þriðjudagur, 22. júlí 2014

Draumaland...

Það þyrfti eiginlega að vera ein gata hérna í Fossvoginum sem héti Draumaland, þá myndi ég flytja þangað! Ég er nefnilega mikil draumórakerling. Á auðvelt með að fara á flug með hinar ýmsu hugmyndir í kollinum á mér. Þegar ég var unglingur tengdust þessir draumórar mínir yfirleitt hinu kyninu og þá oftar en ekki einhverjum sem ég átti ekki nokkurn einasta möguleika á að komast í tæri við. Ég lét mig til dæmis lengi dreyma um að Macauley Culkin kæmi til Íslands í leit að ástinni og finndi MIG! Þá var ég tíu ára. Í dag er ég voða fegin að sá draumur rættist ekki...

Mig dreymdi líka einu sinni um að eignast eina stelpu og 6 stráka, alla í einu. Stelpan átti að koma fyrst til að passa alla strákana. Þeir áttu allir að bera millinafnið Már (guð má vita af hverju). Þegar þeir væru orðnir 6 mánaða ætlaði ég svo að gifta mig og þeir áttu allir að strolla á eftir mér inn kirkjugólfið í göngugrindum. Ég er líka voooða fegin að sá draumur varð ekki að veruleika! 

Ég átti mér líka draum um að vera í hljómsveit. Verst að ég get bara alls ekki sungið, það var fullreynt um helgina þegar viðhaldið reyndi að kenna mér að radda. Ég og góð vinkona mín ætluðum að vera í dúett. Hann átti að heita Alvara af því að okkur VAR alvara :) Við sungum inn á kasettu og tókum af okkur myndir sem við létum svo prenta út á mannhæðarhá plaköt. Við vorum svo æfareiðar þegar skömmu síðar kom fram á sjónarsviðið íslensk hljómsveit sem hafði stolið nafninu okkar! Okkur fannst við rændar frægð, frama og ofgnótt peninga... Kanski eins gott að sá draumur rættist ekki heldur...

Ég átti mér líka draum í síðastliðinni viku. Helgina 8.-10. ágúst verð ég á Handverkshátíðinni í Eyjafjarðasveit og ætla þar að sýna og selja hárbönd sem ég hef verið að búa til. Hugmyndin kviknaði út frá hárböndunum sem ég bjó til handa lítilli vinkonu minni fyrr í sumar og má sjá HÉR. Undirbúningurinn gengur vel og ég er sannfærð um að ég nái þeim markmiðum sem ég setti mér í framleiðslu og jafnvel meira til! 




Á hárböndunum og blómunum eru smellur svo hægt sé að skipta um blóm. Það fylgja hverju bandi tvö blóm en ég ætla svo að vera með stök blóm eins og þessi á myndinni hér fyrir neðan sem hægt verður að kaupa til viðbótar...


Hárböndin verða til í þrem stærðum og nokkrum litum...


Ég átti mér svo draum, af því að þetta er HANDVERKS-hátíð, um að hekla undir þetta körfur til að hafa á söluborðinu mínu. Já einmitt... ég ætlaði að vera svakalega nýtin og nota afgangsgarn úr fórum mínum og blanda saman við það svona snæri eins og sést á myndinni hér að neðan til að gera körfurnar stífari.


Þetta gekk alls ekkert illa... maður er svona 4 tíma að hekla eina svona körfu. Það  gera tvær körfur á einum vinnudegi, að því gefnu að maður fari ekki í mat og kaffi, og ég þurfti að minnsta kosti 8 stykki...



Þessi draumur mun því ekki rætast, ekki frekar en draumar mínir um Makauley og sexburana. En ég á allavegana eina voða fína heklaða körfu sem ég get annaðhvort nýtt sem blómapott:


Eða undir auka klósettrúllur á gestaklósettinu... 


Nú eða bara hvað sem er! :) 
Svo fer ég bara og kaupi einhverjar sætar körfur til að hafa með mér norður.

Ég hvet ykkur eindregið til að prófa og gefa hugmyndafluginu lausan tauminn í litavali. Þið bara byrjið á að hekla í hring þar til réttri stærð á botninum er náð og þá hættið þið að auka út og heklið áfram þar til hliðarnar eru eins háar og þið óskið. Ég mæli samt með að nota gróft garn, ég notaði tvöfaldan Álaosslopa, og aðeins minni heklunál en gefið er upp á garninu. Þá verður þetta svona stíft og fínt og hliðarnar á körfunni leka ekki niður. Góða skemmtun...







Engin ummæli:

Skrifa ummæli