þriðjudagur, 24. febrúar 2015

þriðjudagur, 17. febrúar 2015

Þetta kemur allt svo náttúrulega til mín...

...nema titlarnir á færslunum! 

Það erfiðasta við þetta sjálfskipaða verkefni mitt er að finna smellinn titil á hverja einustu færslu! Það eru víst allskonar vísindi á bakvið þetta. Titillinn þarf að vera lýsandi, grípandi og ýta þér upp í leitarvélum allt í senn. Já, þetta bara vefst fyrir mér! Stundum vildi ég að ég væri með matarblogg. Þá væri þetta vandamál ekki til staðar: ,,Ofnbakaðar marineraðar lambalærissneiðar með sítrónuberki og myntu á norðurafríska vísu." (Titill fenginn að láni á þessu frábæra bloggi HÉR ) Ég ætti kanski að fara að taka þetta upp bara: ,,Hnattlíkan úr Rúmfatalagernum með stafalímmiðum og krítarmálningu, toppað með með þeim löndum sem þú hefur heimsótt."

Þetta er mjög lýsandi titill, segir bara nánast allt sem segja þarf! Kanski hitti ég bara naglann á höfuðið þarna...? :)

En að verkefni vikunnar. Ég var búin að ætla mér að gera þetta lengi. Málið er bara það að svona hnattlíkön eru frekar dýr og ég var ekki tilbúin að leggja í þetta mikinn kostnað svona í fyrstu tilraun. Svo rakst ég á eitt slíkt í Rúmfatalagernum í hentugri stærð og á ásættanlegu verði. Kosturinn, eða óskosturinn, fer eftir því hvernig á það er litið, við að vera síbrasandi er að þá á maður ýmislegt í fórum sínum. Svo ég þurfti ekki að kaupa neitt nema hnöttinn. Stafalímmiðana átti ég síðan ég gerði þetta HÉR og svört krítarmálning er bara staðalbúnaður... :)


Þá var mér bara ekkert að vanbúnaði.
Ég byrjaði á að skrifa textann á hnöttinn með límmiðunum:


Svo hrærði ég vel í málningunni og málaði 3 umferðir yfir herlegheitin. Það getur verið vandasamt að ná límmiðunum af án þess að það flagni meðfram stöfunum svo ég var með svona útskurðarhníf að vopni og skar meðfram stöfunum. Það er líka hægt að nota bara dúkahníf.


Ég notaði svo hnífinn líka til að hreinsa brúnirnar þegar ég var búin að ná stöfunum af.


Þá var ekkert eftir nema að rífa upp krítartússinn. Þar sem þessi hnöttur var ætlaður Litla, skrifaði ég á hann þau lönd sem hann hefur heimsótt:




Barninu fannst þetta feiknar sniðugt og mömmunni líka!

Þetta verður svo síðasti pósturinn á þessum stað því í næstu viku, þann 25. febrúar, opnar nýja heimasíðan mín á verkefnivikunnar.com!
Ég hlakka mikið til enda er síðan fádæma fögur og stelpurnar hjá RoundAbout hafa staðið sig með stakri príði! Hér væri tilvalið að setja inn link með heimasíðunni þeirra en sökum anna hafa þær ekki komist í að setja sína eigin síðu í loftið :)

Svo er bara að læka og deila á facebook...
:D



mánudagur, 9. febrúar 2015

Ég á ekki orð...

...þetta er svo sniðugt!

Þegar við fjölskyldan fluttum heim frá Svíþjóð keyptum við okkur dásemdar íbúð í blokk í Fossvoginum. Íbúðin var á tveimur hæðum og efri hæðin var undir súð. Þetta var ást við fyrstu sýn og hún hélt vel utan um okkur í þann tíma sem við bjuggum þar. Það var þó eitt í íbúðinni sem fór verulega fyrir brjóstið á húsfreyjunni og það var baðherbergið. Ég vildi óska þess að ég ætti mynd að sýna ykkur, því haldið ykkur fast, veggirnir voru korklagðir frá gólfi og upp í loft! Já, bara brúnum ósköp venjulegum korki. Það var alltaf á planinu að gera upp þetta baðherbergi, en eftir því sem tíminn leið ,,óx korkurinn eiginlega á mig". Mér fór að finnast þetta pínu flott og sá alveg fyrir mér að blanda honum saman við nýtísku innréttingar og sterka liti. Því miður fluttum við áður en ég fékk að spreyta mig á því verkefni. 

