þriðjudagur, 7. janúar 2014

Eitthvað sem ALLIR geta dundað við...

Ég er ósköp fegin að jólin eru búin. Ég er meira svona aðventu-týpa. Elska að baka og skreyta. Nýt þess að upplifa spennuna sem fylgir desembermánuði í gegnum börnin mín. Finnst dásamlegt að kaupa gjafir handa þeim sem mér þykir vænt um, svona þangað til síðustu dagana fyrir jól þegar útgjöldin eru orðin þannig að maður getur ekki einu sinni hugsað sér að kaupa eina Malt í gleri til viðbótar... Svo koma jólin, hviss-bang-búmm og allt í einu situr maður í hrúgu af sundurtættum jólapappír og Machintosh bréfum. Ég veit að fleiri en ég kannast við þessar tilfinningar í tengslum við jólin, ég held að við ættum að fara að staldra aðeins við og endurskoða þetta...
Í kjölfar þessara hugsana minna hef ég nokkur ár í röð sagt við Gumma í janúar; "Á næsta ári fá allir heimatilbúnar jólagjafir frá okkur". Ég hef aldrei staðið við þetta þó að stöku skrappbók handa ömmum og öfum hafi læðst með í pakkann í gegnum tíðina. Ég er alltaf búin að jafna mig þegar desember rennur upp á nýjan leik :).

Ég á þrjár vinkonur sem ég kynntist öllum þegar ég bjó í Svíþjóð. Fyrir einhver jólin kom upp sú hugmynd að við myndum gefa hvor annari jólagjafir en þær yrðu að vera heimatilbúnar. Þetta eru skemmtilegustu pakkarnir sem ég fæ! Ég hef fengið málaðan bolla, peningabuddu úr fiskiroði, snyrtiveski, "portrait" mynd af fjölskyldunni á striga, heimagerða sultu, eyrnalokka og trefil svo eitthvað sé nefnt. Í ár var ég svolítið seint á ferðinni með þetta. Þetta eru jú þrjár gjafir sem þarf að föndra og það getur tekið tíma. Ég átti hins vegar erindi í föndurbúðina í Holtagörðum fyrir jól og sá þá að þar var búið að stilla upp krukkum sem búið var að líma servíettur utan á. Ég hef alltaf verið með smá fordóma fyrir krukku- og kertaföndri, fundist það hálf halló, en þessar krukkur höfðuðu einhverra hluta vegna til mín og ég ákvað að prófa. Stuttu seinna var ég svo eitthvað að vafra á netinu og sá þá hugmynd að svona minningakrukku. Þá setur fjölskyldan kvittanir eða miða fyrir leikhúsferðum, bíóferðum, veitingahúsaferðum og bara öllu því skemmtilega sem hún gerir saman yfir árið í krukku og svo á nýjársdag ári síðar er hægt að rifja upp allt það skemmtilega sem fjölskyldan hefur gert á nýliðnu ári. Þetta fannst mér bæði falleg og sniðug hugmynd. Ég læddi því litlum miðum í krukkurnar með leiðbeiningum um notagildi hennar og úr varð að tólf minningakrukkur fengu að fljóta með í jólapakkana frá mér í ár.

Þetta er ótrúlega einfalt, skemmtilegt og fljótlegt föndur. Servíetturnar smellpassa utan á krukkurnar eins og þessar á mynd númer eitt, en þær fást í IKEA. Það er nauðsynlegt að grunna krukkurnar með sérstakri glermálningu til að myndin á servíettunum sjáist þegar búið er að líma þær á krukkurnar. Ég notaði málningu eins og þessa á mynd númer þrjú og ein svona túpa dugði á allar krukkurnar tvær umferðir. Svo spreyjaði ég lokin og litlu snjókornin með koparlitu spreyi.


Til að líma servíetturnar á krukkurnar notaði ég sérstakar límarkir sem eru í raun örþunn límfilma þegar búið er að fjarlægja pappírinn af þeim beggja vegna. Þannig býr maður til einskonar límmiða úr servíettunni sem er einfaldlega límdur á krukkuna. Með því að nota Þessa filmu í stað límlakks verður servíettan slétt á krukkunni en ef maður notar límlakk blotnar hún og krumpast. Flestar servíettur eru í þrem lögum og maður notar eingöngu efsta lagið.


Ég notaði hins vegar matt límlakk eins og sést á mynd númer fjögur hér fyrir neðan til að fá skemmtilegri áferð á krukkurnar í lokin. Lakkið er hvítt þegar það er blautt eins og sést á mynd númer tvö en verður glært þegar það þornar.


Ég valdi þessa servíettu á krukkurnar handa "sænsku" vinkonunum, fannst hún eitthvað svo viðeigandi:


Ég valdi hinsvegar múmín-servíettu á restina:


Útkoman kom mér skemmtilega á óvart og fordómum mínum fyrir krukkuföndri hefur verið eytt :).

4 ummæli:

  1. Frábært föndur og kærar þakkir fyrir mig! Krukkan er dásamlega falleg og hugsunin frábær.

    SvaraEyða
  2. Oh hvað þetta er flott...ætla að taka mína dós í gegn og gera hana fína :) Snillingur sem þú ert :)

    SvaraEyða
  3. sama hér...janúar er samt svo dimmur og óþægilegur mánuður :-/

    SvaraEyða