þriðjudagur, 14. janúar 2014

Og áfram held ég...

Ég er rosa hrifin af IKEA. Sérstaklega þegar kemur að því að innrétta barna- og unglingaherbergi. Búðin er uppfull af sniðugum lausnum svo ekki sé nú minnst á alla kassana sem smellpassa í hillurnar frá þeim sem þýðir að hægt er að skipuleggja leikföngin í öreindir og fela allt "rusl". Það hentar mér vel :). En öllu má nú ofgera og herbergið hjá Litla var að verða eins og sýningarbás í IKEA. Það hentaði mér ekki vel.

Ég var búin að eiga lítið teak skrifborð sem ég keypti í Góða hirðinum á litlar 5.000 krónur í tæpt ár og ætlaði mér alltaf að flikka upp á. Það smellpassaði þar sem gamla borðið var og því ekki eftir neinu að bíða...


Ég ætlaði mér í upphafi að lakka borðið gult, en minningin um gula stólfótinn sem þurfti fjórar umferðir á var of fersk í minninu, svo hvítt varð það heillin. Ég átti enn grunn og hvítt lakk svo það var ekki eftir neinu að bíða. Ég byrjaði á að bera teak-olíu á borðplötuna og framhliðarnar á skúffunum, því það ætlaði ég ekki að lakka. Mér finnst best að nota svona svampa sem eru með fínni stálull öðru megin þegar ég ber á teak húsgögn og nota þá hliðina með stálullinni. Þá nær maður að "pússa" létt yfir í leiðinni og húsgagnið verður eins og nýtt!


Ég límdi málningarlímband meðfram brúninni á borðplötunni til að fá góðan kant, grunnaði tvær umferðir og þá dugðu tvær umferðir af lakkinu.


Botninn í skúffunum var orðinn ljótur svo ég ákvað að í staðinn fyrir að mála yfir það gæti verið gaman að hafa einhverjar myndir. Ég á ógrynnin öll af skrapp-pappír og fann þessar arkir sem mér fannst tilvalið að nota. 


Ég leyfði Litla að velja sér þær myndir sem hann vildi hafa. Ég klippti þær svo til og límdi í botninn á skúffunum með möttu límlakki eins þessu á myndinni hér fyrir ofan. Svo fór ég tvær umferðir yfir myndirnar til að fá endingarbetri áferð á pappírinn. Þegar pappírinn blotnar í líminu krumpast hann svolítið en þau undur og stórmerki eiga sér stað þegar límið þornar að það sléttist að mestu úr honum. Ef maður vill alls ekki eina einustu krumpu væri hægt að nota límfilmu eins og ég notaði til að líma servíetturnar á krukkurnar til að líma pappírinn í botninn og lakka svo yfir með límlakkinu. 


Eins og áður sagði smellpassaði borðið þar sem gamla borðið var...


Ég er rosalega ánægð með útkomuna og borðið veitir herberginu ákveðinn hlýleika þar sem allt annað er hvítt og grænt. 



Nú er bara að vinda sér í að "smíða" hillurnar sem eiga að hanga fyrir ofan borðið... :)

2 ummæli:

  1. Vá hvað þetta er ógó flott...eins og ég hef svo oft sagt, þú ert snillingurinn minn...og þú ert alveg að verða fræg :) Ekki gleyma mér þá :) heheehe

    SvaraEyða
  2. Mér finnst þú frumleg og frjó. Við getum kannski lært af hvort öðru!

    SvaraEyða