Það er hins vegar alveg magnað hvað allir hlutir fara í hringi. Nú elska allir kork, og ég líka! Það er bara hægt að fá allt úr korki allsstaðar. Í síðustu viku fór ég í Handverkshúsið á Dalvegi í leit að þunnum korki sem ég bara hreinlega man ekki lengur hvað ég ætlaði að gera við! ,,Við eigum bara blautan kork" sagði afgreiðslumaðurinn aðspurður um þunna korkinn, bara svona eins og allir viti hvað það er og viti nákvæmlega hvað gera skuli við hann. Ég held að það hljóti að hafa birtst risastór, blikkandi spurningamerki í augunum á mér því hann leiddi mig þegjandi og hljóðalaust innar í búðina til að sýna mér blauta korkinn. 


Ég átti bara ekki orð! Í þessum pakka er semsagt blautur korkur! Hann er eins og leir viðkomu og þú getur bara gert það sem þú vilt við hann... Bara ekki borða hann!


Ég meina, ég gat ekkert farið út úr þessari búð án blauta korksins! Og um leið og ég var búin að opna pakkann og byrjuð að handfjatla innihaldið þyrluðust hugmyndirnar upp í hausnum á mér og ég dauðsá eftir að hafa ekki keypt að minnsta kosti tvo pakka...

Ég reyndi að anda bara inn um nefið og út um munninn og ákvað að byrja bara á einhverju einföldu eins og glasamottum. Ég flatti því korkinn út með kökukefli og komst að því að það er frábært að vinna með þetta efni! Það springur lítið sem ekkert á köntunum, festist hvorki við eldhúsbekkinn né kökukeflið og svo var ekkert mál að hnoða þessu bara aftur í kúlu og byrja upp á nýtt ef til þess kom.

Ég á ógrynnin öll af piparkökuformum eftir leir-æðið sem reið yfir mig og fleiri fyrir jól. (Þið getið smellt HÉR og jafnvel HÉR ef þið vitið ekki um hvað ég er að tala) Svo það var úr mörgu að velja. Þetta var samt eiginlega nokkuð borðliggjandi... Ég elska Moomin álfana, hef aldrei lesið eina einustu bók og fannst teiknimyndirnar hundleiðinlegar en það er eitthvað við þessar teikningar sem heillar. Moomin glasamottur skyldi það vera:


Ég flatti því korkinn bara út með kökukefli og stakk út fjóra Moomin snáða:


Ég lét mína bara þorna á eldhúsbekknum í sólarhring. En það má víst baka þetta á lágum hita í ofni þar til þetta er þurrt sé maður að flýta sér. 


Æi mér finnst þeir sætir...


Og þetta finnst mér fínt... ;)


Ég átti líka minni form sem mig langaði að prufa:


 og ég ætla að fjárfesta í seglum aftan á þá og skella þeim á ísskápinn!


Ég gerði svo aðra útgáfu af glasamottum sem mér fannst líka svolítið sætar.




 Mér fannst þær hins vegar eitthvað svo litlausar bara svona:


Ég átti smá filt og datt í hug að líma það undir, ég valdi gula litinn...


skellti lími á korkinn og lagði hann bara á filtbútinn...


og svo leyfði ég þessu að þorna undir stórum og þungum bókum til að þetta færi nú ekki að verpast eða krumpast:


Og þá er komið að gestaþraut vikunnar! Finnið eina villu:


Jebb, jebb... Svona gerist þegar maður er með allt á yfirsnúningi í kollinum :D
En við kippum okkur ekki upp við svonalagað og gerum bara nýja...
...seinna!


Það styttist óðum í opnun nýju síðunnar og ég er að springa úr spenningi að sýna ykkur! Ég er ennþá að safna lækum á facebook svo þið megið endilega skella einu slíku á mig HÉR nú eða deila mér með vinum ykkar ef þið eruð í stuði ;)
Þangað til næst...
E.






þriðjudagur, 3. febrúar 2015

Höfum við ekki öll...

...gengið framhjá hillunni í Góða þar sem allt messing dótið er og hugsað: "Hvað er hægt að gera við svona dót til að gera það
fallegt?" Ekki?! Ég hugsa þetta í hvert sinn sem ég labba framhjá henni. Svo í síðastliðinni viku þá rak ég augun í þessa stjaka hér:


Mér fannst þeir á einhvern hátt öðruvísi en flestir svona messing stjakar sem ég hef séð. Kanski pínu nýtískulegir af því að fóturinn er svona sexhyrndur. Ég bara gat ekki skilið þá eftir þarna í hillunni. Ég hugsaði með mér að ef ekki tækist vel til þá væri ég í það minnsta búin að styrkja gott málefni. Vösunum tveim kippti ég svo með bara-svona-af-því-bara.

Ég var í miklum pælingum hvort ég ætti að gera þá meira vintage og mála þá með kalkmálningu eða hvort ég ætti að taka upp spreybrúsann og reyna að ýta enn frekar undir nýtískulega lögun þeirra... hvort ég ætti að mála/spreyja þá alveg eða bara að hluta...

Ég ákvað að byrja bara á því að þvo þá og pússa. Þegar ég var að pússa þá, af helst til mikilli áfergju, með þar til gerðum klút þá komst ég að því að það er hægt að skrúfa þá í sundur! Snilld, nú gat ég bara spreyjað helminginn af botnunum og helminginn af toppunum og þannig bara mixað og matchað eins og vindurinn! :D


Ég valdi mér þrjá liti úr sprey-safninu sem ég á orðið út í bílskúr, spreyjaði tvær umferðir og bara leyfði þessu að þorna vel á milli. Og ég held að þið skiljið ekki hversu sæl og glöð ég er með nýju kertastjakana mína og blómavasana! Svo sæl að í gær stormaði ég aftur í Góða og keypti restina af þessum kertastjökum (ég hafði nefnilega ekki keypt þá alla) til að eiga þá í handraðanum...




Og núna í kvöld slökkti ég ljósin og bara dáðist af þessu... Það er eitthvað svo ótrúlega góð tilfinning að gefa gömlum hlutum nýtt líf... Sérstaklega þegar kostnaðurinn er samasem enginn!





Eins og ég hef svo oft sagt: ,,Þetta þarf ekki að vera flókið til að vera fínt!" ;)

miðvikudagur, 28. janúar 2015

Brasiddíbras... ;)

Ég las grein um daginn skrifaða af innanhússarkítekt sem mér er lífsins ómögulegt að muna hvað heitir! Hann var ekki íslenskur en margt af því sem stóð í greininni var alveg hreint eitursniðugt og alveg ókeypis! (Þetta hljómar pínulítið eins og erlendir innanhússarkítekrtar geti ekki verið sniðugir... En það var ekki það sem ég meinti :)
Eitt af því sem ég hjó sérstaklega eftir í greininni var að sé maður orðinn þreyttur á híbýlum sínum getur verið hressandi að bara raða skrautmunum upp á nýtt.

Ég er með hansahillur á þrem stöðum í húsinu. Eina einingu í eldhúsinu og tvær í stofunni. Ég bókstaflega elska þær! Mér finnst þær passa í hvaða rými sem er og möguleikar á uppröðun eru takmarkalausir. Ég ákvað að fara að ráðum þessa ágæta manns sem skrifaði greinina en að takmarka mig samt við hansahillurnar. Mér fannst eitthvað svo yfirþyrmandi að ætla að fara að endurraða öllum skrautmunum á heimlinu! Svo ég byrjaði á að tæma allar hillurnar á borðstofuborðið:


Þá komst ég að því að þó að mér finndust hillurnar hálftómar þá ég bara helling af dóti!

Eldhúsið eftir
Eldhúsið fyrir
Breytingin hér er kanski ekki mikil en samt finnst mér þetta mun hreinlegra. Þið ættuð að prófa að gera þetta, það er eins og sumir hlutir séu einfaldlega grónir á vissa staði!
Ég á mér nokkra uppáhaldshluti í þessari hillu:


Kimmi-dúkkurnar eru þar fremstar í flokki! Þær eru allar gjöf frá sömu vinkonu minni og hafa allar merkingu sem vísar í vinskap okkar... Fallegt!


Svo er það Tinni. Hann er líka gjöf og var keyptur á Tinna safninu í Brussel. Þangað þarf ég einhverntíman að komast! Það er alveg klárt mál. 


Og að lokum þessar dásamlegu uglu-bókastoðir sem ég keypti í Lauru Ashley...

