þriðjudagur, 19. nóvember 2013

Fyrsti pósturinn

Frá því ég man eftir mér hef ég verið að láta mig dreyma um eitthvað. Einu sinni dreymdi mig um að verða læknir, svo ljósmóðir, því næst að reka minn eigin leikskóla, að verða fatahönnuður, að skrifa bók, að Macaulay Culkin kæmi til Íslands að leita að mér (guði sé lof að sá draumur rættist ekki) og síðast en ekki síst dreymdi mig um að verða leikkona. Sá draumur blundar reyndar alltaf í mér og kannski rætist hann einhvern tímann, hver veit? Ég endaði af einhverjum ástæðum í hjúkrunarfræði, hvernig sem á því stendur nú. Kannski af því að þegar ég var lítil og viðraði framtíðardrauma mína við pabba þá sagði hann alltaf, "Elva mín, þú ræður hvort þú verður læknir eða lögfræðingur og svo máttu fara í leiklistarskólann". Ég hlýddi honum næstum því.

Ég er enn að hugsa hvað ég eigi að verða þegar ég verð stór. Einu sinni þegar ég bjó í Svíþjóð, og var alveg týnd, fór ég í áhugasviðsspróf hjá íslenskri konu sem vann á bókasafninu í Lundi. Hún lagði fyrir mig svona uþb. 400 spurningar sem ég svaraði samviskusamlega. Í stuttu máli varð niðurstaðan sú að mér hentaði líklega best að verða trúbador. Trúbador! Vissuð þið að það væri viðurkennt starfsheiti? Ekki ég. Ég var reyndar búin að gleyma þessu þegar góður vinur minn í Lundi lánaði mér gítar og kenndi mér nokkur grip. Í dag á ég minn eigin, er þokkalega partýhæf, þökk sé vininum og youtube og gæti örugglega skrapað saman einhverjum krónum í hatt á Hlemmi. En það er samt ekki alveg það sem mig langar mest.

Ég man líka eftir ótal tilraunum mínum í gegnum tíðina til að skapa eitthvað. Ein fyrsta minningin er þegar ég leiraði heila borg á stofugólfinu heima hjá vini mínum. Ég var svona 6 ára. Allt varð að vera mjög skipulagt. Allar götur jafn breiðar, jafn langt á milli húsanna, þökin áttu að vera slétt og stromparnir hornréttir. Vinurinn var ekki alveg jafn metnaðarfullur. Ég man líka eftir að hafa setið svo dögum skiptir með rúðustrikuð blöð og reglustiku að vopni að teikna upp leikskólann sem ég ætlaði að byggja og reka. Einu sinni bjó ég líka til tveggja hæða hús með risi úr pappakössum fyrir strumpana mína. Þetta var reyndar samvinnuverkefni mitt og vinkonu minnar (þú veist hver þú ert). Við gerðum sitthvort húsið. Máluðum þakið og veggina, saumuðum gardínur, prjónuðum mottur, fengum teppa- og flísaafganga og lögðum á gólfin og leiruðum húsgögn úr jarðleir sem var svo brenndur fyrir okkur. Því miður er þetta listaverk ekki til lengur, en í minningunni var það stórfenglegt!
Ég skrifaði líka einu sinni leikrit sem var sett upp á jólaskemmtun í skólanum fyrir einhver jólin: "Amma Frost fer á ball". Meistarastykki alveg hreint! Ég á handritið ennþá og las það núna síðast í sumar og bókstaflega grét úr hlátri. Þegar unglingsárin færðust svo yfir fór ég að semja ljóð. Sum alveg ágæt en flest lýstu þau á mjög dramatískan hátt hversu hrikalega erfitt það er að fá ást sína ekki endurgoldna. Tókum við ekki örugglega öll svoleiðis tímabil? Í sama kassa og ég geymi ljóðin á ég líka nokkra upphafskafla af skáldsögum af ýmsu tagi. Ég hef líka prjónað ótal peysur, sokka og húfur og látið mig dreyma um að geta selt það einhverjum. Saumað ógrynnin öll af velourbuxum á börnin mín og annarra og bútasaumsæðið reið líka einhverntíman yfir af miklum þunga. Ég gæti talið endalaust upp.

Í gær átti ég langt símtal við vinkonu mína í Sviss. Hún spurði mig hvað ég gerði þegar ég vildi vera góð við sjálfa mig. Ég þurfti að hugsa svolítið, en líklega eru mínar bestu stundir þegar ég er ein með sjálfri mér á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur með blaðastafla fyrir framan mig og ilmandi kaffibolla. Minn blaðastafli samanstendur af DIY (do it yourself) blöðum, innanhússhönnunarblöðum, sauma- og prjónablöðum. Ég hef þó oftar en einu sinni staðið mig að því að vera rokin á fætur áður en ég næ að klára kaffið mitt því þá hef ég fengið hugmynd, eða jafnvel 10, sem ég verð að framkvæma núna! Ein slík er þessi hér:

Að fá 10 hugmyndir í einu og ætla sér að framkvæma þær allar samtímis gefur ekki góða raun. Oft hefur engin þeirra komist í framkvæmd af því að ég veit ekki á hverju mig langar mest að byrja. Svo nú hef ég keypt mér litla bók sem ég ætla alltaf að hafa í veskinu mínu og skrifa niður hugmyndirnar jafn óðum og þær koma til mín. Ég ætla að framkvæma eina þeirra í hverri viku og deila því með ykkur hér, skref fyrir skref. Verkefnin verða misstór og af ýmsum toga, eina reglan er að hafa gaman af þeim. 

5 ummæli:

  1. Líst vel á þig ;) Verður gaman að fylgjast með þér hér.

    Eitthvað rámar mig nú í þetta leikrit sem þú skrifaðir.. minnir að ég hafi einmitt leikið þig ;) hehe.. sælla minninga :D

    Gangi þér vel með væntanleg verkefni!

    SvaraEyða
  2. Hlakka til að sjá þetta leikrit ;)

    SvaraEyða
  3. Hlakka svo til að kíkja á þig vikulega hérna, leikritið verðum við nú að setja upp einhverntíma...kannski þú hendir í mig handritinu og ég sé til þess að það verði sett upp og sýnt þegar þú verður fertug :)

    SvaraEyða
  4. Vá hvað ég er búin að bíða lengi eftir þessu bloggi. Nú verður stuð! Hlakka til að fylgjast með. Svo ertu líka svona agalega fínn penni!!!

    Nennirðu annars að taka leikritið með til Lundar? Get alveg hugsað mér að grenja úr hlátri yfir því.

    SvaraEyða
  5. langar svakalega að vita hvernig þú græjaðir þennan stól! á nefnilega nokkra svona gamla sem þarfnast yfirhalningar en ég hef ekki enn byrjað, því ég hef ekki hugmynd hvernig ég byrja!

    SvaraEyða