þriðjudagur, 16. desember 2014

Hugmyndir af hekluðum jólagjöfum

Það er vika í jól. Úti er snarvitlaust veður, alveg eins og það á að vera í desember. Ég er búin að berjast í gegnum fjúkið að sækja Litla í skólann og við erum búin að fá okkur heitt kakó. Af því að samkvæmt öllum settum reglum í heimi níu ára, þá fær maður sér heitt kakó þegar svona viðrar!

Ég setti mér það markmið í haust að sem flestir fengju heimatilbúnar jólagjafir í ár. Að minnsta kosti að hluta. Ég skal viðurkenna að þetta er búið að valda mér töluverðum höfuðverkjum svona inn á milli, og ég er oft búin að hætta við. En þetta er að hafast, svona nokkurnveginn...
Og af því að ég ætlaði að vera komin í jólafrí frá blogginu, en get ekki slitið mig frá því, þá langar mig að nota þessa viku til að deila með ykkur tveimur hugmyndum af tiltölulega fljótlegum og afar einföldum hekluðum hugmyndum af jólagjöfum. Þetta eru engin geimvísindi, en voða sætt... :)

Í fyrsta lagi tekur ekki nema klukkutíma að hekla eina svona og ganga frá henni. Að því gefnu að maður eigi allt í hana að sjálfsögðu...


Og þær taka sig svona brjálæðislega vel út í kössum sem ég keypti í Söstrene Grene:


Það tók mig smá tíma að átta mig á hversu margar lykkjur þyrfti, en á endanum komst ég að því að í fullorðinsslaufu er 14 lykkjur á heklunál nr 4,5 passlegt og 10 lykkjur í barnaslaufu. Svo er bara að hekla fram og til baka þar til tvöfaldri lengd á slaufunni er náð og svo er hún saumuð saman í hliðunum og tekin saman í miðjunni. Mér fannst koma betur út að nota efni til að taka þær saman en að hekla lítinn renning. Ég notaði aðferð sem kallast tweed-hekl í mínar slaufur.


Og svo í öðru lagi tekur um það bil tvær klukkustundir að hekla eina svona tusku...


Og þær eru frábær leið til að æfa sig á nýjum aðferðum við heklið, bæði í stykkjunum sjálfum og köntunum. Í þessar notaði ég að sjálfsögðu 100% bómull og fylgdi leiðbeiningum af munstrunum úr Stóru handavinnubókinn.



Æi sjáiði hvað þær eru sætar! 


Þá er ekkert að gera nema spýta í lófana og halda áfram...
Tíu tuskur to go!
;)


Engin ummæli:

Skrifa ummæli