þriðjudagur, 18. febrúar 2014

Upp með prjónana!

Í apríl nk. fermi ég frumburðinn. Já, ótrúlegt en satt þá eru að verða liðin 14 ár síðan þessi gullmoli dró andann í fyrsta sinn. Mér finnst samt meira eins og við þetta teljist ég í fullorðinna manna tölu frekar en hann!

Þegar við fluttum ákváðum við að hann fengi herbergi sem búið var að búa til úr tveimur geymslum á neðsta palli hússins og er beint inn af forstofunni þar. Þetta gerðum við bæði af því að herbergið var stórt og af því að minningin um svaðilför mína í gegnum hús tengdaforeldranna, þegar ég var að laumast þaðan út á laugardagsmorgni fyrir rosalega mörgum árum síðan, er enn ljóslifandi. Ég óska engri stúlku að þurfa að upplifa annan eins taugatrekking og fylgir því að mæta hugsanlega tilvonandi tengdaforeldrum sínum í djammgallanum frá því í gær og með maskara út á kinn :). Svo það er gott að vera bara búin að koma drengnum kyrfilega fyrir í kjallaranum áður en ósköpin dynja yfir... Tíminn líður hratt!

Við ætlum að halda fermingarveisluna hér heima og ég er aðeins búin að vera að "dúllast" til að það verði nú huggulegt í öllum hornum þegar stórfjölskyldan og vinir streyma í húsið til að fagna deginum með okkur. Svona kjallaraherbergi geta verið svolítið dimm, og ofan á það voru öll húsgögnin sem drengurinn átti fyrir, svört. Ég ákvað því að reyna að birta aðeins til í herberginu með því að velja gulan í sem mest af dúlleríinu og setti t.d. gular snúrur í ljósin í herberginu. Ég stóðst heldur ekki mátið og bjó til aðra korktöflu og hengdi yfir skrifborðið hans. Í þetta sinn notaði ég bæði gulan og svartan með korknum og sneri henni líka á hinn veginn.













Af því að áður var herbergið geymsla var þar lítil rafmagnstafla sem ekki er í notkun lengur á einum veggnum. Þetta truflaði mig mikið og eftir smá hugs ákvað ég að mála hana með svartri krítarmálningu og leyfa Stóra að skreyta hana eftir sínu höfði. Ég hef hins vegar ekki hugmynd um hvaða þýðingu þessi texti hefur.



Ég var svo að vafra á netinu um daginn í leit að einhverju sniðugu til að hressa upp á svona unglingaherbergi. Þá rakst ég á kennslumyndband um hvernig má prjóna svona pullu til að sitja á. Mér fannst hugmyndin góð en aðferðin heldur flókin. Ég ákvað því að prófa að einfalda málin aðeins. Ég var svo æst að byrja að ég hentist í Hagkaup í Skeifunni síðla kvölds til að kaupa garn. Ég ákvað að kaupa Álafoss lopa af þremur ástæðum; hann er ódýr, grófur og var til í neon-gulu! Lopinn er gefinn upp fyrir prjóna nr 7 en ég ákvað að hafa hann tvöfaldan og prjóna á prjóna nr 10. Þetta gerði ég til að pullan yrði sem þéttust og þar með sleppa við að fóðra hana svo að tróðið sjáist ekki í gegn. Ég fitjaði upp 80 lykkjur á hringprjón og prjónaði svo perluprjón (1 slétt og 1 brugðin til skiptis og svo öfugt í næsta hring o.s.frv.) í hring þar til svarti liturinn var búinn. Ég endaði í rétt rúmlega 70 cm. Í stað þess að fella af þræddi ég svart Smart garn í gegnum lykkjurnar (mæli ekki með því að nota lopann því hann slitnar auðveldlega) og dró þær saman af öllu afli, til að loka pullunni í annan endan. Ég notaði tvo gamla púða með fiðurfyllingu til að troða í pulluna. Því næst þræddi ég Smart garn meðfram kantinum hinu megin og dró svo saman til að loka. Einfaldara getur þetta varla verið og sjáiði bara hvað þetta kemur vel út:




Upp með prjónana og hugmyndaflugið! Þetta geta allir gert...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli