miðvikudagur, 10. desember 2014

Föndurstund með frænku...

Ég fékk ótrúlega skemmtilega heimsókn um síðustu helgi. Amma og afi komu alla leið frá Akureyri með tvö lítil frænkuskott í farteskinu. Við skemmtum okkur konunglega! Fórum í sund, sáum Línu Langsokk og skólaleikrit hjá Litla, borðuðum rosalega mikið af smákökum og drukkum heitt kakó með og svo varð ég að sjálfsögðu að standa undir væntingum og slá upp föndurstund :)

Það verður aldrei lögð nægjanleg áhersla á það hversu mikilvægt það er að gefa börnum af tíma sínum. Veita þeim óskipta athygli, þó ekki sé nema í smá stund, það gefur svo margfalt til baka! Ég geri mér fulla grein fyrir því að oft er tíminn af skornum skammti, en stundum borgar sig bara að láta þvottinn bíða. Ég er svo langt frá því að vera saklaus og læt tölvuna allt of oft passa fyrir mig, en svona föndurstundir eru frábær leið til að kynnast börnunum okkar betur, þau eru skemmtilegt fólk. Ég vildi óska þess að ég gerði þetta oftar...

En að föndrinu, sem var einstaklega vel heppnað! Ég hugsaði með mér að þetta yrði að vera eitthvað tiltölulega einfalt því ég vissi ekki hversu öflugir föndrarar frænkurnar væru (það kom svo í ljós að þær eru alveg keppnis!). Þetta mátti helst ekki innihalda mikið límsull og svo finnst mér alltaf skemmtilegra þegar útkoman er eiguleg :)

Svo ég fór í Tiger. Þar fékk ég allt sem þarf: Skrautlegan pappír, vír, perlur, bönd og hringlaga piparkökuform í þrem stærðum. Það er að sjálfsögðu hægt að nota misstór glös eða hvað sem er! Svo var bara að byrja!



Við byrjuðum á að velja okkur pappír og teikna á hann eftir formunum og klippa út hringina. Þeir eru svo brotnir saman eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Því næst er klipptur passlega langur vírbútur og gerð lítil lykkja á annan endan. Svo er bara að þræða stærsta hringinn upp á vírinn. Næsta skref er að þræða 3-4 perlur á hann áður en að hringur númer tvö er settur á vírinn. Þetta er gert til að það myndist smá bil á milli pappíshringjanna á vírnum. Svo settum við aftur 3-4 perlur á vírinn áður en minnsti hringurinn var þræddur upp á hann. Í lokin voru svo settar nokkrar perlur á toppinn áður en gerð var lykkja á vírinn fyrir bandið. 


Þetta heppnaðist svona líka ljómandi vel hjá okkur en myndavélinn á símanum náði engan veginn að fanga fergurðina... ;)

Æi mér finnst þetta hrikalega krúttlegt! :)




Mig langar svo að lokum að minna ykkur á Facebook síðuna mína, en hana finnið þið HÉR. Endilega smella einu læki á hana.

Og svo eru það hálsmenin, loksins hægt að panta þau aftur eftir að þau seldust upp í nóvember. Tilvalið í jólapakkan handa litlum snúllum!
Pantanir mega berast á verkefnivikunnar@gmail.com eða í einkaskilaboðum á Facebook.



Góðar föndur-stundir... 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli