þriðjudagur, 10. desember 2013

Máli, máli, máli...

Um daginn var amma í heimsókn hjá mér, hún fór að tala um gamla eldhúsborðið sitt og stólana. Sagðist hafa keypt það í Epal á sínum tíma, að þetta hefði verið Alvar Aalto borð, 4 stólar og tveir kollar. Hönnunargræðgin í mér náði áður óþekktum hæðum og ég bað hana að leita að kollunum fyrir mig. Ég sá alveg fyrir mér hvað þeir yrðu ótrúlega fín viðbót við eldhúsborðið, nýlakkaðir í einhverjum flottum litum. Maður getur jú alltaf á sig stólum bætt, sérstaklega ef það er hægt að stafla þeim. Það er skemmst frá því að segja að þeir fundust ekki. Nokkrum dögum síðar var ég á flandri um höfuðborgina og rak nefið inn í Góða hirðinn. Þar hafði verið útsala daginn áður (ég vissi svo sannarlega ekki að þar væri nokkurntíman útsala) og því ekkert þar að finna nema þessir tveir:


Þeir voru ósköp illa farnir greyin. Hvort sem þeir eru ekta eða ekki voru þeir mínir fyrir 1500 krónur stykkið og í kaupbæti: ómæld gleði í mínu litla hjarta. Ég hófst strax handa. Skellti mér í Flügger og fjárfesti í gulu og túrkísbláu akrýllakki með 90% gljáa. Grunninn, hvíta litinn og spreyið sem ég notaði átti ég til. Ég var svolítið löt (og spennt að sjá útkomuna) og fór því bara eina umferð með grunninum. Það dugðu tvær umferðir af spreyinu og þann fót grunnaði ég ekki. Ef þið eruð líka löt eða óþolinmóð mæli ég ekki með að mála með gulum. Hann þekur illa og ég þurfti að fara fjórar umferðir með honum til að verða sátt. Hver umferð þarf svo að þorna í 16 tíma og reikniði nú!


Áður en ég byrjaði að lakka kollana skrúfaði ég fæturna undir þá aftur. Ég fór að ráðum vinar míns að þessu sinni, vatnsblandaði lakkið og það svínvirkaði. Segi samt ekki að þetta hafi orðið spegilslétt eins og hann hafði lofað mér, en áferðin er allt önnur en á skúffunum sem ég lakkaði í síðustu viku. Mér áskotnuðust líka dásamlegir svínshárapenslar sem eru sérstaklega ætlaðir til að lakka með og það er ekki hægt að líkja því saman að lakka með þeim eða venjulegum penslum. Mér skilst að svona penslar kosti annan handlegginn, en ef vel er um þá hugsað eru þeir víst eilífðareign. Svo ef þið eruð mikið að mála húsgögn er þetta ekki spurning! Ég ákvað að hafa kollana ekki eins, en í sömu litum og mig langaði til að annar þeirra yrði svolítið eins og honum hefði verið dýft í lakkið. Ég límdi því málningarlímband í kringum fæturna á öðrum kollinum til að fá beinar línur.


 Ég er bara frekar sátt við útkomuna...



...svo passa þeir líka svo vel við sokkana mína!

2 ummæli:

  1. Vá hvað ég er heppin að þekkja þig og eiga þig sem mína allra bestu vinkonu. Svo ánægð hvað þú ert ógissleg klár :) ógó flott hjá þér eins og allt sem þú tekur þér fyrir hendur :)

    SvaraEyða
  2. Ég er líka heppin að eiga þig... Knús til þín í Langtíburtistan!

    SvaraEyða