þriðjudagur, 29. apríl 2014

Játning.

Ég ætla að gera játningu. Ég er með svona smá frestunaráráttu. Þegar videoleigurnar voru og hétu setti Gummi mér stólinn fyrir dyrnar þegar ég fékk einu sinni 8000.- króna sekt fyrir að skila stórmyndinni DAVE örlítið í seinna fallinu. Hún var samt búin að liggja í sætinu á bílnum í fleiri, fleiri daga og ég búin að keyra margoft framhjá leigunni, en inn fór ég ekki. Eftir það keyptum við bara þær myndir sem okkur langaði að sjá, það var einfaldlega hagkvæmara fyrir okkur :) Það fer stundum á sama veg með aðra hluti sem ég ætla mér að gera. Eins og til dæmis að hengja upp úr þvottavélinni. Ég á það til að þvo sömu vélina tvisvar áður en ég hengi upp úr henni. Og núna er ég búin að vera á leiðinni að byrja á verkefni þessarar viku alveg síðan á þriðjudaginn fyrir viku síðan. Það var svo klukkan þrjú í dag sem ég settist niður og hófst handa.

Mig hafði lengi langað að prófa að föndra eitthvað úr gipsi. Möguleikarnir eru endalausir og ég var orðin alveg ringluð eftir að hafa tekið einn rúnt á veraldarvefnum í leit að hugmyndum. En svo datt ég niður á þá réttu.

Ég byrjaði á því að hekla litlar skálar. Tvær ætlaði ég að nota sem kertastjaka og eina aðeins stærri sem ég hafði ekki hugmynd um hvað ég ætlaði að gera við. Mér fannst bara eins og þetta yrði að vera þrenning.
Ef kunnáttan til að hekla hringlaga dúllu er til staðar er lítið mál að hekla svona skálar. Maður einfaldlega hættir að auka út þegar æskilegu þvermáli botnsins á skálinni er náð og heklar hring eftir hring þar til barmarnir eru orðnir eins háir og maður óskar.

Ég notaði tvöfalt SMART-garn
og heklunál nr 10 til að fá þetta
svolítið gróft.

Það tekur enga stund fyrir gipsið að byrja að harna.
Það er því gott að hafa hraðar hendur áður en það
harnar í fötunni og eyðileggst.
Ég var svo búin að fara í Húsasmiðjuna og kaupa eitthvað sem heitir Multi-gips. Það má bæði nota til að lægfæra veggi og föndra úr því. Utan á pokanum stóð að það ætti að blanda gipsið í hlutföllunum 1:2 þ.e. 1 af vatni á móti 2 af gipsi. Ég sá strax fyrir mér að það yrði allt of þykkt til að heklið kæmi í gegn og snéri því hlutföllunum við. Ég hafði smá áhyggjur af því að gipsið myndi ekki harðna ef ég blandaði það svona þunnt, en viti menn það varð glerhart á innan við klukkutíma!

Til að tryggja að ég næði rétta forminu á kertasjökunum pakkaði ég kertunum inn í matarfilmu og notaði þau til að forma stjakana á meðan gipsið var enn lint. Ég passaði mig samt á því að taka þau úr um leið og þetta fór aðeins að harðna til að koma í veg fyrir að þau hreinlega festust í þeim. Stóru skálina mótaði ég bara með höndunum.

Ég ákvað að fórna ekki eldhúsinu í þetta verkefni og
hreiðraði um mig út á palli :)

Þegar að gipsið hafði þornað dró ég svo fram spreybrúsana og spreyjaði yfir herlegheitin. Þetta kom svona ljómandi vel út! Ég þarf að gera frekari tilraunir með þetta og ef þið ætlið að gera slíkt hið sama held ég að útkoman verði jafnvel enn betri ef maður notar bómullargarn til að hekla úr.



þriðjudagur, 22. apríl 2014

Doppótt eða ekki doppótt...?

Ég er tíður gestur á allskyns bloggum og heimasíðum. Maður þarf ekki alltaf að finna upp hjólið sjálfur, það er líka gaman að taka hugmyndir annara og útfæra þær á sinn hátt. Ég var að vafra á TRENDNET um daginn og sá þá hugmyndir af doppóttum veggjum. Þetta fannst mér fínt og langaði að prófa. Ég þurfti bara að finna rétta staðinn í húsinu. Það var búið að vera lengi á planinu að kaupa nýjan sjónvarpsskenk og flikka aðeins upp á sjónvarpshornið. En vegna anna höfðum við ekki komið því í verk. En núna fyrir páskana keyptum við skenkinn og skáp fyrir DVD myndirnar. Skjannahvítt og glansandi. Þegar skápurinn og skenkurinn voru svo komin upp að hvítum veggnum var það alveg ljóst að þessi veggur gat ekki verið hvítur! Hann skyldi málaður og á hann settar doppur!














Þetta er ótrúleg breyting með lítilli fyrirhöfn. Það er ekki mikið mál að mála einn vegg... Er mér sagt ;) Það er nefnilega innprentað í mig að ef kostur er á skuli maður láta fagmenn um verkin og þess vegna málaði ég ekki þennan vegg sjálf heldur fékk til þess málara. Sá er hins vegar eitthvað farinn að þreytast á því að þurfa að stökkva til í hvert sinn sem mér dettur í hug að mála eitthvað svo nú ætlar hann að taka mig í læri! Hann segir að ef ég geti lakkað húsgögn geti ég svo sannarlega málað einn og einn vegg :)
Ég tímdi hins vegar ekki að líma doppurnar á vegginn. Þetta er eitthvað svo stílhreint og fallegt svona, þær hefðu þurft að vera hvítar... En þessar sem ég keypti voru bara alls ekki hvítar!

Ég hafði þvælst inn í Söstrene Grene um daginn og þá höfðu ótrúlega fallegir og litríkir límmiðar dottið ofan í körfuna mína. Þeir eru alveg í uppáhaldslitunum mínum þessa dagana og ég bara varð að prófa... Ég veit ekki alveg með þetta svona inn í miðri stofu? Mig minnir að Gummalingur hafi sagt: "Elva, mér líður svolítið eins og í nútímaútgáfu af Hans og Grétu". Mér finnst þetta fallegt á mynd, en ég held að þetta henti frekar í barnaherbergi. Ég er samt ennþá svo hrifin af hugmyndinni um doppóttan vegg að ég ætla að verða mér út um hvítar doppur og prófa þær í kringum sjónvarpið...














Ég er svo búin að vera veik í heila 8 daga. Það á alveg óskaplega illa við mig að liggja og gera ekki neitt. Sérstaklega ef sólarvörn og sandur eru hvergi nálægt. Svo ég dundaði mér við að gera fleiri blómavasa þegar ég var farin að geta reist höfuð frá kodda...

Þessar voru bara grafnar
lengst inn í skáp og máttu
svo sannarlega við því að
öðlast nýtt líf.
Í Litalandi í Borgartúni fást
þessi sprey. Þau eru til í öllum
litum og litatónum og þekja
alveg einstaklega vel!

















Það er bara ekkert sem jafnast
á við að búa eitthvað til...
Eftir nokkrar misheppnaðar
tilraunir varð þessi
broddgöltur til!















Hlakka til næstu viku!

föstudagur, 18. apríl 2014

Páskablóm handa ykkur...

Föstudagurinn langi er ekkert lengri en aðrir dagar. Hann inniheldur nákvæmlega 24 klukkustundir eins og allir hinir 364 dagar ársins. Ég er hins vegar búin að koma ótrúlegustu hlutum í verk ásamt því að fara með Litla á slysó, ekkert alvarlegt sem betur fer, og klukkan er bara rétt að verða sex!
Okkur er boðið í mat í kvöld. Og kanski þess vegna er dagurinn minn í dag lengri en dagurinn í gær. Ég þarf ekki að vesenast í eldhúsinu eins og flesta aðra daga. Mig langaði þess vegna að nýta tímann minn í eitthvað skemmtilegt, búa eitthvað til. Þetta vafðist aðeins fyrir mér af því að flestar búðir eru jú lokaðar svo ég varð að gera eitthvað úr því sem ég á til. Þá allt í einu mundi ég eftir hugmynd sem ég hef lengi ætlað að prófa að framkvæma og í hana átti ég allt...
Áldósir sem ekki eru í notkun lengur, límbyssa og sprey í fallegum lit (og af því á ég nóg skal ég segja ykkur) er í rauninni allt sem þarf. Blúnduna setti ég bara á af því að ég mér fannst eitthvað vanta til að fullkomna verkið.














Þetta er í rauninni sáraeinfalt. Límbyssunni er bara stungið í samband og þegar hún er orðin heit notar maður hana til að skrifa einhvern texta eða "teikna" mynd á dósina. Þetta er reyndar aðeins erfiðara en það hljómar og þarfnast smá æfingar. Það góða er samt að ef eitthvað klikkar er mjög auðvelt að pilla límið af dósinni og byrja upp á nýtt. Ég ákvað hins vegar að hafa mínar bara svona, fannst bara smá sjarmi yfir þessu svona ófullkomnu... Límbyssur fást í massavís í Söstrene Grene td. og ég man ekki betur en að ég hafi bara borgað 1000 kr. fyrir mína. Þegar límið er þornað, sem tekur bara augnablik, er spreybrúsinn mundaður og farnar eins margar umferðir og þurfa þykir yfir dósina.


Er þetta ekki krúttlegt? Og hér eru möguleikarnir enn og aftur endalausir! Pennastatíf, box undir te og kaffi, box undir servíettur og box undir allt sem þú hendir alltaf á þennan eina og sama stað á eldhúsbekknum eða á hilluna í forstofunni. Ég gæti haldið endalaust áfram...

Gleðilega páska!

þriðjudagur, 15. apríl 2014

Dundað í flensuskít...

Þessi færsla er skrifuð með hæsi og hor í nös. Ég er búin að vera að býsnast yfir heilsuleysi annarra í kringum mig svo ég á þetta víst skilið ;) En það er gott að geta dundað sér þegar maður er lasinn. Þá líður tíminn og maður gleymir sér um stund.

Þennan púða saumaði ég fyrir fjórum árum síðan. Ég hafði rekist á svo frábæra hugmynd af blómum sem búin voru til úr filti og fékk þá hugmynd að þau væru upplagt púðaskraut. En eins og svo oft áður kláraði ég ekki verkið. Í kvefpestinni um helgina settist ég svo loksins niður og kláraði púðann.



Mér finnst alltaf smáatriðin fullkomna verkin og þessa litlu miða keypti ég í Stoff och stil í Svíaríki. Það þyrfti svo sannarlega einhver að taka sig til og opna þá snilldarverlslun hér á Íslandi!

Filt er ótrúlega skemmtilegt efni. Það er ódýrt og fæst í miklu litaúrvali og mismunandi þykktum. Annað sem er skemmtilegt við filt er að ef maður skellir því í vélina þá þæfist það og fær svona meira "pró" áferð. Ég átti hvítan filtbút svo mér var ekkert að vanbúnaði.
Þetta er alveg einstaklega auðvelt! Fyrsta vers er að velja sér passlega stórt skapalón til að gera hring. Hann er klipptur út og síðan klippt í spíral eins og sést hér á myndunum til vinstri. Því næst er innri brúnin þrædd með nál og tvinna alla leið, byrjað innst í miðjunni. Þegar búið er að þræða er haldið í báða enda á tvinnanum og rykkt saman. Endarnir eru síðan bundnir kirfilega saman.



Krúttlegt!





Blómin saumaði ég svo bara á púðann. Einfaldara getur það varla verið. Ég sé alveg fyrir mér endalausa möguleika hér og aldrei að vita nema ég skelli í vin handa þessum... Eða bæti við blómum á þennan!

þriðjudagur, 8. apríl 2014

Fermingarpósturinn!

Verkefni síðustu viku var að sjálfsögðu ferming frumburðarins. Ég var búin að hugsa og hugsa.Vafra á netinu, skoða blöð og ég veit ekki hvað og hvað. Allsstaðar voru einhverjar stjarnfræðilegar skreytingar tengdar áhugamálum fermingarbarnanna á öllum borðum. Heilu trommusettunum stillt upp, fyrstu fótboltaskórnir og bolti í fullri stærð, golfsett og alls kyns dót og drasl. Jú Stóri er svo sannarlega fótboltaáhugamaður, en mér finnst það ekki lýsandi fyrir hann. Hann spilar Playstation og sefur með i-padinn undir koddanum en mér finnst það ekki vera borðskraut :) Ef ég bara hefði getað skreytt borðin með gáfum, fegurð og hjartahlýju hefði það lýst mínum dreng best.

