þriðjudagur, 26. nóvember 2013

Helgin er svo leng'að líða, hversu lengi má ég bíða? ...Fram á þriðjudagskvöld.

Einn af ókostunum við að fá margar hugmyndir í einu og rjúka af stað og kaupa allt sem þarf til að framkvæma þær er að maður sankar að sér allskyns dóti. Við fjölskyldan bjuggum í nokkur ár í Svíþjóð. Þar var ég vægast sagt dugleg að safna efnivið í allskyns listaverk sem aldrei litu dagsins ljós. Þegar við Gummi vorum svo að pakka búslóðinni til að flytja aftur heim kom hann að mér út í bílskúr eitt kvöldið, en þar var ég með sauma og fönduraðstöðu. Ég var að flokka góssið mitt í kassa eftir því hvers kyns það var þegar ég heyrði hann hrópa upp yfir sig (ókei, kanski ekki alveg hrópa): "Elva, þarna eru allir peningarnir okkar!" Já, þarna var allavegana hluti þeirra í formi garns, skrapps, efnis, tvinna, límmiða og svo mætti lengi telja. Þess vegna ákvað ég að fyrsta verkefnið yrði ég að gera úr einhverju sem ég ætti á lager. Og af garni á ég nóg...  
enégþurftireyndaraðkaupabókina. 

Í fyrra kom út alveg hrikalega krúttlega bók sem kennir manni að prjóna jólakúlur. Þá átti ég mér draum um að prjóna jólakúlur á allt jólatréð. það hefur sennilega verið hugmynd númer níu í desember 2012  því ég komst ekki einu sinni svo langt að kaupa bókina þá. Ég var stórhuga á byrjun blogg-ferilsins og hugsaði með mér að ég skyldi prjóna nokkrar þessa vikuna til að sýna ykkur hér og gera svo eina og eina fram að jólum og þá ætti ég heimaprjónaðar jólakúlur á allt jólatréð! Mamma kom svo í kaffi til mín í gær þar sem ég sat og prjónaði þriðju kúluna af miklum móð. Ég sagði henni frá áformum mínum og hún spurði mig þá hversu lengi ég væri að prjóna eina svona kúlu. "Svona 4 tíma með frágangi og öllu" svaraði ég. Þá vildi hún vita hvað ég ætlaði að prjóna margar. "Svona 20". Hún var ekki lengi að reikna það út að það tæki mig þá fullar tvær vinnuvikur að prjóna á allt tréð, að því gefnu að ég tæki mér ekki mat og kaffi. Það verða þá kanski bara prjónaðar kúlur á trénu á næstu jólum.




2 ummæli:

  1. Vá en flott...endilega nýttu það sem þú átt....en hvað á að gera við alla límmiðana sem þú átt ????...þú veist að þeir eyðileggjast með árunum :) Sakni sakn

    SvaraEyða
  2. Þær eru ótrúlega flottar. Var einmitt að spá í hvað þú værir eiginlega að gera litla húfu þegar ég kíkti á þig um daginn. Náði svo aldrei að spyrja þig út í þetta. Ég sé núna að þetta var ekki húfa... :-) Love.

    SvaraEyða