þriðjudagur, 17. desember 2013

Ljós í myrkri.

Í lok október fluttum við í sjötta skiptið síðan við urðum fjölskylda. Gummi alveg elskar að flytja. En bara af því að hann kemur sér alltaf snilldarlega undan mesta brasinu undir því yfirskini að einhver þurfi að vinna fyrir herlegheitunum :). Við vorum að stækka aðeins við okkur og það kallaði jú á innkaup á allskyns hlutum eins og td. ljósum. Fleiri herbergi og fleiri gangar þýða fleiri ljós. Ljós eru hins vegar ekki ókeypis. Ég hafði séð í einu af Bolig Liv blöðunum mínum alveg dásamlega falleg koparlituð perustæði sem í voru stórar hvítar perur. "Svona verð ég að eignast" hugsaði ég með mér og fór á stúfana. Af því að Gummi var staddur í Svíþjóð hóf ég leitina í sænskum netverslunum. Ég fann perustæði sem svipaði til þeirra sem ég hafði séð í blaðinu í Åhléns og sendi Gumma út af örkinni. Mér til mikillar mæðu voru þau uppseld í svíaríki eins og það leggur sig! Svo leitin hófst á nýjan leik. Á endanum fann ég það sem ég var að leita að í YLVA. Fyrir tæpar 10.000 krónur gat ég eignast eitt stykki koparlitað perustæði. Mig vantaði sex, og þá átti eftir að kaupa perurnar sem kosta 2500 krónur stykkið. Þetta fannst mér út fyrir öll mörk velsæmis og lagði því höfuðið í bleyti. Venjulegt hvítt perustæði í byggingavöruverslun kostar jú bara klink og spreybrúsinn er orðinn góður vinur minn. Svo ég ákvað að prufa bara að spreyja hvít perustæði með koparlituðu spreyi. Ég varð alls ekki fyrir vonbrigðum með útkomuna:


Einn helsti kosturinn við að gera þetta svona, fyrir utan hvað þetta er miklu ódýrara, er að maður getur valið sjálfur hvernig snúru maður hefur í ljósinu. Verslunin Glóey í Ármúla er með ótrúlegt úrval af rafmagnssnúrum í öllum litum og þeir veita frábæra þjónustu! Ég valdi að hafa svarta og hvíta snúru í mínum ljósum. Perurnar sem ég keypti í stæðin eru í raun ljósakúpplar með halógen perum inn í.


Þegar við fengum húsið afhent héngu gyllt ljós í eldhúsloftinu sem sennilega hafa verið þar síðan húsið var byggt. Ég var ekkert sérstaklega hrifin af ljósunum í fyrstu en þegar ég tók þau niður sá ég að þessi ljós mátti nýta sem veggljós. Upp með spreybrúsann og voila!


Núna njóta þau sín einstaklega vel í "húsbóndahorninu" í nýja húsinu.


þriðjudagur, 10. desember 2013

Máli, máli, máli...

Um daginn var amma í heimsókn hjá mér, hún fór að tala um gamla eldhúsborðið sitt og stólana. Sagðist hafa keypt það í Epal á sínum tíma, að þetta hefði verið Alvar Aalto borð, 4 stólar og tveir kollar. Hönnunargræðgin í mér náði áður óþekktum hæðum og ég bað hana að leita að kollunum fyrir mig. Ég sá alveg fyrir mér hvað þeir yrðu ótrúlega fín viðbót við eldhúsborðið, nýlakkaðir í einhverjum flottum litum. Maður getur jú alltaf á sig stólum bætt, sérstaklega ef það er hægt að stafla þeim. Það er skemmst frá því að segja að þeir fundust ekki. Nokkrum dögum síðar var ég á flandri um höfuðborgina og rak nefið inn í Góða hirðinn. Þar hafði verið útsala daginn áður (ég vissi svo sannarlega ekki að þar væri nokkurntíman útsala) og því ekkert þar að finna nema þessir tveir:


Þeir voru ósköp illa farnir greyin. Hvort sem þeir eru ekta eða ekki voru þeir mínir fyrir 1500 krónur stykkið og í kaupbæti: ómæld gleði í mínu litla hjarta. Ég hófst strax handa. Skellti mér í Flügger og fjárfesti í gulu og túrkísbláu akrýllakki með 90% gljáa. Grunninn, hvíta litinn og spreyið sem ég notaði átti ég til. Ég var svolítið löt (og spennt að sjá útkomuna) og fór því bara eina umferð með grunninum. Það dugðu tvær umferðir af spreyinu og þann fót grunnaði ég ekki. Ef þið eruð líka löt eða óþolinmóð mæli ég ekki með að mála með gulum. Hann þekur illa og ég þurfti að fara fjórar umferðir með honum til að verða sátt. Hver umferð þarf svo að þorna í 16 tíma og reikniði nú!


