mánudagur, 9. febrúar 2015

Ég á ekki orð...

...þetta er svo sniðugt!

Þegar við fjölskyldan fluttum heim frá Svíþjóð keyptum við okkur dásemdar íbúð í blokk í Fossvoginum. Íbúðin var á tveimur hæðum og efri hæðin var undir súð. Þetta var ást við fyrstu sýn og hún hélt vel utan um okkur í þann tíma sem við bjuggum þar. Það var þó eitt í íbúðinni sem fór verulega fyrir brjóstið á húsfreyjunni og það var baðherbergið. Ég vildi óska þess að ég ætti mynd að sýna ykkur, því haldið ykkur fast, veggirnir voru korklagðir frá gólfi og upp í loft! Já, bara brúnum ósköp venjulegum korki. Það var alltaf á planinu að gera upp þetta baðherbergi, en eftir því sem tíminn leið ,,óx korkurinn eiginlega á mig". Mér fór að finnast þetta pínu flott og sá alveg fyrir mér að blanda honum saman við nýtísku innréttingar og sterka liti. Því miður fluttum við áður en ég fékk að spreyta mig á því verkefni. 

Það er hins vegar alveg magnað hvað allir hlutir fara í hringi. Nú elska allir kork, og ég líka! Það er bara hægt að fá allt úr korki allsstaðar. Í síðustu viku fór ég í Handverkshúsið á Dalvegi í leit að þunnum korki sem ég bara hreinlega man ekki lengur hvað ég ætlaði að gera við! ,,Við eigum bara blautan kork" sagði afgreiðslumaðurinn aðspurður um þunna korkinn, bara svona eins og allir viti hvað það er og viti nákvæmlega hvað gera skuli við hann. Ég held að það hljóti að hafa birtst risastór, blikkandi spurningamerki í augunum á mér því hann leiddi mig þegjandi og hljóðalaust innar í búðina til að sýna mér blauta korkinn. 


Ég átti bara ekki orð! Í þessum pakka er semsagt blautur korkur! Hann er eins og leir viðkomu og þú getur bara gert það sem þú vilt við hann... Bara ekki borða hann!


Ég meina, ég gat ekkert farið út úr þessari búð án blauta korksins! Og um leið og ég var búin að opna pakkann og byrjuð að handfjatla innihaldið þyrluðust hugmyndirnar upp í hausnum á mér og ég dauðsá eftir að hafa ekki keypt að minnsta kosti tvo pakka...

Ég reyndi að anda bara inn um nefið og út um munninn og ákvað að byrja bara á einhverju einföldu eins og glasamottum. Ég flatti því korkinn út með kökukefli og komst að því að það er frábært að vinna með þetta efni! Það springur lítið sem ekkert á köntunum, festist hvorki við eldhúsbekkinn né kökukeflið og svo var ekkert mál að hnoða þessu bara aftur í kúlu og byrja upp á nýtt ef til þess kom.

Ég á ógrynnin öll af piparkökuformum eftir leir-æðið sem reið yfir mig og fleiri fyrir jól. (Þið getið smellt HÉR og jafnvel HÉR ef þið vitið ekki um hvað ég er að tala) Svo það var úr mörgu að velja. Þetta var samt eiginlega nokkuð borðliggjandi... Ég elska Moomin álfana, hef aldrei lesið eina einustu bók og fannst teiknimyndirnar hundleiðinlegar en það er eitthvað við þessar teikningar sem heillar. Moomin glasamottur skyldi það vera:


Ég flatti því korkinn bara út með kökukefli og stakk út fjóra Moomin snáða:


Ég lét mína bara þorna á eldhúsbekknum í sólarhring. En það má víst baka þetta á lágum hita í ofni þar til þetta er þurrt sé maður að flýta sér. 


Æi mér finnst þeir sætir...


Og þetta finnst mér fínt... ;)


Ég átti líka minni form sem mig langaði að prufa:


 og ég ætla að fjárfesta í seglum aftan á þá og skella þeim á ísskápinn!


Ég gerði svo aðra útgáfu af glasamottum sem mér fannst líka svolítið sætar.




 Mér fannst þær hins vegar eitthvað svo litlausar bara svona:


Ég átti smá filt og datt í hug að líma það undir, ég valdi gula litinn...


skellti lími á korkinn og lagði hann bara á filtbútinn...


og svo leyfði ég þessu að þorna undir stórum og þungum bókum til að þetta færi nú ekki að verpast eða krumpast:


Og þá er komið að gestaþraut vikunnar! Finnið eina villu:


Jebb, jebb... Svona gerist þegar maður er með allt á yfirsnúningi í kollinum :D
En við kippum okkur ekki upp við svonalagað og gerum bara nýja...
...seinna!


Það styttist óðum í opnun nýju síðunnar og ég er að springa úr spenningi að sýna ykkur! Ég er ennþá að safna lækum á facebook svo þið megið endilega skella einu slíku á mig HÉR nú eða deila mér með vinum ykkar ef þið eruð í stuði ;)
Þangað til næst...
E.






2 ummæli:

  1. Vá hvað er margt til í veröldinni og vá hvað þetta er flott hjá þér, Kv. Anna

    SvaraEyða