Svo var það stofan, þar var líka eins og sumir hlutir væru óaðskiljanlegir:

Fyrir
Eftir


Þarna á ég mér líka uppáhaldshluti. Númer eitt eru það vasarnir sem eru á eftirfarandi myndum. Þeir funndust báðir í Góða með tveggja daga millibili. Litirnir og formin höfða svo ótrúlega til mín! Og svo eru það Shorebird fuglarnir frá Normann Copehagen. Ég var búin að gefa þeim auga í einhvern tíma en stóðst ekki mátið þegar ég komst að því að það er íslendingur sem hannar þá, Sigurjón Pálsson. Ég var svo heppin að fá mína áritaða...




Eftir
Fyrir

Þessi er nú hálftóm greyið. Og nú hef ég alveg óstjórnlega löngun til að spreyja skúffurnar í kommóðunni aftur hvítar! Hvað sagði ég? Ég vissi að þessi saga HÉR færi í hring einn góðan veðurdag.



Það voru svo tveir staðir í viðbót sem fengu andlitslyftingu:

Fyrir
Eftir


Fyrir
Eftir

Það sem ég hefði helst viljað gera var að mála með einhverjum fallegum litum á veggina inn í nokkrar af hillunum eins og ég gerði hér:


Myndirnar eru teknar úr 4. tbl Húsa og híbýla 2013
 En þar sem til standa breytingar á heimilinu sem munu kalla á að hillurnar verði færðar til, þá lagði ég það ekki á aumingja Gumma ;) Mér finnst þetta hins vegar koma ótrúlega vel út svona og á klárlega eftir að endurtaka þennan leik...


mánudagur, 19. janúar 2015

,,Myndlist" :)

Það er sko ekki fyrir hvern sem er að skreyta veggi heimilisins með ,,alvöru" lista- eða málverkum. Þau eru bara alveg rándýr! Meira að segja fjöldaframleiddar myndir úr IKEA eða ILVU geta kostað annan handlegginn.

Mig er lengi búið að vanta mynd eða myndir á vegginn fyrir ofan sjónvarpið. Mig vantar reyndar myndir á fleiri veggi en það er önnur saga. Ég var búin að prófa að gera þennan veggstubb doppóttann með vegglímmiðum sem ég reif jafnharðan af og sýndi ekki nokkrum manni! Svo var ég búin að láta mér detta í hug að setja bara upp hillur þarna, en ég á bara ekkert dót til að setja í fleiri hillur... Svo ég ákvað að prófa að gera bara mynd sjálf! ;)

Ég fór í Söstrene Grene og keypti mér striga og kreppappír. Svo náði ég í Mod Podge dolluna, acrylmálninguna góðu frá Mörthu Stuart sem má sjá í þessum pósti HÉR og virðist endast endalaust og svo að sjálfsögðu pensla. Þá var mér bara ekkert að vanbúnaði:



Ég byrjaði á að taka kreppappírinn og krumpa hann og krumpa og krumpa...


Svo límdi ég hann á strigann með Mod Podge...


Og festi brúnirnar aftan á ramman og klippti afganginn af.


Þá leit þetta svona út! Ég leyfði þessu ekki að þorna alveg áður en ég byrjaði að mála eingöngu vegna þess að ég hafði ekki þolinmæði í það :)


Til að fá málninguna til að renna betur þynnti ég hana út með slatta af vatni...


og þá leit hún svona út.


Ég byrjaði með gula litnum, bara strauk honum jafnt yfir með svamppensli.


Tók svo dökkgráan og gerði slíkt hið sama.


Ég ætlaði sko að gera par. En myndirnar urðu svona gjörólíkar þrátt fyrir að ég hafi notað sömu aðferð við þær báðar! Þarna liggur kanski munurinn á mér og myndlistafólki, það veit hvað það er að gera en ekki ég... :D 
Það var því ljóst að þær yrðu aldrei par.

Þegar dekkri myndin hafði þornað og var orðin vel ,,crunchy" tók ég gulan vaxlit, lagði hann flatan á myndina og strauk létt yfir hana alla. Þannig litaði ég bara krumpurnar gular og útkoman varð þessi:


Skemmtilegt, ekki satt?!

Svo var bara að þrusa þessu í ramma og hengja upp á vegg:


Ég meina, þetta er allt annað líf! Blindramman fékk ég líka í Söstrene sem og litlu myndirnar. Ramminn var reyndar silfurlitur en ég spreyjaði hann bara svartann, fannst það passa betur.




Hin myndin er ekki enn komin í ramma, en upp fór hún í dag engu að síður:



Ég er bara nokkuð sátt skal ég segja ykkur... Svona miðað við að þetta sé frumraun.
Þetta er að minnsta kosti ekki fjöldaframleitt! ;)