þriðjudagur, 17. febrúar 2015

Þetta kemur allt svo náttúrulega til mín...

...nema titlarnir á færslunum! 

Það erfiðasta við þetta sjálfskipaða verkefni mitt er að finna smellinn titil á hverja einustu færslu! Það eru víst allskonar vísindi á bakvið þetta. Titillinn þarf að vera lýsandi, grípandi og ýta þér upp í leitarvélum allt í senn. Já, þetta bara vefst fyrir mér! Stundum vildi ég að ég væri með matarblogg. Þá væri þetta vandamál ekki til staðar: ,,Ofnbakaðar marineraðar lambalærissneiðar með sítrónuberki og myntu á norðurafríska vísu." (Titill fenginn að láni á þessu frábæra bloggi HÉR ) Ég ætti kanski að fara að taka þetta upp bara: ,,Hnattlíkan úr Rúmfatalagernum með stafalímmiðum og krítarmálningu, toppað með með þeim löndum sem þú hefur heimsótt."

Þetta er mjög lýsandi titill, segir bara nánast allt sem segja þarf! Kanski hitti ég bara naglann á höfuðið þarna...? :)

En að verkefni vikunnar. Ég var búin að ætla mér að gera þetta lengi. Málið er bara það að svona hnattlíkön eru frekar dýr og ég var ekki tilbúin að leggja í þetta mikinn kostnað svona í fyrstu tilraun. Svo rakst ég á eitt slíkt í Rúmfatalagernum í hentugri stærð og á ásættanlegu verði. Kosturinn, eða óskosturinn, fer eftir því hvernig á það er litið, við að vera síbrasandi er að þá á maður ýmislegt í fórum sínum. Svo ég þurfti ekki að kaupa neitt nema hnöttinn. Stafalímmiðana átti ég síðan ég gerði þetta HÉR og svört krítarmálning er bara staðalbúnaður... :)


Þá var mér bara ekkert að vanbúnaði.
Ég byrjaði á að skrifa textann á hnöttinn með límmiðunum:


Svo hrærði ég vel í málningunni og málaði 3 umferðir yfir herlegheitin. Það getur verið vandasamt að ná límmiðunum af án þess að það flagni meðfram stöfunum svo ég var með svona útskurðarhníf að vopni og skar meðfram stöfunum. Það er líka hægt að nota bara dúkahníf.


Ég notaði svo hnífinn líka til að hreinsa brúnirnar þegar ég var búin að ná stöfunum af.


Þá var ekkert eftir nema að rífa upp krítartússinn. Þar sem þessi hnöttur var ætlaður Litla, skrifaði ég á hann þau lönd sem hann hefur heimsótt:




Barninu fannst þetta feiknar sniðugt og mömmunni líka!

Þetta verður svo síðasti pósturinn á þessum stað því í næstu viku, þann 25. febrúar, opnar nýja heimasíðan mín á verkefnivikunnar.com!
Ég hlakka mikið til enda er síðan fádæma fögur og stelpurnar hjá RoundAbout hafa staðið sig með stakri príði! Hér væri tilvalið að setja inn link með heimasíðunni þeirra en sökum anna hafa þær ekki komist í að setja sína eigin síðu í loftið :)

Svo er bara að læka og deila á facebook...
:D



Engin ummæli:

Skrifa ummæli