þriðjudagur, 25. nóvember 2014

Borð fyrir 4

Þegar ég labba inn í timbursöluna í Húsasmiðjunni þá upplifi ég mig rosalega matsjó... alveg þangað til ég mæti iðnaðarmönnunum og þeir fara að gefa mér auga. Þá langar mig helst til að segja; ,,Hey! Þú þarna! Já ég er að tala við þig... Ef þú vissir hvað ég er að fara að gera ótrúlega flottar diskamottur úr þessum spýtum þá myndir þú ekki stara svona á mig!" ;) Ekki misskilja mig, þetta er ekki illa meint, ég öfunda þá! Mikið væri ég til í að eiga svona ermalausan vinnusamfesting. Með allskonar vösum fyrir hitt og þetta. Og vera svo í hvítum afabol eins og fékkst í Guðsteini í gamla daga innanundir. Geta svo bara hent mér í hann á morgnana sett á mig derhúfuna og farið út á ,,verkstæði". Enginn maskari, hárblásari eða vesen! En ég á hvorki vinnusamfesting né verkstæði til að fara á, bara náttbuxur og bílskúr. Kanski seinna bara...

Það er búið að vera brjálað að gera síðastliðna viku. Fékk til mín hrúgu af konum á laugardagskvöldið í föndur sem ég þurfti að undirbúa og svo þarf ég víst stundum að vinna. Þannig að í gærmorgun var ég ekki byrjuð á verkefni þessarar viku. Ástæðan fyrir því að ég tek þetta fram er til að leggja ríka áherslu á hvað þetta er í alvörunni einfalt og fljótlegt! (Hafið þið heyrt þennan áður?) Ég semsagt gerði mér ferð í Timbursölu Húsasmiðjunnar og keypti af þeim hálfa 4mm birki-krossviðsplötu. Ég fékk ,,strákinn" á plötusöginni svo til að saga hana í eins margar 35x35 cm plötur og hægt var og svo afgangana í minni plötur sem ég ætla að nota í annað. En talandi um plötusög... Þetta ætti að vera staðalbúnaður á hverju heimili! Og Gummi, ef þú lest þetta, þá óska ég eftir einni slíkrí í jólagjöf! :)

En þetta fékk ég úr hálfri plötu:


Svo var bara að hefjast handa:






Ég þurfti að fara tvær umferðir með málningunni og átti samt afgang af þessari litlu túpu. Þegar málningin var orðin þurr fór ég tvær umferðir yfir þetta með vaxi til að gera yfirborðið vatnsfælið og mýkra viðkomu... Og útkoman, fjórar dásamlega fallegar diskamottur!











Það er eiginlega verst að jólin eru ekki að koma... Því ég er búin að leggja á borð!
Hlakka til næstu viku, knús í hús...
E.

2 ummæli:

  1. Þú ert snillingur Elva Björk !

    -Eydís

    SvaraEyða
  2. Ekkert smá flott!
    Kveðja,
    Ragnhildur

    SvaraEyða