þriðjudagur, 4. mars 2014

Sumar hugmyndir eru einfaldlega betri en aðrar!

Nú kom ég sjálfri mér á óvart!

Ég var að vafra um netið í síðustu viku og rakst á mynd af hálsmeni sem var fléttað saman úr skóreimum, pakkaborðum og gömlum hálsfestum. Það var eitthvað við þessa hálsfesti. Hún var gróf og litrík en það var líka eitthvað kvenlegt við hana. Hugmyndirnar gjörsamlega hrúguðust upp í kollinum á mér. Ég sá fyrir mér að flétta inn í svona hálsmen allskyns bönd, borða, leðurreimar, perlufestar og keðjur, að þetta gætu verið hálsmen sem bæði væri hægt að nota við fína kjóla og skyrtur, og líka bara við blaser og bol eða gallaskyrtuna...
Hálsmenið sem kveikti hugmyndina var í öllum regnbogans litum, en litli OCD-púkinn á öxlinni á mér vildi hafa meiri sétteringar í þessu. Ég ákvað að byrja á því að notast við borða, keðjur og bönd sem ég ætti, til að sjá hvort þetta væri raunverulega góð hugmynd. Ég þurfti reyndar að kaupa grunnkeðjuna, festingu, vír og lím til að geta pússlað þessu saman.


í þetta fléttaði ég m.a. skóreim, pakkaborða
frá HAY og keðju úr gömlu H&M hálsmeni.
Er ekki neon örugglega í tísku? :) Ég var svo ánægð með frumraunina að ég gat ekki setið á mér að útfæra þetta aðeins betur og fór á stúfana til að skoða hvað væri í boði í föndur- og hannyrðabúðunum. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Mér féllust eiginlega bara hendur! Úrvalið er ótrúlegt af allkyns borðum, blúndum, keðjum, perlufestum, leðurböndum, glimmerböndum, böndum með semelíusteinum og bara hverju sem hugurinn girnist. Ég ætla samt að vera hreinskilin og segja ykkur að svona dót er ekki alveg ókeypis, og ef maður vill vera virkilega flottur á því og kaupa alvöru perlur, steina og keðjur þá fer maður rakleiðis í Handverkshúsið á Dalvegi. Snilldarverslun sem ég vissi ekki að væri til fyrr en á föstudaginn sl.


Ég er búin að flétta átta hálsmen og
verð alltaf jafnhissa hvað þau koma vel út! 



Við Gummalingur áttum smá frí og ákváðum því að skella okkur norður til Akureyrar á Hótel Halldóru og fara á skíði og svona. Þessi fallega, bráðum 18 ára, frænka mín býr þar og var yfir sig hrifin af föndri stóru frænku. Hún fékk því að velja sér eitt og valdi þetta bleika.







Helsti höfuðverkurinn í þessu öllu saman var að ganga frá endunum á fléttunni. Að fela þá á smekklegan hátt og þannig að það héldist. Niðurstaðan varð sú að velja passlega gróft band og vefja það eins þétt og mögulegt er utan um endana og líma það niður með Superglue eða E6000. Hvoru tveggja eru dúndurlím! 




Ég ætla bara að leyfa myndunum að tala sínu máli... Gleðilegan þriðjudag!






1 ummæli: