þriðjudagur, 28. janúar 2014

Svo einfalt og svo fljótlegt!

Ég tók mér frí í síðustu viku. Ekki láta ykkur detta í hug að ég hafi setið auðum höndum þrátt fyrir það! Nei, síður en svo. Það var kominn tími til að ganga í tölvu-/gestaherbergið sem hefur fengið að sitja á hakanum. Þangað hefur öllu sem við vitum ekki hvað er eða hvar á vera verið hent inn frá því við fluttum og hurðinni lokað kirfilega á eftir. Staðan var orðin þannig að ég komst ekki lengur fyrir við tölvuna til að blogga svo ég hafði ekkert val. Svona til að þið áttið ykkur betur á stöðunni læt ég þessa mynd fylgja:



Þetta var samvinnuverkefni okkar hjónaleysanna svona til að byrja með, en svo "púllaði" Gummi gamalt "stönt" og skellti sér til svíaríkis að vinna fyrir hillunum sem voru keyptar inn í herbergið :). Það kom þó ekki að sök því Hamingjusami hjálparinn er alltaf boðinn og búinn og mætti því á svæðið og var mér til halds og trausts í því sem eftir var.
Þegar ég var búin að fara tvær ferðir á Sorpu og henda nánast öllu sem var í herberginu fyrir utan bókunum, skrifborðinu og tölvunni, var það heldur hvítt og tómlegt að sjá. Mig langaði að hengja eitthvað á vegginn fyrir ofan skrifborðið, eitthvað annað en bara myndir í römmum. Korktafla skyldi það vera, og þá skaut upp í kollinum á mér gamalli hugmynd sem ég hafði séð í einhverju blaði. Það eina sem mig vantaði voru hringlaga korkplattar og þá fann ég þrjá saman í pakka í IKEA á 495 krónur. Ég keypti tvær pakkningar og fann til málningu, pensil, double-tape og skæri. Það er allt sem þarf! Ég málaði þrjá af plöttunum með gulri málningu en eftir fyrstu umferðina varð mér ljóst að korkurinn drekkur í sig töluvert af málningunni svo ég fór tvær umferðir á þá.


Þegar málningin var þornuð raðaði ég þeim saman eins og ég vildi hafa mína korktöflu og snéri þeim svo á hvolf og límdi saman með límbandinu. Ég setti kassana svona upp við plattana til að fá ekki skekkju á töfluna.


Með því að nota double-tape slær maður tvær flugur í einu höggi og getur hengt töfluna bara beint á vegginn. 


Sjáiði bara hvað þetta er fínt! Þetta er svo einfalt og svo fljótlegt...


Krítartöfluna sem hangir á veggnum líka, bjó ég til í fyrra. Ég keypti ramma í IKEA, hvar annarsstaðar, tók glerið úr honum, snéri bakinu við til að fá sléttari flöt og málaði það með svartri krítarmálningu. Gummi færði mér svo dýrindis krítar-túss í öllum regnbogans litum að gjöf einhverntíman. Þeir eru frábærir því bæði hrynur ekkert úr þeim eins og venjulegum krítum og svo mást þeir ekki af ef eitthvað nuddast eða rekst í töfluna.



2 ummæli:

  1. Ég er ekki viss hvar þú færð hann hér á Íslandi, þessir vorukeyptir í Svíþjóð. Ég mundi skjóta á bókabúið eða föndurbúð. Það er til dæmis mikið úrval af öllu mögulegu í Föndru á Dalvegi og líka í föndurbúðinni í Holtagörðum.

    SvaraEyða