þriðjudagur, 1. júlí 2014

Ugla sat á kvisti...

Ég tók mér sjálfskipað sumarfrí í síðustu viku. Ákvað með stuttum fyrirvara að skella mér til minna fyrri heimkynna; svíaríkis. Þar hitti ég sólina og hitann, sem var góð tilbreyting frá því sem við þurfum að þola hér þessa dagana. Ég hugsa þetta samt þannig að rigning og rok eru frábær afsökun til að vera inni að dunda sér við hitt og þetta...

Ég er nefnilega hinn dæmigerði íslendingur að því leyti að þegar sólin skín finnst mér ég algjörlega tilneydd að vera utandyra! Þessi eiginleiki gat ollið miklu raski á heimilislífi fjölskyldunnar þegar við bjuggum í Svíþjóð þar sem sumrin eru löng, heit og sólrík. Það gat farið svo að ef það kom ekki rigningardagur inn á milli þá var ekki þrifið, þvotturinn ekki þveginn og húsmóðirinn átti í talsverðum erfiðleikum með að staðsetja sig fyrir framan eldavélina... Ég meina, maður er alinn upp við þetta frá blautu: "Vertu úti... Það er sól!"

En í miklu bjartsýniskasti keypti ég mér hlíraboli og mokkasíur í öllum regnbogans-neonlitum í uppáhaldsbúðinni okkar allra, H&M. Þegar heim kom sá ég að við þetta yrði ég að eiga hálsmen. Ég var búin að vera að gjóa augunum á neon-lit bönd á keflum í Söstrene Grene þegar ég hef átt leið þar um undanfarið og þegar ég sá svo litlar neonlitar uglur úr plasti stóðst ég ekki mátið lengur.

Ég átti þessar keðjur í fórum mínum svo mér var ekkert að vanbúnaði. Ég þræddi böndin í gegnum keðjurnar með nál og áður en ég vissi af voru hálsmenin orðin þrjú! Ég setti svo krækju á litlu plastuglurnar til að það sé auðveldlega hægt að taka þær af ef maður er ekki í uglu-stuði...






Ég setti krækjur á uglurnar til að
hægt sé að taka þær af...



Gula er mín uppáhalds... og í dag er ég í uglu-stuði...




Engin ummæli:

Skrifa ummæli