þriðjudagur, 21. október 2014

Jólin eru að koma... Svona næstum því!

Það var mikil gleði á mínu heimili í morgun þegar við litum út um gluggann. Við nefnilega elskum snjóinn! Enda akureyringar í húð og hár. Ég á svo ótal minningar úr snjónum á Akureyri. Mannhæðaháir skaflar. Skíði um hverja helgi, ja eða bara eftir skóla og vinnu, með kakó á brúsa. Ég og hin börnin í hverfinu á skautum á KA vellinum undir dansandi noðrurljósunum. Hljómar þetta ekki dásamlega? Þetta var svona, ég lofa, nákvæmlega svona ;)

Skammdegið er líka minn tími. Kertaljós, kósý og rútína... Mér finnst jólaundirbúningurinn líka dásamlegur, ekki bara jólin sjálf heldur þessi tími þar sem allt er á fullu í bakstri og jólagjafastússi. Fólk að hittast í kakó og smákökur, labba Laugaveginn í skammdeginu upplýstu af jólaljósum eða þramma í gegnum þvöguna í Kringlunni á aðventunni. Það er stemning! Mér finnst líka alveg ótrúlega gaman að skreyta fyrir jólin og í ár er ég uppfull af allskyns hugmyndum af jólaskrauti... Hver veit nema þið fáið að fylgjast með ;)

En í morgun fann ég hjá mér óseðjandi löngun til að gera snjókarl. Þeir eru ekki endilega bara jóla er það nokkuð? Ég skal viðurkenna að ég átti ekki allan efniviðinn í fórum mínum. Ég var búin að spá aðeins í þetta fyrr í haust þar sem ég fékk í hendurnar sleðann og skíðin sem sjást á myndinni hér til hliðar og var beðin um að gera úr því einhverskonar vetrarskreytingu. Það er svo sem engin ástæða til að tíunda þetta neitt frekar. Þetta eru engin geimvísindi. Það eina sem ég gerði sem sést ekki á myndunum er að ég málaði kúlurnar sem ég notaði í snjókarlinn með kalkmálningu sem í er smá gul slikja svo hann yrði ekki svona "neonhvítur". Annars er þetta bara spurning um að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn og ekki vera hræddur við að prófa sig áfram.


Æi er hann ekki mikið krútt? Alveg tilbúinn að skella sér á skíði með eyrnaband og allt! 


Alveg er ég viss um að einhver veltir því núna fyrir sér hvar ég fékk bakkann ;) Hann keypti ég í Blómaval bara núna í morgun. Alveg gordjöss!

En að allt öðru. Eins og dyggir lesendur mínir vita hefur mér ekki tekist að framleiða stelpu :) Ég á hins vegar tvo gull-drengi sem ég þakka fyrir á hverjum degi. Ég er alveg á því að örlögin gripu í taumana hvað þetta varðar því ef ég ætti stelpu þá væri ég sennilega gjaldþrota. Ég er alltaf að sjá eitthvað svo óendanlega sætt stelpudót, og ég alveg elska að fara í stelpuafmæli því þá hef ég afsökun til að kaupa eitthvað dúllerí. Í sumar fór ég í eitt slíkt og efst á óskalistanum hjá þeirri dúllu var hálsmen. Ég fór á stúfana og fann ekkert sem mér leist á. Sú fékk því ekki ósk sína uppfyllta í það skiptið. Ég er svo búin að hafa þetta á bakvið eyrað síðan og að lokum fæddist hugmynd í kollinum á mér og ég ákvað að prófa... hér er afraksturinn:









Ég er í skýjunum með útkomuna! Væri alveg til í að eiga eina litla í tjullpilsi með svona hálsmen...

Njótið dagsins!

2 ummæli: