þriðjudagur, 17. desember 2013

Ljós í myrkri.

Í lok október fluttum við í sjötta skiptið síðan við urðum fjölskylda. Gummi alveg elskar að flytja. En bara af því að hann kemur sér alltaf snilldarlega undan mesta brasinu undir því yfirskini að einhver þurfi að vinna fyrir herlegheitunum :). Við vorum að stækka aðeins við okkur og það kallaði jú á innkaup á allskyns hlutum eins og td. ljósum. Fleiri herbergi og fleiri gangar þýða fleiri ljós. Ljós eru hins vegar ekki ókeypis. Ég hafði séð í einu af Bolig Liv blöðunum mínum alveg dásamlega falleg koparlituð perustæði sem í voru stórar hvítar perur. "Svona verð ég að eignast" hugsaði ég með mér og fór á stúfana. Af því að Gummi var staddur í Svíþjóð hóf ég leitina í sænskum netverslunum. Ég fann perustæði sem svipaði til þeirra sem ég hafði séð í blaðinu í Åhléns og sendi Gumma út af örkinni. Mér til mikillar mæðu voru þau uppseld í svíaríki eins og það leggur sig! Svo leitin hófst á nýjan leik. Á endanum fann ég það sem ég var að leita að í YLVA. Fyrir tæpar 10.000 krónur gat ég eignast eitt stykki koparlitað perustæði. Mig vantaði sex, og þá átti eftir að kaupa perurnar sem kosta 2500 krónur stykkið. Þetta fannst mér út fyrir öll mörk velsæmis og lagði því höfuðið í bleyti. Venjulegt hvítt perustæði í byggingavöruverslun kostar jú bara klink og spreybrúsinn er orðinn góður vinur minn. Svo ég ákvað að prufa bara að spreyja hvít perustæði með koparlituðu spreyi. Ég varð alls ekki fyrir vonbrigðum með útkomuna:


Einn helsti kosturinn við að gera þetta svona, fyrir utan hvað þetta er miklu ódýrara, er að maður getur valið sjálfur hvernig snúru maður hefur í ljósinu. Verslunin Glóey í Ármúla er með ótrúlegt úrval af rafmagnssnúrum í öllum litum og þeir veita frábæra þjónustu! Ég valdi að hafa svarta og hvíta snúru í mínum ljósum. Perurnar sem ég keypti í stæðin eru í raun ljósakúpplar með halógen perum inn í.


Þegar við fengum húsið afhent héngu gyllt ljós í eldhúsloftinu sem sennilega hafa verið þar síðan húsið var byggt. Ég var ekkert sérstaklega hrifin af ljósunum í fyrstu en þegar ég tók þau niður sá ég að þessi ljós mátti nýta sem veggljós. Upp með spreybrúsann og voila!


Núna njóta þau sín einstaklega vel í "húsbóndahorninu" í nýja húsinu.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli