þriðjudagur, 11. febrúar 2014

Eftirmiðdags-redding... ;)

Ég var eitthvað hálf tætt í síðustu viku. Byrjaði á of mörgu í einu og náði ekki að klára neitt :) En þá er  nú gott að eiga litlar hugmyndir upp í erminni... 

Um daginn var ég í Föndru sá þar svo ótrúlega flott garn, eða band eða ég veit eiginlega ekki hvað á að kalla þetta? Annar hnykillinn var koparlitur og hinn svartur með koparlitu glimmerívafi. Ég var alveg heilluð og keypti sitthvorn hnykilinn án þess að hafa hugmynd um hvað ég ætlaði að gera við þá. Ég var svo í heimsókn hjá vinkonu minni um helgina og rakst þar á bók sem fangaði athygli mína. Ég get ómögulega munað hvað bókin heitir, en í henni eru aðallega uppskriftir af hekli og þar á meðal hugmynd af armböndum sem búið er að hekla utan um með garni. Þarna koma það! Ég átti einmitt nokkur samskonar armbönd sem ég hafði ætlað að henda um daginn af því að ég hafði aldrei notað þau.


Ég byrjaði bara einfalt og heklaði þétt utan um eitt armbandið og gisið utan um annað:



Þegar ég var búin með þessi tvö, sem tók ekki nema 10 mínútur, hugsaði ég með mér að það gæti verið fínt að hafa eitthvað glingur á þessu líka. Ég var að brastast í þessu áðan, svo ég hafði ekki tíma til að fara og kaupa eitthvað en átti í fórum mínum litlar viðarkúlur og hauskúpur. Það er mér algjörlega hulin ráðgáta hvað ég hef ætlað að gera við það :). Ég ákvað að prófa bara og byrjaði á því að þræða kúlurnar og hauskúpurnar upp á bandið. Þetta er mjög einfalt og möguleikarnir eru endalausir! Það fæddust amk. 1000 hugmyndir af armböndum á meðan ég dundaði við þetta. 


Maður byrjar á því að fytja upp eina lykkju á heklunálina. Þetta eru í rauninni bara fastalykkjur nema bandið er sótt í gegnum armbandið. Fyrir ykkur sem ekki kunnið að hekla en langar til að prufa er um að gera að kíkja á kennslumyndbönd á YouTube. Ég hef séð hekluð meistarastykki verða til eftir leiðbeiningum af YouTube! Svo er bara haldið áfram að gera fastalykkjur í kringum armbandið þangað til maður vill hafa skraut. Þá dregur maður skrautið þétt að armbandinu og heldur svo bara áfram að hekla. Einfaldara getur það ekki verið.
Ég komst hins vegar að því eftir þrjár misheppnaðar tilraunir að galdurinn er að hekla eins fast og mögulegt er í kringum skrautið því annars vill það lafa utan á armbandinu.


Ég veit ekki hvort ég færi með þessi armönd í boð á Bessastöðum en ég á klárlega eftir að gera fleiri í penari útgáfum og með glingri sem hæfir konu á mínum aldri ;). Það er td. alveg ótrúlegt úrval af svona "armbandaglingri" í föndurbúðinni í Holtagörðum...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli