þriðjudagur, 25. nóvember 2014

Borð fyrir 4

Þegar ég labba inn í timbursöluna í Húsasmiðjunni þá upplifi ég mig rosalega matsjó... alveg þangað til ég mæti iðnaðarmönnunum og þeir fara að gefa mér auga. Þá langar mig helst til að segja; ,,Hey! Þú þarna! Já ég er að tala við þig... Ef þú vissir hvað ég er að fara að gera ótrúlega flottar diskamottur úr þessum spýtum þá myndir þú ekki stara svona á mig!" ;) Ekki misskilja mig, þetta er ekki illa meint, ég öfunda þá! Mikið væri ég til í að eiga svona ermalausan vinnusamfesting. Með allskonar vösum fyrir hitt og þetta. Og vera svo í hvítum afabol eins og fékkst í Guðsteini í gamla daga innanundir. Geta svo bara hent mér í hann á morgnana sett á mig derhúfuna og farið út á ,,verkstæði". Enginn maskari, hárblásari eða vesen! En ég á hvorki vinnusamfesting né verkstæði til að fara á, bara náttbuxur og bílskúr. Kanski seinna bara...

Það er búið að vera brjálað að gera síðastliðna viku. Fékk til mín hrúgu af konum á laugardagskvöldið í föndur sem ég þurfti að undirbúa og svo þarf ég víst stundum að vinna. Þannig að í gærmorgun var ég ekki byrjuð á verkefni þessarar viku. Ástæðan fyrir því að ég tek þetta fram er til að leggja ríka áherslu á hvað þetta er í alvörunni einfalt og fljótlegt! (Hafið þið heyrt þennan áður?) Ég semsagt gerði mér ferð í Timbursölu Húsasmiðjunnar og keypti af þeim hálfa 4mm birki-krossviðsplötu. Ég fékk ,,strákinn" á plötusöginni svo til að saga hana í eins margar 35x35 cm plötur og hægt var og svo afgangana í minni plötur sem ég ætla að nota í annað. En talandi um plötusög... Þetta ætti að vera staðalbúnaður á hverju heimili! Og Gummi, ef þú lest þetta, þá óska ég eftir einni slíkrí í jólagjöf! :)

En þetta fékk ég úr hálfri plötu:


Svo var bara að hefjast handa:






Ég þurfti að fara tvær umferðir með málningunni og átti samt afgang af þessari litlu túpu. Þegar málningin var orðin þurr fór ég tvær umferðir yfir þetta með vaxi til að gera yfirborðið vatnsfælið og mýkra viðkomu... Og útkoman, fjórar dásamlega fallegar diskamottur!











Það er eiginlega verst að jólin eru ekki að koma... Því ég er búin að leggja á borð!
Hlakka til næstu viku, knús í hús...
E.

þriðjudagur, 18. nóvember 2014

Barnaherbergi tekið í nefið...

...helmingurinn af því allavegana ;)

Ég elska barnaherbergi. Þau bjóða upp á svo margt. Bæði í litavali, allskyns lausnum, skreytingum og bara nefndu það. Ég hef alltaf lagt mikinn metnað í herbergi strákanna minna og gengið í gegnum hin ýmsu tímabil í þeim efnum eins og td. Flexa tímabilið og Mammut tímabilið :D
Mér finnst mikilvægt að herbergi barnanna séu falleg, notaleg og vel skipulögð. Fyrir því eru margar ástæður en kanski helst vegna þess hversu miklum tíma er eytt þar við nám, leik og hvíld. Þetta eru svo ótrúlega mikilvægir staðir fyrir svo ótrúlega mikilvægt fólk!
Um daginn fékk ég verðugt verkefni. Ég var beðin um að innrétta herbergi fyrir lítinn tæplega tveggja ára vin minn sem er að eignast sitt fyrsta herbergi. Þetta var efniviðurinn:


Ég fékk í hendurnar gamalt rúm sem mamman svaf í þegar hún var lítil, litla kommóðu frá ömmu hennar sem við ákváðum að nýta sem náttborð, lítinn stól og eina einingu af gamalli Píra-hillu.
Svo mátti ég bara leika mér! Vei! Eins og þið sjáið er herbergið ekki stórt. Ég ætla að skjóta á ca. 5 fermetra, svo möguleikar á uppröðun voru ekki margir. Líka vegna þess að það er glerveggur með rennihurð á herberginu. En allt hefur möguleika og það var ekkert að gera nema bretta upp ermar og hefjast handa. Ég held ég leyfi myndunum bara að tala í þetta sinn...

Rúmið málaði ég með krítarmálningu frá Mörthu Stuart. Ég held næstum því að ég þurfi að eignast annað barn bara til að geta haft svona rúm heima hjá mér! Ég er gjörsamlega ástfangin af litnum!
Svo málaði ég Ribba myndarennu úr IKEA í sama lit fyrir ofan rúmið. Gulu skýin sem ég setti í rennuna til að passa bækurnar betur eru servíettustandar sem fást líka í IKEA. Svo setti ég uppáhalds barnabækurnar mínar í hilluna... Ef þið hafið ekki lesið Gunnhildi og Glóa og Blómin á þakinu fyrir börnin ykkar er kominn tími til! ;)
Púðarnir eru svo úr Rúmfatalagernum, allir nema þessi röndótti, en hann og rúmteppið eru úr IKEA.

Nafnaborðinn er úr versluninni Unikat, en fæst á fleiri stöðum. ,,Hillurnar" eru svo bara vírkörfur úr Söstrene Grene sem ég boraði fastar á vegginn. Töskurnar og póstkortin eru líka þaðan.

Það er smá saga að segja frá þessum. Litli vinurinn, sem á herbergið, á annan svona bangsa. Sá heitir Aggú. Aggú hefur fylgt honum hvert fótmál síðan hann var pínu peð. Af ótta við að Aggú glataðist og ekki fengist nýr keypti móðirin vara-Aggú. Mér fannst þetta frábær leið til að geyma hann einhversstaðar annarsstaðar en inn í skáp.  





Þessar fást svo í öllum regnbogans litum í rúmfatalagernum fyrir örfáar krónur!



Og ef maður finnur ekki réttu mottuna, þá heklar maður hana. Þessa heklaði ég úr afgangs garni sem ég lumaði á...

Og þá er bara hinn helmingurinn eftir... ég er aðeins búin að undirbúa mig og er æsispennt að halda áfram!

Þangað til næst... ;)

þriðjudagur, 11. nóvember 2014

Stóra koparstjörnumálið...

Er þetta eitthvað grín eða? Þarf maður virkilega að fara að kaupa jólaskrautið í byrjun október ef maður vill endurnýja eitthvað? Þá komu allavegana jólin í IKEA voru bara búin korteri seinna... Bókstaflega. Ég fór líka af stað núna í byrjun nóvember og ætlaði að næla mér í ákveðna gerð af koparstjörnum á jólatréð sem ég missti af í fyrra og vitið menn, þær voru búnar! Búnar! 
"Já... ég man eftir þeim" sagði afgreiðslukonan þegar ég spurði um stjörnurnar. "Þær kláruðust nú bara um leið og þær komu!" Bætti hún svo við. "Já er það virkilega, hvenær var það eiginlega?" spurði ég þá og reyndi eftir fremsta megni að leyna vonbrigðum mínum. Þetta var jú bara jólaskraut, en ekki bráðnauðsynlegt hjálpartæki við athafnir daglegs lífs sem ég hafði misst af þarna. "Elskan mín, einhverntíman um miðjan október!" Svaraði hún þá og samúðin skein úr andliti hennar. Like á samúðafullu og skilningsríku afgreiðslukonuna! :D En fúli föndrarinn deyr ekki ráðalaus. Hann reddar sér.

Ég var oft búin að gjóa augunum á þennan vír hérna í Söstrene Grene:

 


150.- pakkinn, 2 metrar. Það er gjöf en ekki gjald myndi ég segja. Ég hlaut að geta beyglað hann í einhverskonar stjörnur! Og vitið menn, með stjörnulaga piparkökuform og litla vírtöng að vopni tókst mér þetta hér:



Og af því að þetta var svo auðvelt, já og ódýrt, þá hélt ég bara áfram!


Ég náði 18 stykkjum úr 4 pökkum af vír... sem gerir 33,333333 á stykkið! Mikið afskaplega held ég að gjaldkeri framkvæmdahallarinnar verði yfir sig kátur þegar hann sér þessa útreikninga og ég segi honum að stjörnur eins og ég ætlaði að kaupa kostuðu 800.- stk. Ég hlýt að fá feitan jólabónus í ár... ;)


Nú og af því að allir eru bara reddý fyrir jólin, búnir að skreyta og svona, þá henti ég í einn aðventukrans í leiðinni... :D



Það er u 6 breiðar tröppur af eldhúspallinum hjá mér og upp í stofu. Mér fannst alveg upplagt að skella aðventukransi þar...



Ég er svakalega sátt... verst að þessar elskur þurfi að safna ryki fram að mánaðarmótum.
En ég er allavegana tilbúin að taka á móti aðventunni!
:D



þriðjudagur, 4. nóvember 2014

Skreytum hús með LEIR!

Jesús minn... held ég þurfi einhverja greiningu og jafnvel lyf! Þetta byrjaði allt mjög sakleysislega. Ætlaði bara að gera pakkaskraut fyrir jólin, það var allt og sumt. Keypti mér hálft kíló af leir sem þornar við stofuhita og gerði úr honum hjörtu og stjörnur sem ég stimplaði í nöfn og texta og skreytti svo með Mod Podge, servíettum, smá vír og perlum sem ég fann út í skúr. Simple as that! Meðan ég dundaði við þetta hrönnuðust hugmyndirnar upp í kollinum á mér... Stundum segist Gummi heyra í mér hugsið þegar ég kemst í þennan gír. Hann hefur pottþétt heyrt þetta hugs! Þegar þetta hálfa kíló var búið langaði mig svo að gera aaaaðeins meira svo ég hentist út í búð. En leirinn var búinn... búinn... BÚINN! Eins og fíkill í fráhvörfum keyrði ég um allan bæ í leit af þessari gersemi. Fann þetta svo loksins í Litum og föndri á Skólavörðustíg... í kílóa pakkningum! "Ég ætla að fá eitt kíló... eða láttu mig hafa tvö... nei höfum þau þrjú!" Þar sem ég stóð við búðarborðið greip mig einhver óraunhæf hræðsla um að þessi vara yrði ekki pöntuð inn aftur og ég keypti þrjú kíló af leir... Hvaða lyf ætli henti mér best? :D
Ég veit að ég hljóma eins og biluð plata núna en þetta er sko eitthvað fyrir alla!

Sjáiði hvað drengurinn á myndinni er hamingjusamur? Svona var ég líka... ;)



Svo var bara að byrja að skreyta:






Svo langaði mig að gera smá fyrir mig líka... 

My forest friends...





Og þar með fór fyrsta jólaskrautið upp í ár!
Hvað finnst ykkur?
Ég er rohosa sátt... Hey, ég er farin að leira! ;)