þriðjudagur, 22. júlí 2014

Draumaland...

Það þyrfti eiginlega að vera ein gata hérna í Fossvoginum sem héti Draumaland, þá myndi ég flytja þangað! Ég er nefnilega mikil draumórakerling. Á auðvelt með að fara á flug með hinar ýmsu hugmyndir í kollinum á mér. Þegar ég var unglingur tengdust þessir draumórar mínir yfirleitt hinu kyninu og þá oftar en ekki einhverjum sem ég átti ekki nokkurn einasta möguleika á að komast í tæri við. Ég lét mig til dæmis lengi dreyma um að Macauley Culkin kæmi til Íslands í leit að ástinni og finndi MIG! Þá var ég tíu ára. Í dag er ég voða fegin að sá draumur rættist ekki...

Mig dreymdi líka einu sinni um að eignast eina stelpu og 6 stráka, alla í einu. Stelpan átti að koma fyrst til að passa alla strákana. Þeir áttu allir að bera millinafnið Már (guð má vita af hverju). Þegar þeir væru orðnir 6 mánaða ætlaði ég svo að gifta mig og þeir áttu allir að strolla á eftir mér inn kirkjugólfið í göngugrindum. Ég er líka voooða fegin að sá draumur varð ekki að veruleika! 

Ég átti mér líka draum um að vera í hljómsveit. Verst að ég get bara alls ekki sungið, það var fullreynt um helgina þegar viðhaldið reyndi að kenna mér að radda. Ég og góð vinkona mín ætluðum að vera í dúett. Hann átti að heita Alvara af því að okkur VAR alvara :) Við sungum inn á kasettu og tókum af okkur myndir sem við létum svo prenta út á mannhæðarhá plaköt. Við vorum svo æfareiðar þegar skömmu síðar kom fram á sjónarsviðið íslensk hljómsveit sem hafði stolið nafninu okkar! Okkur fannst við rændar frægð, frama og ofgnótt peninga... Kanski eins gott að sá draumur rættist ekki heldur...

Ég átti mér líka draum í síðastliðinni viku. Helgina 8.-10. ágúst verð ég á Handverkshátíðinni í Eyjafjarðasveit og ætla þar að sýna og selja hárbönd sem ég hef verið að búa til. Hugmyndin kviknaði út frá hárböndunum sem ég bjó til handa lítilli vinkonu minni fyrr í sumar og má sjá HÉR. Undirbúningurinn gengur vel og ég er sannfærð um að ég nái þeim markmiðum sem ég setti mér í framleiðslu og jafnvel meira til! 




Á hárböndunum og blómunum eru smellur svo hægt sé að skipta um blóm. Það fylgja hverju bandi tvö blóm en ég ætla svo að vera með stök blóm eins og þessi á myndinni hér fyrir neðan sem hægt verður að kaupa til viðbótar...


Hárböndin verða til í þrem stærðum og nokkrum litum...


Ég átti mér svo draum, af því að þetta er HANDVERKS-hátíð, um að hekla undir þetta körfur til að hafa á söluborðinu mínu. Já einmitt... ég ætlaði að vera svakalega nýtin og nota afgangsgarn úr fórum mínum og blanda saman við það svona snæri eins og sést á myndinni hér að neðan til að gera körfurnar stífari.


Þetta gekk alls ekkert illa... maður er svona 4 tíma að hekla eina svona körfu. Það  gera tvær körfur á einum vinnudegi, að því gefnu að maður fari ekki í mat og kaffi, og ég þurfti að minnsta kosti 8 stykki...



Þessi draumur mun því ekki rætast, ekki frekar en draumar mínir um Makauley og sexburana. En ég á allavegana eina voða fína heklaða körfu sem ég get annaðhvort nýtt sem blómapott:


Eða undir auka klósettrúllur á gestaklósettinu... 


Nú eða bara hvað sem er! :) 
Svo fer ég bara og kaupi einhverjar sætar körfur til að hafa með mér norður.

Ég hvet ykkur eindregið til að prófa og gefa hugmyndafluginu lausan tauminn í litavali. Þið bara byrjið á að hekla í hring þar til réttri stærð á botninum er náð og þá hættið þið að auka út og heklið áfram þar til hliðarnar eru eins háar og þið óskið. Ég mæli samt með að nota gróft garn, ég notaði tvöfaldan Álaosslopa, og aðeins minni heklunál en gefið er upp á garninu. Þá verður þetta svona stíft og fínt og hliðarnar á körfunni leka ekki niður. Góða skemmtun...







þriðjudagur, 15. júlí 2014

Þróunarsaga lítillar kommóðu.

Það er gleðidagur í dag! "Viðhaldið" er á leiðinni til mín alla leiðina frá súkkulaðilandinu Sviss! Ég hef ekki séð hana í rúmt ár, svo það verða fagnaðarfundir. Síðast þegar við hittumst var stemningin einhvernvegin svona:


Það er aldrei lognmolla í kringum hana þessa og það ættu bara að vera grundvallar mannréttindi að eiga eina Ólöfu...

En af því að hún er að koma og hefur aldrei komið í "nýja" húsið ákvað ég að drífa í nokkru sem er búið að vera á dagskránni lengi. Þetta átti ekkert að vera flókið sko... Óli smiður og vinur átti bara að mæta og bora fyrir mig 10 göt fyrir hansa-stoðum og upp skildu stoðirnar ásamt hillunum að sjálfsögðu og málið dautt. En eins og áður hefur komið fram eiga hlutirnir það til að vinda örlítið upp á sig hjá mér.

Muniði eftir þessari gömlu kommóðu hér?


Já, einu sinni var hún alveg hvít. Þá var ég á einu af hvítu tímabilunum í lífi mínu. Þá streitist ég af alefli á móti litagleðinni sem mér er í blóð borin og vil hafa allt alveg svakalega hvítt og stílhreint. Það varir hins vegar aldrei lengi og það leið ekki á löngu áður en kommóðan var komin í þennan búning hér:


Ég var bara nokkuð ánægð með útkomuna á þessu... svona á mynd allavegana. Það sem sést ekki á þessari mynd er að hinu megin við kommóðuna er íðilfagur hægindastóll sem ég fékk á 1500 krónur í Góða og bólstrarinn á Langholtsvegi blés nýju lífi í fyrir mig. Og í stólnum var púði...


Í mínum heimi, sem er alls ekki alltaf jafn einfaldur og þessi færsla gæti kanski gefið til kynna, gekk ekki að hafa eina hölduna GULA þegar það var APPELSÍNUGULT í púðanum! :) Svo ég var ekki lengi að kippa því í liðinn eins og sést á myndinni hér að ofan.

Það var samt alltaf eitthvað sem truflaði mig við þessa kommóðu, ég get ekki sett fingurinn á hvað það var nákvæmlega. Ég var búin að ákveða að kommóðan ætti að standa við sama vegg og hillurnar sem ég var að hengja upp svo í gærkvöldi þegar Óli smiður var farinn og ég var búin að bera á stoðirnar, hillurnar og skápana og henda þessu á vegginn ákvað ég að vera með smá tilraunastarfsemi. Rétt áður en það skall á með ausandi rigningu náði ég að klára verkið...

Er þetta ekki málið?

Ég get ekki dásamað þetta sprey sem ég notaði nægjanlega! Jafnvel þó höldurnar hafi verið svartar dugði ein umferð á skúffurnar og fyrir áhugasama fæst það í Litalandi í Borgartúni.

Hansahillurnar fóru upp þar sem Gullmolinn stóð áður, svo hann er nú heimilislaus ræfillinn. En mér fannst veggurinn bara illa nýttur með svona lítilli hirslu.






Er þetta ekki fallegt?! Ég er farin að hallast að því að hansahillur séu einhver mesta hönnunarsnilld mannkynssögunnar. Viðurinn er svo ótrúlega fallegur á litinn og það er svo auðvelt að flikka upp á hann með fínni stálull og smá teak-olíu. En mesta snilldin eru allir möguleikarnir á uppsetningu. Allir skáparnir, skrifborðin, kommóðurnar og hinir fylgihlutirnir sem voru framleiddir í þetta. Svo finnst  mér þær bara passa allsstaðar, hvort sem er í stofu, eldhús, bókaherbergi eða barnaherbergi. 

