miðvikudagur, 26. febrúar 2014

Og áfram prjóna ég...

Ég átti afmæli í gær. Átti yndislegan dag með þeim sem mér þykir vænt um. Mikið óskaplega er ég heppin, með allt þetta fallega og góða fólk í kringum mig! Suma daga er lífið svo gott að maður bókstaflega veit ekki hvernig maður á að vera...


Það var heiðursgestur í boðinu. Yngsta viðbótin við vinahópinn, dásamlega falleg lítil stúlka. Skrýtið til þess að hugsa að ein af mínum bestu vinkonum sé að eignast sitt fyrsta barn á sama tíma og ég fermi mitt. Þessi litli gullmoli fæddist í nóvember og það er rúm vika síðan ég sá hana fyrst. Já, það er skammarlegt að segja frá því, en stundum heldur maður að maður sé uppteknari en maður í raun og veru er. Ég ákvað að reyna að bæta upp fyrir sinnuleysið og prjóna peysu á barnið.

Ég er búin að prjóna nokkrar peysur síðan ég lærði að prjóna. Mér er það lífsins ómögulegt að prjóna eftir uppskrift. Ekki af því að ég geti það ekki, heldur finnst mér það bara ekki skemmtilegt. Mér finnst helmingurinn af prjónaskapnum vera hugmyndin og litavalið. Amma á Akureyri hefur eflaus oft hrist hausinn þegar ég hringi til að fá ráðleggingar :).

Þessi peysa er sú fimmta sem ég prjóna í þessum stíl. Mér finnst hugmyndin góð, bæði af því að maður getur leikið sér svo mikið með litina og munsturbekkinn og svo er upplagt að geta hneppt vel frá hálsmálinu þegar svona litlir hnoðrar eiga í hlut. Þetta er líka mjög einföld peysa að prjóna. Ég studdist við mál af peysu úr prjónablaðinu Ýr sem var gefin upp fyrir 3-6 mánaða. Ég var með grófara garn og þá reiknaði ég lykkjufjöldan út miðað við prjónfestuna sem gefin er upp á garninu sem er í uppskriftinni og garninu sem á að prjóna úr. Í þessa peysu notaði ég SMART garn sem er norskt ullargarn sem má þvo í vél og ég prónaði hana á prjóna nr 3. Ég nota alltaf minni prjónastærðina sem gefin er upp á garninu af því að mér finnst fallegra þegar flíkurnar eru þéttar. Annað sem gott er að hafa í huga þegar prjónuð er peysa með laskaúrtöku, og engin uppskrift er fyrir hendi, er að auka ermarnar út þar til lykkjuföldin nær helmingnum af lykkjufjöldanum í búknum. Þá gengur úrtakan alltaf upp.

Ég er alltaf í bölvuðu basli þegar ég er að velja liti. Finnst allir litir svo fínir og möguleikarnir á litasamsetningum eru óendanlegir! En svona fór það í þetta sinn:


Svo eru það smáatriðin sem fullkomna verkið. Litla merkið sem ég saumaði í peysuna finnst mér algjört æði! Ég rakst einhverntíman á þetta í uppáhaldsbúðinni minni í Svíþjóð, Stoff och stil. Það er himnaríki fyrir saumakonunur og föndrara. Mér finnst líka setja mikinn svip á peysuna að hafa eina töluna öðruvísi. 


Hvernig er hægt að vera svona sætur!

Ég hef alls ekki verið nógu dugleg að mynda verkin mín, en fann eftir mikla leit þessar myndir:

1 ummæli: