þriðjudagur, 3. desember 2013

Gömul kommóða úr Góða endurlífguð.

Bjartir og skærir litir hafa alltaf fangað auga mitt. Stundum hef ég hreinlega lent í vandræðum með þetta. Bara lúxus vandræðum samt. Eins og til dæmis þegar ég eignaðist Kitchen Aid hrærivélina mína, það var hrikalegt að þurfa að velja bara einn lit! Hvítt kom aldrei til greina. Þetta var sérstaklega erfitt af því að ég vissi að svo seinna, þegar ég myndi eignast blenderinn og ristavélina í sömu línu, yrði það að vera í sama lit. Þannig að ég var í rauninni ekki bara að velja lit á hrærivélina. Það getur verið gott að vera framsýnn, en það getur líka bara valdið manni hugarangri... :)

Stundum verð ég samt sem áður þreytt á minni eigin litagleði og vil helst hafa allt hvítt eins og á sænsku sveitaheimili. Það líður hins vegar aldrei á löngu áður en ég er búin að mála einn vegg í lit hér og þar, bæta við púðum í stíl og setja marglit kerti í stjakana. Við erum nýflutt og ég er svolítið búin að vera á einu af þessum hvítu skeiðum. Hvítir veggir, hvítar gardínur og ég rétt náði svo að stoppa sjálfa mig af áður en ég fór með eldhúsborðið okkar, sem er teak, á bílasprautunarverkstæði og lét sprauta það með hvítu bílalakki. Um daginn tók ég svo þessa gömlu kommóðu aðeins í gegn og lakkaði framhliðarnar á skúffunum hvítar.




Hún var voða falleg svona hvít, en huuuundleiðinleg! 
Eins og áður hefur komið fram þá er þolinmæði ekki mín sterka hlið og ef ég fæ hugmynd þá þarf ég að framkvæma hana strax. Ég fékk semsagt þá hugmynd að mála höldurnar á kommóðunni í einhverjum lit. Hvíta skeiðið blundaði samt ennþá örlítið í mér svo þetta mátti ekki verða of tjúllað og ég varð jú að drífa í þessu. Ég lumaði á svartri og gulri krítarmálningu, gaf mér ekki einu sinni tíma til fara út í búð og kaupa almennilegan pensil í réttri stærð og gluðaði því krítarmálningunni á með vatnslitapensli sem ég fann hjá syni mínum.  Ég er hæstánægð með útkomuna og kommóðan töluvert hressari að sjá:




Fyrir ykkur sem langar að reyna fyrir ykkur í húsgagnamálun þá eru hér nokkur góð ráð. Það er ekki nauðsynlegt að pússa húsgagnið áður en það er málað (nema það sé þeim mun verr farið), en að þrífa öll óhreinindi og fitu af því er hins vegar grundvallaratriði sem og góður grunnur. Ég fór í Flügger í Skeifunni og keypti hvítan viðargrunn og málaði með honum tvær umferðir. Það er aðeins grófari áferð á grunninum en lakkinu svo ég pússaði létt yfir skúffurnar með fínum sandpappír eftir að ég hafði grunnað þær. Svo lakkaði ég yfir með arkítektahvítu akrýllakki og hafði á því 90% gljáa. Þegar maður málar með svona miklum gljáa er gott að hafa mikið í penslinum og leyfa lakkinu að renna út, þannig minnkar maður penslaförin. Ég lærði líka nýtt ráð í dag af góðum vini mínum sem er meistari í faginu; að blanda örlitlu af vatni út í lakkið til að þynna það. Þá flýtur það betur og minnkar enn frekar penslaförin. Hans orð voru reyndar; "þá verður þetta alveg svona spegilslétt". Ég ætla að prófa það næst. Krítarmálning er frábært efni. Auðvelt í notkun, þekur vel og þornar á augabragði. Það gefur kommóðunni líka bara svolítið skemmtilegan blæ að hafa höldurnar alveg mattar til móts við gljáann á skúffunum.  Litla "skráargatið" sem ég setti efstu skúffuna fékk ég í Brynju á Laugaveginum og það er bara nelgt á með tveimur litlum stálnöglum. Mér fannst það eiginlega pínu setja punktinn yfir i-ið...


Engin ummæli:

Skrifa ummæli