hvernig maður á að vera...


Það var heiðursgestur í boðinu. Yngsta viðbótin við vinahópinn, dásamlega falleg lítil stúlka. Skrýtið til þess að hugsa að ein af mínum bestu vinkonum sé að eignast sitt fyrsta barn á sama tíma og ég fermi mitt. Þessi litli gullmoli fæddist í nóvember og það er rúm vika síðan ég sá hana fyrst. Já, það er skammarlegt að segja frá því, en stundum heldur maður að maður sé uppteknari en maður í raun og veru er. Ég ákvað að reyna að bæta upp fyrir sinnuleysið og prjóna peysu á barnið.

Ég er búin að prjóna nokkrar peysur síðan ég lærði að prjóna. Mér er það lífsins ómögulegt að prjóna eftir uppskrift. Ekki af því að ég geti það ekki, heldur finnst mér það bara ekki skemmtilegt. Mér finnst helmingurinn af prjónaskapnum vera hugmyndin og litavalið. Amma á Akureyri hefur eflaus oft hrist hausinn þegar ég hringi til að fá ráðleggingar :).

Þessi peysa er sú fimmta sem ég prjóna í þessum stíl. Mér finnst hugmyndin góð, bæði af því að maður getur leikið sér svo mikið með litina og munsturbekkinn og svo er upplagt að geta hneppt vel frá hálsmálinu þegar svona litlir hnoðrar eiga í hlut. Þetta er líka mjög einföld peysa að prjóna. Ég studdist við mál af peysu úr prjónablaðinu Ýr sem var gefin upp fyrir 3-6 mánaða. Ég var með grófara garn og þá reiknaði ég lykkjufjöldan út miðað við prjónfestuna sem gefin er upp á garninu sem er í uppskriftinni og garninu sem á að prjóna úr. Í þessa peysu notaði ég SMART garn sem er norskt ullargarn sem má þvo í vél og ég prónaði hana á prjóna nr 3. Ég nota alltaf minni prjónastærðina sem gefin er upp á garninu af því að mér finnst fallegra þegar flíkurnar eru þéttar. Annað sem gott er að hafa í huga þegar prjónuð er peysa með laskaúrtöku, og engin uppskrift er fyrir hendi, er að auka ermarnar út þar til lykkjuföldin nær helmingnum af lykkjufjöldanum í búknum. Þá gengur úrtakan alltaf upp.

Ég er alltaf í bölvuðu basli þegar ég er að velja liti. Finnst allir litir svo fínir og möguleikarnir á litasamsetningum eru óendanlegir! En svona fór það í þetta sinn:


Svo eru það smáatriðin sem fullkomna verkið. Litla merkið sem ég saumaði í peysuna finnst mér algjört æði! Ég rakst einhverntíman á þetta í uppáhaldsbúðinni minni í Svíþjóð, Stoff och stil. Það er himnaríki fyrir saumakonunur og föndrara. Mér finnst líka setja mikinn svip á peysuna að hafa eina töluna öðruvísi. 


Hvernig er hægt að vera svona sætur!

Ég hef alls ekki verið nógu dugleg að mynda verkin mín, en fann eftir mikla leit þessar myndir:

þriðjudagur, 18. febrúar 2014

Upp með prjónana!

Í apríl nk. fermi ég frumburðinn. Já, ótrúlegt en satt þá eru að verða liðin 14 ár síðan þessi gullmoli dró andann í fyrsta sinn. Mér finnst samt meira eins og við þetta teljist ég í fullorðinna manna tölu frekar en hann!

Þegar við fluttum ákváðum við að hann fengi herbergi sem búið var að búa til úr tveimur geymslum á neðsta palli hússins og er beint inn af forstofunni þar. Þetta gerðum við bæði af því að herbergið var stórt og af því að minningin um svaðilför mína í gegnum hús tengdaforeldranna, þegar ég var að laumast þaðan út á laugardagsmorgni fyrir rosalega mörgum árum síðan, er enn ljóslifandi. Ég óska engri stúlku að þurfa að upplifa annan eins taugatrekking og fylgir því að mæta hugsanlega tilvonandi tengdaforeldrum sínum í djammgallanum frá því í gær og með maskara út á kinn :). Svo það er gott að vera bara búin að koma drengnum kyrfilega fyrir í kjallaranum áður en ósköpin dynja yfir... Tíminn líður hratt!

Við ætlum að halda fermingarveisluna hér heima og ég er aðeins búin að vera að "dúllast" til að það verði nú huggulegt í öllum hornum þegar stórfjölskyldan og vinir streyma í húsið til að fagna deginum með okkur. Svona kjallaraherbergi geta verið svolítið dimm, og ofan á það voru öll húsgögnin sem drengurinn átti fyrir, svört. Ég ákvað því að reyna að birta aðeins til í herberginu með því að velja gulan í sem mest af dúlleríinu og setti t.d. gular snúrur í ljósin í herberginu. Ég stóðst heldur ekki mátið og bjó til aðra korktöflu og hengdi yfir skrifborðið hans. Í þetta sinn notaði ég bæði gulan og svartan með korknum og sneri henni líka á hinn veginn.













Af því að áður var herbergið geymsla var þar lítil rafmagnstafla sem ekki er í notkun lengur á einum veggnum. Þetta truflaði mig mikið og eftir smá hugs ákvað ég að mála hana með svartri krítarmálningu og leyfa Stóra að skreyta hana eftir sínu höfði. Ég hef hins vegar ekki hugmynd um hvaða þýðingu þessi texti hefur.



Ég var svo að vafra á netinu um daginn í leit að einhverju sniðugu til að hressa upp á svona unglingaherbergi. Þá rakst ég á kennslumyndband um hvernig má prjóna svona pullu til að sitja á. Mér fannst hugmyndin góð en aðferðin heldur flókin. Ég ákvað því að prófa að einfalda málin aðeins. Ég var svo æst að byrja að ég hentist í Hagkaup í Skeifunni síðla kvölds til að kaupa garn. Ég ákvað að kaupa Álafoss lopa af þremur ástæðum; hann er ódýr, grófur og var til í neon-gulu! Lopinn er gefinn upp fyrir prjóna nr 7 en ég ákvað að hafa hann tvöfaldan og prjóna á prjóna nr 10. Þetta gerði ég til að pullan yrði sem þéttust og þar með sleppa við að fóðra hana svo að tróðið sjáist ekki í gegn. Ég fitjaði upp 80 lykkjur á hringprjón og prjónaði svo perluprjón (1 slétt og 1 brugðin til skiptis og svo öfugt í næsta hring o.s.frv.) í hring þar til svarti liturinn var búinn. Ég endaði í rétt rúmlega 70 cm. Í stað þess að fella af þræddi ég svart Smart garn í gegnum lykkjurnar (mæli ekki með því að nota lopann því hann slitnar auðveldlega) og dró þær saman af öllu afli, til að loka pullunni í annan endan. Ég notaði tvo gamla púða með fiðurfyllingu til að troða í pulluna. Því næst þræddi ég Smart garn meðfram kantinum hinu megin og dró svo saman til að loka. Einfaldara getur þetta varla verið og sjáiði bara hvað þetta kemur vel út:




Upp með prjónana og hugmyndaflugið! Þetta geta allir gert...

þriðjudagur, 11. febrúar 2014

Eftirmiðdags-redding... ;)

Ég var eitthvað hálf tætt í síðustu viku. Byrjaði á of mörgu í einu og náði ekki að klára neitt :) En þá er  nú gott að eiga litlar hugmyndir upp í erminni... 