Þetta byrjaði allt með myntugrænum muffinsformum og súkkulaði í stíl. Ég kolféll fyrir litnum. Ég átti samt ennþá eftir að finna eitthvað þema, eitthvað sem tengdis áhugasviði drengsins. Ég var lengi búin að leita að gamalli landabréfabók sem ég ætlaði að nota í eitthvað allt annað. Ég fann hana svo loksins á einum af nytjamörkuðum bæjarins, risastóran og fullan af fallegum landakortum. Þegar ég kom heim með hann og fór að blaða í gegnum hann sá ég að litirnir í landakortunum pössuðu svona ljómandi vel við myntugrænt. Þá mundi ég líka allt í einu að sonur minn þekkir nánast alla þjóðfána þessa heims og gæti bent blindandi á Timbuktu á landakorti... Ef þið mynduð segja mér að Timbuktu væri í Skagafirði myndi ég bara svara hissa: "Já er það virkilega?" ;) Þemað var ákveðið og upphófst mikið föndur hjá hrifnæmu húsfreyjunni í Fossvogi. Drengurinn hefur líka haft ómældan dýraáhuga frá því að hann var tæplega eins árs og ég slysaðist til að kaupa poka með villtum plastdýrum handa honum á einhverri bensínstöð. Hann lét ljónin aldrei urra eða éta hin dýrin, heldur raðaði hann dýrunum til að byrja með í stærðarröð og þegar hann stækkaði og þroskaðist var þeim raðað eftir tegundum. Það er honum að þakka að ef ég rækist á blaðglæmu eða förustaf myndi ég þekkja þær kynjaverur í sjón. Af þessum sökum eigum við fullan kassa af allskyns dýrum frá vörumerkinu Sleich. Þau eru handmáluð og dásamlega falleg. Mér fannst þau upplögð sem borðskraut. Litirnir í þeim tónuðu líka eitthvað svo vel við. Þetta mátti samt ekki verða eins og barnaafmæli með safari þema svo að ég lét eitt til tvö dýr nægja á hvert borð. Nashyrningar eru uppáhaldsdýrin hans en ég ákvað samt að leyfa fleirum að fljóta með.

Ef þið rýnið í myndina sjáið þið kanski hvað ég á við :)


Til að gera langa sögu stutta ætla ég að leyfa myndunum að tala sínu máli í þetta sinn...

Danskur gæða-atlas, 500 kr.
Uppspretta ótal hugmynda!
Það eru alveg ótrúlega fallegir litir
í svona gömlum landakortum.




Til að gera fánana í lengjunni á
myndinni hér til hliðar notaði
ég bútasaumsgræjurnar mínar.

Allir fánarnir nákvæmlega jafn
stórir og OCD-púkinn hoppandi
af kæti...















Fánalengjurnar nutu sín vel yfir
eyjunni í eldhúsinu.

Brjálað að gera :)
















Grunnbúnaður til að gera litla hnetti
sem ég notaði sem borðskraut.















Ég klippti nokkrar síður niður
 í passlega stóra búta og
límdi utaná frauðkúlur með
möttu Mod Podge.
Ég gat ekki setið á mér að
prófa að gera tvær til að
hengja í loftið líka.
















Martha nokkur Stewart er alveg
meðetta! Akrýlmálning og
SPRUNGULAKK (í miðjunni)
Tær snilld!
Byrjað á því að mála með litnum
Sem maður vill að komi í gegnum
sprungurnar, svo er lakkað yfir
með sprungulakkinu.

















Svo er málað yfir lakkið með
hinum litnum og þá verður þetta
svona líka fínt! 
Gjafaborðið.
















Þetta er mjög einfalt. Bara vefja
fallegum pappír í kramarhús
og líma saman í hring!
Einfaldara getur það ekki verið!
Þessa hugmynd fékk ég á netinu
þegar ég googlaði Map decorations
og ákvað að prófa. Svona
veggskraut býður upp á
endalausa möguleika!

















Upp úr veggskrautshugmyndinni
spratt svo þessi hugmynd af
veggfestum blómavösum :)
Ég gerði þrjá svona og hengdi upp
á vegg. Mikið óskaplega var þetta
fallegt! 
















Ég fann aldrei neinar servíettur
í litnum sem ég var að leita að.
Svo ég keypti bara hvítar...
Og bjó til litlar þverslaufur
úr þeim með skrautteipi.
Krúttlegt! :)
















Mig langaði til að hafa koparlita
blómavasa með þessu öllu
saman en fann enga á
sanngjörnu verði. Þá er nú gott að
ver liðtækur á spreybrúsanum!
Þessi er algjörlega uppáhalds.
Fann hann í Góða fyrir slikk...


















Hann varð algjörlega einstakur!
Svo koma hér nokkrar af
borðskreytingunum...































Við skiljum hvor aðra svo vel ég
og vinkona mín sem bjó til þetta
dásamlega döðlugott fyrir
veisluna og skar það niður með
reglustiku að vopni! :)
Ég keypti 70 hvíta túlípana sem
ég setti á víð og dreif um húsið.
Þetta þykja mér fallegustu blómin!


















Ein í viðbót af blómavösunum :)
Og að lokum fermingargjöfin.
Innihald kassans vakti mikla lukku!















Ég ætla ekki að þreyta ykkur á fleiri myndum. Þetta var dýrðardagur í alla staði og skemmtilegt verkefni!
Þangað til í næstu viku...
E.