Nú þarf ég bara að fara að sanka að mér fallegum hlutum í þessa... Jei! 
Og hver veit nema þróunarsaga litlu kommóðunnar haldi áfram?
Eflaust fer hún í hring einhvern daginn og allar skúffurnar verða hvítar á nýjan leik...

Bis weiter, eins og þeir segja í Súkkulaðilandinu ;)

þriðjudagur, 8. júlí 2014

Mini-makeover

Mig hefur alltaf langað í svona gangaborð. Ég var svo á röltinu í Góða um daginn og rakst þar á teak borðplötu sem ekki voru neinir fætur undir. Platan kostaði skid og ingen og heim fór hún. Ég var bara alls ekki búin að ákeða hvar ég vildi hafa svona gangaborð, ég fer nefnilega að verða svolítið fátæk af plássi :) Það var þó einn staður sem ég gat hugsanlega troðið slíku borði og það var í svefnherbergið. Ég mældi þetta aðeins út og niðurstaðan varð sú að svona borð myndi bara sóma sér sérdeilis vel í hjónó, á veggnum beint á móti rúminu og alls ekki þrengja gangveginn að neinu ráði. Mér var því ekkert að vanbúnaði...

Ég brunaði með borðplötuna á timburverkstæði Húsasmiðjunnar og fékk þá til að saga plötuna fyrir mig efti endilöngu. Þar getur maður einfaldlega gengið inn og þeir saga fyrir mann plötur eftir manns eigins höfði á meðan maður bíður... Ég borgaði eitthvað í kringum 500 kr fyrir þessa frábæru þjónustu! Í leiðinni keypti ég svo tvo litla hvíta vinkla sem ég notaði til að festa borðið við vegginn. Þaðan fór ég beinustu leið upp í IKEA og keypti tvo borðfætur sem ég skrúfaði svo undir plötuna. Ég ætla ekkert að ljúga að ykkur en að SJÁLFSÖGÐU datt eitt og annað ofan í körfuna mína annað en þessi borðfætur!




Þegar hér var komið við sögu var ekkert eftir nema skrúfa þetta fast við vegginn og bera teak-olíu á plötuna. Sem ég gerði. Enn og aftur segi ég; "Þetta er svo einfalt að það er hlægilegt!".

Þetta borð er algjört krútt og Bambi hefur loksins fengið samastað!

Hlutirnir eiga það hins vegar til að vinda svolítið upp á sig þegar ég er að brasast og þegar þessi dagur var á enda var hjónahergergið gjörbreytt með tiltölulega lítilli fyrirhöfn og litlum tilkostnaði. Stærsti útgjaldaliðurinn í þessu öllu saman voru fæturnir undir borðið sem kostuðu samanlagt tæpar 8000 kr.

Veggurinn fyrir...

Og veggurinn eftir...

Eins og glögg augu sjá skellti ég upp gardínum fyrst ég var með borinn á lofti. Ég er í rauninni ekki mikil gardínu manneskja, en mér finnst samt voða kósý að hafa gardínur í þeim rýmum sem maður notar til að slaka á og hafa það huggulegt. Þessar eru úr IKEA. Þær veita ótrúlegan hlýleika en hleypa jafnframt birtunni vel í gegn.


Annað sem ég gerði var að kaupa litla körfu frá House doctor undir óhrein föt sem eiga það til að safnast fyrir á gólfinu þegar þreyttir íbúar herbergisins nenna ekki að fá sér kvöldgöngu í þvottahúsið ;) Hún er ekki stór því ég vildi ekki heldur að óhreinatauið bókstaflega færðist inn í svefnherbergið. En krúttleg er hún og hana fékk ég í Fakó á Laugaveginum.


Það þurfti líka að dúllast smá í hillunni sem stendur gluggamegin við rúmið, svo ég kippti með mér einum blómapotti, gerviblómi, myndaramma og alveg yfirmáta sætum litlum járnfugli á flandri mínu um bæinn þennan dag...


Skellti smá dúlleríi í gluggakistuna og þá var þetta bara alveg á hárréttri leið... :)


Það er gaman að segja frá því að ljósin sem eru yfir rúminu eru fysrtu náttlamparnir sem móðuramma mín og afi keyptu sér þegar þau voru ung. Ljósin eru eins og ný, hvergi rispa eða beygla!

Þessa string-art mynd gerði móður amma mín á sínum yngri árum. Ég rakst á hana niður í kjallara hjá henni ekki alls fyrir löngu þar sem hún bara lá og safnaði ryki. Ég fékk því leyfi til að bjarga henni frá glötun! Mér finnst hún svo ótrúlega falleg... Ég skildi viljandi eftir pláss á veggnum við hliðina á myndinni því einn góðan veðurdag ætla ég að gera einhverskonar útgáfu af string-art mynd og hengja við hliðina á þessari.


Fallegu drengirnir okkar fengu líka pláss á veggnum góða. Þessar myndir eru í miklu uppáhaldi hjá foreldrunum. Þær eru teknar á frábærum degi í dýragarðinum í Hör í Svíþjóð fljótlega eftir að við fluttum þangað...

En punktinn yfir i-ið setti hins vegar húsbóndinn þegar hann kom heim frá Svíþjóð á sunnudaginn. Þannig er að hurðin á herberginu hallast alltaf aðeins ef það er enginn hurðastoppari á henni. Við erum lengi búin að láta minnstu gerðina af Zooni uglunni passa hurðina fyrir okkur en hún hefur bara ekki alveg verið að ráða við það verkefni :) Sérstaklega ekki ef svalahurðin er opin. En upp úr töskunni sinni dró húsbóndinn að þessu sinni þennan ofurkrúttlega Zooni bjór! Hann er fullkominn í starfið...




Ég ætlaði sem sagt að gera mér gangaborð. Það tók 20 mínútur eftir að ég var búin að láta saga fyrir mig plötuna og kaupa fæturna... það fór hins vegar heill dagur í þetta mini-makeover að lokum :)

Þangað til í næstu viku... ;)


þriðjudagur, 1. júlí 2014

Ugla sat á kvisti...

Ég tók mér sjálfskipað sumarfrí í síðustu viku. Ákvað með stuttum fyrirvara að skella mér til minna fyrri heimkynna; svíaríkis. Þar hitti ég sólina og hitann, sem var góð tilbreyting frá því sem við þurfum að þola hér þessa dagana. Ég hugsa þetta samt þannig að rigning og rok eru frábær afsökun til að vera inni að dunda sér við hitt og þetta...

Ég er nefnilega hinn dæmigerði íslendingur að því leyti að þegar sólin skín finnst mér ég algjörlega tilneydd að vera utandyra! Þessi eiginleiki gat ollið miklu raski á heimilislífi fjölskyldunnar þegar við bjuggum í Svíþjóð þar sem sumrin eru löng, heit og sólrík. Það gat farið svo að ef það kom ekki rigningardagur inn á milli þá var ekki þrifið, þvotturinn ekki þveginn og húsmóðirinn átti í talsverðum erfiðleikum með að staðsetja sig fyrir framan eldavélina... Ég meina, maður er alinn upp við þetta frá blautu: "Vertu úti... Það er sól!"

En í miklu bjartsýniskasti keypti ég mér hlíraboli og mokkasíur í öllum regnbogans-neonlitum í uppáhaldsbúðinni okkar allra, H&M. Þegar heim kom sá ég að við þetta yrði ég að eiga hálsmen. Ég var búin að vera að gjóa augunum á neon-lit bönd á keflum í Söstrene Grene þegar ég hef átt leið þar um undanfarið og þegar ég sá svo litlar neonlitar uglur úr plasti stóðst ég ekki mátið lengur.

Ég átti þessar keðjur í fórum mínum svo mér var ekkert að vanbúnaði. Ég þræddi böndin í gegnum keðjurnar með nál og áður en ég vissi af voru hálsmenin orðin þrjú! Ég setti svo krækju á litlu plastuglurnar til að það sé auðveldlega hægt að taka þær af ef maður er ekki í uglu-stuði...






Ég setti krækjur á uglurnar til að
hægt sé að taka þær af...



Gula er mín uppáhalds... og í dag er ég í uglu-stuði...