Um daginn var ég í Föndru sá þar svo ótrúlega flott garn, eða band eða ég veit eiginlega ekki hvað á að kalla þetta? Annar hnykillinn var koparlitur og hinn svartur með koparlitu glimmerívafi. Ég var alveg heilluð og keypti sitthvorn hnykilinn án þess að hafa hugmynd um hvað ég ætlaði að gera við þá. Ég var svo í heimsókn hjá vinkonu minni um helgina og rakst þar á bók sem fangaði athygli mína. Ég get ómögulega munað hvað bókin heitir, en í henni eru aðallega uppskriftir af hekli og þar á meðal hugmynd af armböndum sem búið er að hekla utan um með garni. Þarna koma það! Ég átti einmitt nokkur samskonar armbönd sem ég hafði ætlað að henda um daginn af því að ég hafði aldrei notað þau.


Ég byrjaði bara einfalt og heklaði þétt utan um eitt armbandið og gisið utan um annað:



Þegar ég var búin með þessi tvö, sem tók ekki nema 10 mínútur, hugsaði ég með mér að það gæti verið fínt að hafa eitthvað glingur á þessu líka. Ég var að brastast í þessu áðan, svo ég hafði ekki tíma til að fara og kaupa eitthvað en átti í fórum mínum litlar viðarkúlur og hauskúpur. Það er mér algjörlega hulin ráðgáta hvað ég hef ætlað að gera við það :). Ég ákvað að prófa bara og byrjaði á því að þræða kúlurnar og hauskúpurnar upp á bandið. Þetta er mjög einfalt og möguleikarnir eru endalausir! Það fæddust amk. 1000 hugmyndir af armböndum á meðan ég dundaði við þetta. 


Maður byrjar á því að fytja upp eina lykkju á heklunálina. Þetta eru í rauninni bara fastalykkjur nema bandið er sótt í gegnum armbandið. Fyrir ykkur sem ekki kunnið að hekla en langar til að prufa er um að gera að kíkja á kennslumyndbönd á YouTube. Ég hef séð hekluð meistarastykki verða til eftir leiðbeiningum af YouTube! Svo er bara haldið áfram að gera fastalykkjur í kringum armbandið þangað til maður vill hafa skraut. Þá dregur maður skrautið þétt að armbandinu og heldur svo bara áfram að hekla. Einfaldara getur það ekki verið.
Ég komst hins vegar að því eftir þrjár misheppnaðar tilraunir að galdurinn er að hekla eins fast og mögulegt er í kringum skrautið því annars vill það lafa utan á armbandinu.


Ég veit ekki hvort ég færi með þessi armönd í boð á Bessastöðum en ég á klárlega eftir að gera fleiri í penari útgáfum og með glingri sem hæfir konu á mínum aldri ;). Það er td. alveg ótrúlegt úrval af svona "armbandaglingri" í föndurbúðinni í Holtagörðum...

þriðjudagur, 4. febrúar 2014

Hekl og prjón... :)

Ég hef alltaf átt í einhverskonar ástar-haturssambandi við húfur og trefla. Ég alveg elska stóra, djúsí trefla og finnst konur með húfur alveg sjúklega sætar. Ég hef gert óteljandi tilraunir til að ganga með húfu en er alltaf alveg ofboðslega meðvituð í þau skipti sem ég hef farið út úr húsi með eina slíka. Svipaða sögu hef ég að segja af treflum, ég veit aldrei hvernig ég á að vefja þeim eða binda um hálsinn á mér. Sérstaklega stórum treflum. Ef ég hef asnast til að fara út með svoleiðis um hálsinn þá finnst mér alltaf eins og ég sé að reyna að vera eitthvað :).

Ég fór til Boston í lok árs 2012. Þræddi þar búðirnar af miklum móð með Gumma í eftirdragi. Það er reyndar raunin að þegar Gummi kemst út fyrir landsteinana þá þarf ekkert að draga hann neitt rosalega mikið í búðir. Fyrir það er ég þakklát... Við fórum óteljandi ferðir í GAP meðal annars, og í einni slíkri rakst ég á þennan:


Hann hentaði mér fullkomlega! Hann er stór og djúsí en hann þarf hvorki að binda né vefja! Bara smella honum um hálsinn og málið er dautt. Skynsemin tók af mér öll völd þarna sem ég stóð í GAP og horfði á þennan trefil í öllum regnbogans litum og ég ákvað að kaupa bara einn lit. Það voru mistök. Það er fátt sem ég hef notað jafn mikið.

Í heilt ár er ég búin að vera á leiðinni að prjóna mér eitthvað í líkingu við hann og tvisvar hef ég keypt mér garn og ætlað að hefjast handa. Mér fannst þetta tilvalið verkefni vikunnar! Ég mældi því Gamla gráa í bak og fyrir, hugsaði og hugsaði hvernig best væri að gera þetta til að útkoman yrði sem næst honum í lögun, valdi garn úr fórum mínum og hófst handa.
Ég fitjaði upp 100 lykkjur á prjóna nr. 3,5. Þetta munstur sem ég notaði er mjög einfalt. Það eru prjónaðar 2 sléttar og 2 brugnar til skiptis í tvær umferðir og í þriðju umferð er breytt þannig að það eru prjónaðar 2 sléttar þar sem áður voru brugnar og öfugt. Ég hef áður prjónað mér peysu með þessu munstri og þá notaði ég bara einn lit. Núna langaði mig að prófa að hafa einn grunnlit í munstrinu sem yrði þá alltaf í brugnu lykkjunum og svo 2-3 liti til skiptis í þeim sléttu. Ég var búin að áætla að ég þyrfti að prjóna ca. 80 cm en endaði í 65 cm.


Þegar ég var búin að ganga frá öllum endum byrjaði ég á því að lykkja stuttu hliðarnar saman. Til að fá snúning á trefilinn lét ég löngu hliðarnar skarast um ca 10 cm og lykkjaði hann svo saman þannig. Þetta kom svona ljómandi vel út:


Ég þarf eiginlega að prjóna annan í praktískari litum. Mér fannst þessir bara svo ótrúlega fínir, en þeir ganga kanski ekki við hvað sem er... En notalegur er hann!


En að allt öðru. Amma á Akureyri er búin að vera hjá mér í nokkra daga. Hún hefur verið að hjálpa mér með Litla og Stóra af því að Gummi er í Svíþjóð munið þið, að vinna fyrir hillunum :). Það er alltaf notalegt að hafa hana. Þegar hún er í heimsókn búa rúmin um sig sjálf, þvottakörfurnar tæmast á undraverðan hátt og það er alltaf kvöldmatur á borðinu án nokkurrar fyrirhafnar :). Við erum ekki ólíkar að mörgu leiti. Líkt og ég á hún erfitt með að sitja auðum höndum. Hún er nýkomin frá Colorado þar sem hún skíðaði eins og vindurinn í 10 daga í amerískum bíómyndabrekkum. Þar keypti hún sér nýja skíðaúlpu og fékk þá flugu í höfuðið á degi 2 í heimsókninni að hún þyrfti að eignast húfu við úlpuna. Ég átti erindi í Föndru á Dalvegi og Gamla var með í för. Þar fann hún ótrúlega skemmtilegt garn akkúrat í réttu litunum við úlpuna.


Húfan er hekluð og hnykillinn er svona marglitur og fæst í nokkrum litum. Til að gera húfuna aðeins meira "fullorðins" fórum við í verslunina Hvítlist, en þar er hægt að kaupa dúska úr ekta refaskinni fyrir litlar 2.500 krónur. Dúskarnir koma með smellum svo hægt sé að fjarlægja þá auðveldlega þegar þarf að þvo húfuna. Fyrir vana tekur bara augnablik að hekla eina svona húfu, svo Gamla sló ekki slöku við fyrr en hún hafði heklað eina á hamingjusama hjálparann og Litla :).