Áður en ég byrjaði að lakka kollana skrúfaði ég fæturna undir þá aftur. Ég fór að ráðum vinar míns að þessu sinni, vatnsblandaði lakkið og það svínvirkaði. Segi samt ekki að þetta hafi orðið spegilslétt eins og hann hafði lofað mér, en áferðin er allt önnur en á skúffunum sem ég lakkaði í síðustu viku. Mér áskotnuðust líka dásamlegir svínshárapenslar sem eru sérstaklega ætlaðir til að lakka með og það er ekki hægt að líkja því saman að lakka með þeim eða venjulegum penslum. Mér skilst að svona penslar kosti annan handlegginn, en ef vel er um þá hugsað eru þeir víst eilífðareign. Svo ef þið eruð mikið að mála húsgögn er þetta ekki spurning! Ég ákvað að hafa kollana ekki eins, en í sömu litum og mig langaði til að annar þeirra yrði svolítið eins og honum hefði verið dýft í lakkið. Ég límdi því málningarlímband í kringum fæturna á öðrum kollinum til að fá beinar línur.


 Ég er bara frekar sátt við útkomuna...



...svo passa þeir líka svo vel við sokkana mína!

þriðjudagur, 3. desember 2013

Gömul kommóða úr Góða endurlífguð.

Bjartir og skærir litir hafa alltaf fangað auga mitt. Stundum hef ég hreinlega lent í vandræðum með þetta. Bara lúxus vandræðum samt. Eins og til dæmis þegar ég eignaðist Kitchen Aid hrærivélina mína, það var hrikalegt að þurfa að velja bara einn lit! Hvítt kom aldrei til greina. Þetta var sérstaklega erfitt af því að ég vissi að svo seinna, þegar ég myndi eignast blenderinn og ristavélina í sömu línu, yrði það að vera í sama lit. Þannig að ég var í rauninni ekki bara að velja lit á hrærivélina. Það getur verið gott að vera framsýnn, en það getur líka bara valdið manni hugarangri... :)

Stundum verð ég samt sem áður þreytt á minni eigin litagleði og vil helst hafa allt hvítt eins og á sænsku sveitaheimili. Það líður hins vegar aldrei á löngu áður en ég er búin að mála einn vegg í lit hér og þar, bæta við púðum í stíl og setja marglit kerti í stjakana. Við erum nýflutt og ég er svolítið búin að vera á einu af þessum hvítu skeiðum. Hvítir veggir, hvítar gardínur og ég rétt náði svo að stoppa sjálfa mig af áður en ég fór með eldhúsborðið okkar, sem er teak, á bílasprautunarverkstæði og lét sprauta það með hvítu bílalakki. Um daginn tók ég svo þessa gömlu kommóðu aðeins í gegn og lakkaði framhliðarnar á skúffunum hvítar.




Hún var voða falleg svona hvít, en huuuundleiðinleg! 
Eins og áður hefur komið fram þá er þolinmæði ekki mín sterka hlið og ef ég fæ hugmynd þá þarf ég að framkvæma hana strax. Ég fékk semsagt þá hugmynd að mála höldurnar á kommóðunni í einhverjum lit. Hvíta skeiðið blundaði samt ennþá örlítið í mér svo þetta mátti ekki verða of tjúllað og ég varð jú að drífa í þessu. Ég lumaði á svartri og gulri krítarmálningu, gaf mér ekki einu sinni tíma til fara út í búð og kaupa almennilegan pensil í réttri stærð og gluðaði því krítarmálningunni á með vatnslitapensli sem ég fann hjá syni mínum.  Ég er hæstánægð með útkomuna og kommóðan töluvert hressari að sjá:




Fyrir ykkur sem langar að reyna fyrir ykkur í húsgagnamálun þá eru hér nokkur góð ráð. Það er ekki nauðsynlegt að pússa húsgagnið áður en það er málað (nema það sé þeim mun verr farið), en að þrífa öll óhreinindi og fitu af því er hins vegar grundvallaratriði sem og góður grunnur. Ég fór í Flügger í Skeifunni og keypti hvítan viðargrunn og málaði með honum tvær umferðir. Það er aðeins grófari áferð á grunninum en lakkinu svo ég pússaði létt yfir skúffurnar með fínum sandpappír eftir að ég hafði grunnað þær. Svo lakkaði ég yfir með arkítektahvítu akrýllakki og hafði á því 90% gljáa. Þegar maður málar með svona miklum gljáa er gott að hafa mikið í penslinum og leyfa lakkinu að renna út, þannig minnkar maður penslaförin. Ég lærði líka nýtt ráð í dag af góðum vini mínum sem er meistari í faginu; að blanda örlitlu af vatni út í lakkið til að þynna það. Þá flýtur það betur og minnkar enn frekar penslaförin. Hans orð voru reyndar; "þá verður þetta alveg svona spegilslétt". Ég ætla að prófa það næst. Krítarmálning er frábært efni. Auðvelt í notkun, þekur vel og þornar á augabragði. Það gefur kommóðunni líka bara svolítið skemmtilegan blæ að hafa höldurnar alveg mattar til móts við gljáann á skúffunum.  Litla "skráargatið" sem ég setti efstu skúffuna fékk ég í Brynju á Laugaveginum og það er bara nelgt á með tveimur litlum stálnöglum. Mér fannst það eiginlega pínu setja punktinn yfir i-ið...


þriðjudagur, 26. nóvember 2013

Helgin er svo leng'að líða, hversu lengi má ég bíða? ...Fram á þriðjudagskvöld.

Einn af ókostunum við að fá margar hugmyndir í einu og rjúka af stað og kaupa allt sem þarf til að framkvæma þær er að maður sankar að sér allskyns dóti. Við fjölskyldan bjuggum í nokkur ár í Svíþjóð. Þar var ég vægast sagt dugleg að safna efnivið í allskyns listaverk sem aldrei litu dagsins ljós. Þegar við Gummi vorum svo að pakka búslóðinni til að flytja aftur heim kom hann að mér út í bílskúr eitt kvöldið, en þar var ég með sauma og fönduraðstöðu. Ég var að flokka góssið mitt í kassa eftir því hvers kyns það var þegar ég heyrði hann hrópa upp yfir sig (ókei, kanski ekki alveg hrópa): "Elva, þarna eru allir peningarnir okkar!" Já, þarna var allavegana hluti þeirra í formi garns, skrapps, efnis, tvinna, límmiða og svo mætti lengi telja. Þess vegna ákvað ég að fyrsta verkefnið yrði ég að gera úr einhverju sem ég ætti á lager. Og af garni á ég nóg...  
enégþurftireyndaraðkaupabókina. 

Í fyrra kom út alveg hrikalega krúttlega bók sem kennir manni að prjóna jólakúlur. Þá átti ég mér draum um að prjóna jólakúlur á allt jólatréð. það hefur sennilega verið hugmynd númer níu í desember 2012  því ég komst ekki einu sinni svo langt að kaupa bókina þá. Ég var stórhuga á byrjun blogg-ferilsins og hugsaði með mér að ég skyldi prjóna nokkrar þessa vikuna til að sýna ykkur hér og gera svo eina og eina fram að jólum og þá ætti ég heimaprjónaðar jólakúlur á allt jólatréð! Mamma kom svo í kaffi til mín í gær þar sem ég sat og prjónaði þriðju kúluna af miklum móð. Ég sagði henni frá áformum mínum og hún spurði mig þá hversu lengi ég væri að prjóna eina svona kúlu. "Svona 4 tíma með frágangi og öllu" svaraði ég. Þá vildi hún vita hvað ég ætlaði að prjóna margar. "Svona 20". Hún var ekki lengi að reikna það út að það tæki mig þá fullar tvær vinnuvikur að prjóna á allt tréð, að því gefnu að ég tæki mér ekki mat og kaffi. Það verða þá kanski bara prjónaðar kúlur á trénu á næstu jólum.




þriðjudagur, 19. nóvember 2013

Fyrsti pósturinn

Frá því ég man eftir mér hef ég verið að láta mig dreyma um eitthvað. Einu sinni dreymdi mig um að verða læknir, svo ljósmóðir, því næst að reka minn eigin leikskóla, að verða fatahönnuður, að skrifa bók, að Macaulay Culkin kæmi til Íslands að leita að mér (guði sé lof að sá draumur rættist ekki) og síðast en ekki síst dreymdi mig um að verða leikkona. Sá draumur blundar reyndar alltaf í mér og kannski rætist hann einhvern tímann, hver veit? Ég endaði af einhverjum ástæðum í hjúkrunarfræði, hvernig sem á því stendur nú. Kannski af því að þegar ég var lítil og viðraði framtíðardrauma mína við pabba þá sagði hann alltaf, "Elva mín, þú ræður hvort þú verður læknir eða lögfræðingur og svo máttu fara í leiklistarskólann". Ég hlýddi honum næstum því.

Ég er enn að hugsa hvað ég eigi að verða þegar ég verð stór. Einu sinni þegar ég bjó í Svíþjóð, og var alveg týnd, fór ég í áhugasviðsspróf hjá íslenskri konu sem vann á bókasafninu í Lundi. Hún lagði fyrir mig svona uþb. 400 spurningar sem ég svaraði samviskusamlega. Í stuttu máli varð niðurstaðan sú að mér hentaði líklega best að verða trúbador. Trúbador! Vissuð þið að það væri viðurkennt starfsheiti? Ekki ég. Ég var reyndar búin að gleyma þessu þegar góður vinur minn í Lundi lánaði mér gítar og kenndi mér nokkur grip. Í dag á ég minn eigin, er þokkalega partýhæf, þökk sé vininum og youtube og gæti örugglega skrapað saman einhverjum krónum í hatt á Hlemmi. En það er samt ekki alveg það sem mig langar mest.

Ég man líka eftir ótal tilraunum mínum í gegnum tíðina til að skapa eitthvað. Ein fyrsta minningin er þegar ég leiraði heila borg á stofugólfinu heima hjá vini mínum. Ég var svona 6 ára. Allt varð að vera mjög skipulagt. Allar götur jafn breiðar, jafn langt á milli húsanna, þökin áttu að vera slétt og stromparnir hornréttir. Vinurinn var ekki alveg jafn metnaðarfullur. Ég man líka eftir að hafa setið svo dögum skiptir með rúðustrikuð blöð og reglustiku að vopni að teikna upp leikskólann sem ég ætlaði að byggja og reka. Einu sinni bjó ég líka til tveggja hæða hús með risi úr pappakössum fyrir strumpana mína. Þetta var reyndar samvinnuverkefni mitt og vinkonu minnar (þú veist hver þú ert). Við gerðum sitthvort húsið. Máluðum þakið og veggina, saumuðum gardínur, prjónuðum mottur, fengum teppa- og flísaafganga og lögðum á gólfin og leiruðum húsgögn úr jarðleir sem var svo brenndur fyrir okkur. Því miður er þetta listaverk ekki til lengur, en í minningunni var það stórfenglegt!
Ég skrifaði líka einu sinni leikrit sem var sett upp á jólaskemmtun í skólanum fyrir einhver jólin: "Amma Frost fer á ball". Meistarastykki alveg hreint! Ég á handritið ennþá og las það núna síðast í sumar og bókstaflega grét úr hlátri. Þegar unglingsárin færðust svo yfir fór ég að semja ljóð. Sum alveg ágæt en flest lýstu þau á mjög dramatískan hátt hversu hrikalega erfitt það er að fá ást sína ekki endurgoldna. Tókum við ekki örugglega öll svoleiðis tímabil? Í sama kassa og ég geymi ljóðin á ég líka nokkra upphafskafla af skáldsögum af ýmsu tagi. Ég hef líka prjónað ótal peysur, sokka og húfur og látið mig dreyma um að geta selt það einhverjum. Saumað ógrynnin öll af velourbuxum á börnin mín og annarra og bútasaumsæðið reið líka einhverntíman yfir af miklum þunga. Ég gæti talið endalaust upp.

Í gær átti ég langt símtal við vinkonu mína í Sviss. Hún spurði mig hvað ég gerði þegar ég vildi vera góð við sjálfa mig. Ég þurfti að hugsa svolítið, en líklega eru mínar bestu stundir þegar ég er ein með sjálfri mér á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur með blaðastafla fyrir framan mig og ilmandi kaffibolla. Minn blaðastafli samanstendur af DIY (do it yourself) blöðum, innanhússhönnunarblöðum, sauma- og prjónablöðum. Ég hef þó oftar en einu sinni staðið mig að því að vera rokin á fætur áður en ég næ að klára kaffið mitt því þá hef ég fengið hugmynd, eða jafnvel 10, sem ég verð að framkvæma núna! Ein slík er þessi hér:

Að fá 10 hugmyndir í einu og ætla sér að framkvæma þær allar samtímis gefur ekki góða raun. Oft hefur engin þeirra komist í framkvæmd af því að ég veit ekki á hverju mig langar mest að byrja. Svo nú hef ég keypt mér litla bók sem ég ætla alltaf að hafa í veskinu mínu og skrifa niður hugmyndirnar jafn óðum og þær koma til mín. Ég ætla að framkvæma eina þeirra í hverri viku og deila því með ykkur hér, skref fyrir skref. Verkefnin verða misstór og af ýmsum toga, eina reglan er að hafa gaman af þeim.