þriðjudagur, 28. október 2014

Afsakið hlé...

...vegna anna og of miklu af hugsi!

Ég ætla samt að byrja á því að þakka frábærar viðtökur við hálsmenunum úr síðasta pósti! Vonandi eru allar litlu skvísurnar sem hafa eignast svoleiðis síðan þá himinsælar... ;)

Stundum vildi ég að einhver gæti komið sér haganlega fyrir inn í höfðinu á mér og tekið til. Bara flokkað í burtu óþarfa pælingar og skilið eftir allar góðu hugmyndirnar sem vert er að framkvæma. Um tvö-leytið í dag kom betri helmingurinn heim og nappaði mig þar sem ég sat með úfið hár og enn í sveittum íþróttafötum frá því í morgun, að bisast við að útfæra verkefni vikunnar. Ég viðraði hugsanir mínar við hann. Hann sagði ekki margt en náði sér í blað og penna og rissaði eftirfarandi upp:


Hann meinti vel, en ég veit ekki hvort þetta er málið... :D

Fyrir nokkru síðan vatt samstarfskona mín á bráðamóttökunni sér að mér og spurði hreinskilningslega hvort að það mistækist aldrei neitt af því sem ég gerði. Ég fór nú bara að hlægja og hugsaði um allan sandinn af seðlum og tíma sem liggja í valnum vegna mistaka í framkvæmdagleðinni. Ég sagði henni að einhverntíman myndi kannski eitthvað svoleiðis rata á síðuna mína. Í dag er ég eiginlega nauðbeygð til að deila með ykkur mistökum! :D Einfaldlega vegna þess að ég hef ekkert annað fullklárað til að sýna ykkur!

Þetta byrjaði bara nokkuð vel sko. Ég var alveg búin að pæla svolítið í þessu og sjá þetta fyrir mér. Mig langaði að sauma út á striga einhverskonar geometriska mynd. En til þess að hún yrði jöfn og fín yrði ég að hafa stramma til að sauma í. Ég hafði keypt stramma sem hægt er að leysa upp í vatni fyrir nokkru síðan. Svo ég hugsaði með mér að ég myndi bara nota hann og leggja síðan myndina í bleyti... Hmmm??? Svo fór ég að hafa áhyggjur af því að striginn, sem er svartur, myndi lita garnið sem ég ætlaði að nota. Ég endaði því á að leggja bara strammann á strigann og stinga lítil göt með nálinni þar sem ég ætlaði að sauma og svo hófst ég handa...

Svona uppleysanlegur strammi býður samt upp á ótal möguleika... ;)



Þetta var bara ekki að gera sig! Varð allt skakkt og ójafnt... Grrrr... Mér finnst samt hugmyndin ennþá góð og ég geri aðra tilraun seinna! ;)

Ég fékk hins vegar fyrsta "alvöru" verkefnið mitt í hendurnar um helgina. Ég á lítinn vin sem er að fara að eignast sitt fyrsta herbergi og hann bað mig að hjálpa sér að græja það. Herbergið er ekki stórt, kannski 5 fermetrar en það hefur sko möguleika! Allt hefur möguleika...


Það sem sést á myndinni er það sem var til, það sem uppá vantar er í mínum höndum. Ég og eigandi herbergisins erum æsispennt að hefjast handa og leyfa ykkur að fylgjast með!


Svo langar mig að minna ykkur á facebook síðuna mína, endilega smella einu læki á hana ef þið eruð ekki búin að því, ég er að safna. Þið finnið hana hér :)


Engin ummæli:

Skrifa ummæli