þriðjudagur, 4. febrúar 2014

Hekl og prjón... :)

Ég hef alltaf átt í einhverskonar ástar-haturssambandi við húfur og trefla. Ég alveg elska stóra, djúsí trefla og finnst konur með húfur alveg sjúklega sætar. Ég hef gert óteljandi tilraunir til að ganga með húfu en er alltaf alveg ofboðslega meðvituð í þau skipti sem ég hef farið út úr húsi með eina slíka. Svipaða sögu hef ég að segja af treflum, ég veit aldrei hvernig ég á að vefja þeim eða binda um hálsinn á mér. Sérstaklega stórum treflum. Ef ég hef asnast til að fara út með svoleiðis um hálsinn þá finnst mér alltaf eins og ég sé að reyna að vera eitthvað :).

Ég fór til Boston í lok árs 2012. Þræddi þar búðirnar af miklum móð með Gumma í eftirdragi. Það er reyndar raunin að þegar Gummi kemst út fyrir landsteinana þá þarf ekkert að draga hann neitt rosalega mikið í búðir. Fyrir það er ég þakklát... Við fórum óteljandi ferðir í GAP meðal annars, og í einni slíkri rakst ég á þennan:


Hann hentaði mér fullkomlega! Hann er stór og djúsí en hann þarf hvorki að binda né vefja! Bara smella honum um hálsinn og málið er dautt. Skynsemin tók af mér öll völd þarna sem ég stóð í GAP og horfði á þennan trefil í öllum regnbogans litum og ég ákvað að kaupa bara einn lit. Það voru mistök. Það er fátt sem ég hef notað jafn mikið.

Í heilt ár er ég búin að vera á leiðinni að prjóna mér eitthvað í líkingu við hann og tvisvar hef ég keypt mér garn og ætlað að hefjast handa. Mér fannst þetta tilvalið verkefni vikunnar! Ég mældi því Gamla gráa í bak og fyrir, hugsaði og hugsaði hvernig best væri að gera þetta til að útkoman yrði sem næst honum í lögun, valdi garn úr fórum mínum og hófst handa.
Ég fitjaði upp 100 lykkjur á prjóna nr. 3,5. Þetta munstur sem ég notaði er mjög einfalt. Það eru prjónaðar 2 sléttar og 2 brugnar til skiptis í tvær umferðir og í þriðju umferð er breytt þannig að það eru prjónaðar 2 sléttar þar sem áður voru brugnar og öfugt. Ég hef áður prjónað mér peysu með þessu munstri og þá notaði ég bara einn lit. Núna langaði mig að prófa að hafa einn grunnlit í munstrinu sem yrði þá alltaf í brugnu lykkjunum og svo 2-3 liti til skiptis í þeim sléttu. Ég var búin að áætla að ég þyrfti að prjóna ca. 80 cm en endaði í 65 cm.


Þegar ég var búin að ganga frá öllum endum byrjaði ég á því að lykkja stuttu hliðarnar saman. Til að fá snúning á trefilinn lét ég löngu hliðarnar skarast um ca 10 cm og lykkjaði hann svo saman þannig. Þetta kom svona ljómandi vel út:


Ég þarf eiginlega að prjóna annan í praktískari litum. Mér fannst þessir bara svo ótrúlega fínir, en þeir ganga kanski ekki við hvað sem er... En notalegur er hann!


En að allt öðru. Amma á Akureyri er búin að vera hjá mér í nokkra daga. Hún hefur verið að hjálpa mér með Litla og Stóra af því að Gummi er í Svíþjóð munið þið, að vinna fyrir hillunum :). Það er alltaf notalegt að hafa hana. Þegar hún er í heimsókn búa rúmin um sig sjálf, þvottakörfurnar tæmast á undraverðan hátt og það er alltaf kvöldmatur á borðinu án nokkurrar fyrirhafnar :). Við erum ekki ólíkar að mörgu leiti. Líkt og ég á hún erfitt með að sitja auðum höndum. Hún er nýkomin frá Colorado þar sem hún skíðaði eins og vindurinn í 10 daga í amerískum bíómyndabrekkum. Þar keypti hún sér nýja skíðaúlpu og fékk þá flugu í höfuðið á degi 2 í heimsókninni að hún þyrfti að eignast húfu við úlpuna. Ég átti erindi í Föndru á Dalvegi og Gamla var með í för. Þar fann hún ótrúlega skemmtilegt garn akkúrat í réttu litunum við úlpuna.


Húfan er hekluð og hnykillinn er svona marglitur og fæst í nokkrum litum. Til að gera húfuna aðeins meira "fullorðins" fórum við í verslunina Hvítlist, en þar er hægt að kaupa dúska úr ekta refaskinni fyrir litlar 2.500 krónur. Dúskarnir koma með smellum svo hægt sé að fjarlægja þá auðveldlega þegar þarf að þvo húfuna. Fyrir vana tekur bara augnablik að hekla eina svona húfu, svo Gamla sló ekki slöku við fyrr en hún hafði heklað eina á hamingjusama hjálparann og Litla :).


2 ummæli:

  1. Þú ert sú allra klárasta sem ég þekki.....á ekki orð hvað ég er ánægð með þér :)

    SvaraEyða
  2. Sæl má ég spyrja hvaða garn ertu að nota í trefilinn, svo fallegir litir::))og flott síða kv Elva

    SvaraEyða