þriðjudagur, 8. júlí 2014

Mini-makeover

Mig hefur alltaf langað í svona gangaborð. Ég var svo á röltinu í Góða um daginn og rakst þar á teak borðplötu sem ekki voru neinir fætur undir. Platan kostaði skid og ingen og heim fór hún. Ég var bara alls ekki búin að ákeða hvar ég vildi hafa svona gangaborð, ég fer nefnilega að verða svolítið fátæk af plássi :) Það var þó einn staður sem ég gat hugsanlega troðið slíku borði og það var í svefnherbergið. Ég mældi þetta aðeins út og niðurstaðan varð sú að svona borð myndi bara sóma sér sérdeilis vel í hjónó, á veggnum beint á móti rúminu og alls ekki þrengja gangveginn að neinu ráði. Mér var því ekkert að vanbúnaði...

Ég brunaði með borðplötuna á timburverkstæði Húsasmiðjunnar og fékk þá til að saga plötuna fyrir mig efti endilöngu. Þar getur maður einfaldlega gengið inn og þeir saga fyrir mann plötur eftir manns eigins höfði á meðan maður bíður... Ég borgaði eitthvað í kringum 500 kr fyrir þessa frábæru þjónustu! Í leiðinni keypti ég svo tvo litla hvíta vinkla sem ég notaði til að festa borðið við vegginn. Þaðan fór ég beinustu leið upp í IKEA og keypti tvo borðfætur sem ég skrúfaði svo undir plötuna. Ég ætla ekkert að ljúga að ykkur en að SJÁLFSÖGÐU datt eitt og annað ofan í körfuna mína annað en þessi borðfætur!




Þegar hér var komið við sögu var ekkert eftir nema skrúfa þetta fast við vegginn og bera teak-olíu á plötuna. Sem ég gerði. Enn og aftur segi ég; "Þetta er svo einfalt að það er hlægilegt!".

Þetta borð er algjört krútt og Bambi hefur loksins fengið samastað!

Hlutirnir eiga það hins vegar til að vinda svolítið upp á sig þegar ég er að brasast og þegar þessi dagur var á enda var hjónahergergið gjörbreytt með tiltölulega lítilli fyrirhöfn og litlum tilkostnaði. Stærsti útgjaldaliðurinn í þessu öllu saman voru fæturnir undir borðið sem kostuðu samanlagt tæpar 8000 kr.

Veggurinn fyrir...

Og veggurinn eftir...

Eins og glögg augu sjá skellti ég upp gardínum fyrst ég var með borinn á lofti. Ég er í rauninni ekki mikil gardínu manneskja, en mér finnst samt voða kósý að hafa gardínur í þeim rýmum sem maður notar til að slaka á og hafa það huggulegt. Þessar eru úr IKEA. Þær veita ótrúlegan hlýleika en hleypa jafnframt birtunni vel í gegn.


Annað sem ég gerði var að kaupa litla körfu frá House doctor undir óhrein föt sem eiga það til að safnast fyrir á gólfinu þegar þreyttir íbúar herbergisins nenna ekki að fá sér kvöldgöngu í þvottahúsið ;) Hún er ekki stór því ég vildi ekki heldur að óhreinatauið bókstaflega færðist inn í svefnherbergið. En krúttleg er hún og hana fékk ég í Fakó á Laugaveginum.


Það þurfti líka að dúllast smá í hillunni sem stendur gluggamegin við rúmið, svo ég kippti með mér einum blómapotti, gerviblómi, myndaramma og alveg yfirmáta sætum litlum járnfugli á flandri mínu um bæinn þennan dag...


Skellti smá dúlleríi í gluggakistuna og þá var þetta bara alveg á hárréttri leið... :)


Það er gaman að segja frá því að ljósin sem eru yfir rúminu eru fysrtu náttlamparnir sem móðuramma mín og afi keyptu sér þegar þau voru ung. Ljósin eru eins og ný, hvergi rispa eða beygla!

Þessa string-art mynd gerði móður amma mín á sínum yngri árum. Ég rakst á hana niður í kjallara hjá henni ekki alls fyrir löngu þar sem hún bara lá og safnaði ryki. Ég fékk því leyfi til að bjarga henni frá glötun! Mér finnst hún svo ótrúlega falleg... Ég skildi viljandi eftir pláss á veggnum við hliðina á myndinni því einn góðan veðurdag ætla ég að gera einhverskonar útgáfu af string-art mynd og hengja við hliðina á þessari.


Fallegu drengirnir okkar fengu líka pláss á veggnum góða. Þessar myndir eru í miklu uppáhaldi hjá foreldrunum. Þær eru teknar á frábærum degi í dýragarðinum í Hör í Svíþjóð fljótlega eftir að við fluttum þangað...

En punktinn yfir i-ið setti hins vegar húsbóndinn þegar hann kom heim frá Svíþjóð á sunnudaginn. Þannig er að hurðin á herberginu hallast alltaf aðeins ef það er enginn hurðastoppari á henni. Við erum lengi búin að láta minnstu gerðina af Zooni uglunni passa hurðina fyrir okkur en hún hefur bara ekki alveg verið að ráða við það verkefni :) Sérstaklega ekki ef svalahurðin er opin. En upp úr töskunni sinni dró húsbóndinn að þessu sinni þennan ofurkrúttlega Zooni bjór! Hann er fullkominn í starfið...




Ég ætlaði sem sagt að gera mér gangaborð. Það tók 20 mínútur eftir að ég var búin að láta saga fyrir mig plötuna og kaupa fæturna... það fór hins vegar heill dagur í þetta mini-makeover að lokum :)

Þangað til í næstu viku... ;)


Engin ummæli:

Skrifa ummæli