þriðjudagur, 13. maí 2014

Gullmoli fyrir lítið!

Í gær var ein af mínum uppáhalds frænkum í sumarfríi... Sú hefur mikið skemmtanagildi og dagur með henni getur bara ekki klikkað! Hún hefur fylgst grannt með gangi mála hér í Framkvæmdahöllinni og allt í einu kviknaði hjá henni áhugi fyrir því að kíkja í Góða hirðinn. Hún bað mig um að koma með sér sem ég gerði að sjálfsögðu. Við mældum okkur mót á bílastæðinu klukkan tólf. Ég var aðeins of sein svo ég hringdi í hana til að segja henni að ég væri alveg að koma. "Elva, er þetta grín? Ég hélt bara að Duran Duran væru með tónleika hérna þegar ég renndi upp að húsinu og sá röðina! Það voru svona 60 manns í röð hérna fyrir utan þegar ég kom!" Henni var mikið niðri fyrir. "Ég var alveg viss um að ef það væru ekki tónleikar í uppsiglingu að þá hlyti þeim að hafa áskotnast risa teak-búslóð sem allir væru búinir að frétta af nema ég!" Hún þorði því ekki annað en að smella sér í röðina þó að ég væri ekki komin til að halda í hendina á henni. "Það er bara brjálað að gera" sagði hún við þann sem stóð við hliðana á henni í röðinni, sem hlýtur að hafa verið fastagestur því honum fannst hún hvorki fyndin né tók undir athugasemdina. Henni varð ljóst að hér var grafalvarlegt mál á ferðinni :D. Frænkan setti sig því í hlaupastellingarnar, tók kortið upp úr veskinu, setti það í rassvasann og var tilbúin í slaginn. Hurðin opnaðist og fólkið þusti inn. Þegar ég labbaði inn stóð hún eins og steinrunnin innan um gulu og brúnu illa lyktandi sófasettin sem taka á móti manni við innganginn. Vonbrigðin leyndu sér ekki og upp hófst skemmtilegasta ferð í Góða sem ég hef nokkurntíman farið!

Stundum er ekkert að finna í Góða hirðinum en stundum dettur maður niður á gullmola. Frænkan hefði þurft að vera með mér í síðustu viku þegar ég fann þennan.

Hann var ekki frýnilegur að sjá þarna innan um allt hitt, en þá verður maður að sjá möguleikana. Fyrir 1500 krónur var hann minn. Ég vissi strax hvað ég ætlaði að gera við hann. Brunaði niður í Slippfélag í Borgartúni og hitti þar Ævar sem er að verða góður vinur minn. Ég keypti af honum þrjá spreybrúsa og þetta undur hér: 


Þetta eru einskonar svampar sem þjóna sama tilgangi og sandpappír. Þeir eru til í tveim grófleikum og eru algjör snilld þegar maður er að pússa eitthvað þar sem maður vill komast inn í litlar raufar eða eitthvað sem er útskorið td. Ég pússaði vel yfir skápinn, fyrst með þessum grófari og svo þessum fínni og þreif hann svo með blautri tusku. Ég tók skúffurnar úr, skrúfaði höldurnar af og pússaði létt yfir þær þar sem þær voru mjög heillegar. Svo bar ég teak-olíu á allt nema skúffufrontana með fínustu gerð af stálull. Það er ótrúlegt hvað teak-olía gerir. Það var fullt af rispum á skápnum sem voru alveg hvítar en þær hurfu eins dögg fyrir sólu þegar ég var búin að bera á hann. Skúffufrontana spreyjaði ég svo með þrem mismunandi tónum af turkísbláum. Það þekur alveg stjarnfræðilega vel þetta sprey sem ég er farin að kaupa og það þurfti ekki nema eina umferð á frontana. Svo er brúsinn 5-700 krónum ódýrari en mörg önnur og verri svo þetta er bara win-win!

Mig hefur alltaf langað að gera svona, spreyja
skúffur í mismunandi tónum af sama lit.

Annað sem ég þurfti að gera var að verða mér út um lykil af skápnum. Hann var læstur þegar ég keypti hann og enginn lykill! En á öllum vandamálum eru lausnir. Þeir í Brynju á Laugavegi eiga riiiiiisa lyklakippu með gömlum lyklum sem þeir leigja út. Svo ferð þú bara heim og finnur þann rétta, merkir hann og kaupir af þeim eitt stykki. Ég fékk alveg kitl í magann af spenningi þegar ég heyrði af þessu ;) Í leiðinni keypti ég svo hjá þeim lítið skráargat sem ég negldi á skápinn.

Lykillinn góði og skráargatið.

Ég er ekki að ýkja, en svona verkefni tekur ekki nema 2-3 klukkutíma.
Þetta geta allir!

Litlu flöskurnar og álbakkann sem blómin eru í fékk ég í Fakó á Laugaveginum. Þar eru meðal annars seldar vörur frá Housedoctor. Ég límdi svo skrautteip á flöskurnar og bakkann, en teipið er líka frá Housedoctor. Blómin eru frá Sia, sem mér skilst að við Íslendingar fáum ekki að njóta mikið lengur því miður. Sérstaklega fyrir okkur sem getum ekki með nokkru móti haldið lífi í alvöru blómum...



Mig klæjar í puttana að halda áfram að brasast...
Sé ykkur í næstu viku!

8 ummæli:

  1. Vá þetta er nýja uppáhalds síðan mín :) frétti af henni í kvöld og eftir kvöldvaktina ákvað ég að kíkja, hlakka til að lesa meira og copy-pasta hugmyndir frá þér :)
    kveðja,
    Halla

    SvaraEyða
  2. Vá - En frábær síða hjá þér :) Það virðist allt svona nokkuð einfalt og ég mikla allt svona DIY svo mikið fyrir mér :/ En nú sé ég fyrir mér að hlutirnir sem bíða mín hér heima verði verkefni næstu vikna ;)

    SvaraEyða
    Svör
    1. Ekkert af þessu er flókið... það sem mér finnst mikilvægast í þessu er að vera svolítið þolinmóður :) Þe leyfa td. spreyinu eða lakkinu að þorna vel milli umferða, það er ekki alveg mín sterka hlið :) Gangi þér vel! Þetta er hrikalega gaman.

      Eyða
  3. þetta er alveg geggjað.
    Má ég forvitnast hvar þú keyptir spreyjið ?

    SvaraEyða
    Svör
    1. Spreyið er keypt í Litalandi í Borgartúni... ;)

      Eyða
  4. virkilega flott síða hjá þér :) Kveðja Ragnhildur

    SvaraEyða
  5. Smekklegt par excellance! Kveđja frá Lundi, Addý

    SvaraEyða