þriðjudagur, 17. júní 2014

Neon-æðið skollið á í Framkvæmdahöllinni...

Það er kominn 17. júní! Hvert flýgur tíminn eiginlega? Þegar ég horfi á dagatalið líður mér pínu eins og sumarið sé bara búið... En það er þannig að tíminn flýgur þegar það er gaman. Svo ég kvarta ekki!

Við fjölskyldan ætlum að prófa að eyða þessum þjóðhátíðardegi í Kópavogsbæ, athuga hvort þar ráði maður hvort maður fari til hægri eða vinstri og hvort hugsanlega maður sleppi við að koma heim með candy-flossklístur á buxnaskálmunum :) Ég er ekki mikið fyrir múg og margmenni... ;)

En að verkefni vikunnar. Ég er búin að sitja sveitt við hárbandagerð þessa vikuna. Ég ætla nefnilega að skella mér á handverkshátíðina í Eyjafjarðasveit í ágúst svo ég þarf að vera dugleg að sauma í sumar ;) Á myndinni hér til hægri eru tvær útgáfur af hárböndunum sem ég gerði til að gefa tveim litlum 8 ára vinkonum mínum í afmælisgjöf. Hárböndin verða svo fáanleg í ýmsum litum og stærðum og engin tvö verða eins, blómin og slaufurnar eru með smellum svo hægt er að skipta um skraut á bandinu!

Milli þess sem ég saumaði hárbönd, blóm og slaufur sat ég og heklaði þennan púða. Mig hefur lengi langað að gera svona hringlaga púða í akkúrat þennan stól. Í púðann notaði ég Álafosslopa af því að hann er grófur og til í neonlitum. Ég er alveg kolfallinn fyrir þeim...

Ég hafði lopann tvöfaldan og notaði nál nr 8. Heklaði svo framhliðina tveimur umferðum stærri en bakhliðina til að samkeytin yrðu aðeins inn á bakhliðina á púðanum, mér finnst það bara fallegra svoleiðis.

Ég ætlaði nú bara að kaupa fyllingu í púðann en fann enga kringlótta. Og þegar ég fór að leita að ódýrum púða sem ég gæti þá bara sett inn í minn komst ég að því að það er illfáanlegt. Ég keypti þess vegna bara hvítt léreft og tróð og saumaði fyllinguna.

Svo var bara að lykkja herlegheitin
saman og setja fyllinguna inn í...


Tada!

Innblásin af blómunum sem ég var að gera á hárböndin langaði mig að sjá hvernig þau kæmu út sem veggskraut. Ég fór því og keypti striga og lét strengja hann á röngunni á rammann og þetta er útkoman:




Heildarútkoman bara nokkuð góð og tvímælalaust framför frá því sem áður var... :)




Þetta dásamlega borð fékk ég Góða fyrir slikk og eftir þrif
og tekkólíuáburð lifnaði heldur betur yfir því!


Borðið eins og nýtt!


Gleðilegan þjóhátíðardag kæru vinir!





10 ummæli:

  1. ertu með uppskriftina fyrir púðann? Hvaða/ hversu mikið garn og hvernig maður þarf að auka út?
    Takk kærlega

    SvaraEyða
    Svör
    1. Nei því miður er engin uppskrift af púðanum. Ég fór eftir uppskrift af hekluðum hring í Stóru handavinnubókinni og hélt svo bara áfram að hekla þar til mér fannst púðinn passlega stór. Það er pottþétt hægt að finna leiðbeiningar hvernig á að hekla í hring á you-tube! Ég notaði tvöfaldann Álafosslopa í þennan og notaði heklunál nr 8. Það fór slatti af þessum grábrúna, sennilega svona 4 dokkur, en það er nóg að kaupa eina og eina af hinum litunum.
      Gangi þér vel!
      Kv. Elva

      Eyða
    2. Hahaha... Maðurinn minn var skráður inn á G-mailinn í tölvunni og þess vegna birtist svarið undir hans nafni :)

      Eyða
  2. Hæ! En hvað tekkborðið er fínt hjá þér! Ég er sjálf með nokkra muni úr tekk sem þarf að taka í smá yfirhalningu (ekkert mikið, líklega svipað og þú gerðir). Gætir þú sagt mér hvaða meðferð þú bauðst borðinu upp á? :)

    SvaraEyða
    Svör
    1. Hæ hæ...
      Þegar ég vil lífga upp á teak dótið mitt þá þurka ég bara af því með rökum klút og ber svo teak-olíu á það með stálullarhliðinni á marglitu svömpunum sem maður notar oft við þrif. Þannig nær maður að pússa létt yfir húsgagnið í leiðinni og nær oft svona litlum blettum í burtu. Ég hef aldrei reynt að fara með sandpappír á húsgögnin mín.
      Kv. Elva

      Eyða
  3. Skemmtileg síða! Takk fyrir að deila. Margt svo flott og sniðugt.

    SvaraEyða
    Svör
    1. Takk fyrir það... Það gleður mig að heyra :)

      Eyða
  4. Litla tekk borðið er guðdómlegt. Elska að fylgjast með brallinu þínu.
    Kv. Kristey

    SvaraEyða
  5. Frábær þessi púði! og ég var gjörsamlega friðlaus þangað til ég var búin að kenna sjálfri mér að hekla og gera minn eiginn! Takk fyrir hugmyndina :)

    Kv. Hildur Rut

    SvaraEyða
    Svör
    1. En ótrúlega skemmtilegt að heyra! Nú getur þú bara heklað eins og vindurinn! Púði í jólapakkann handa öllum sem þú þekkir... ;)

      Eyða