sunnudagur, 16. mars 2014

Enginn verður óbarinn biskup, það er bara þannig.

Um daginn fékk ég hugmynd. Hugmyndin var góð og vel framkvæmanleg en vandamálið var að finna rétta efniviðinn. Mig langaði að hekla gólfmottu úr einhverju grófu garni, helst bómull, en fann ekkert sem var mér að skapi. Ég var svo að rölta Laugaveginn á miðvikudaginn í síðustu viku og ákvað að kíkja í Storkinn sem er frábær handavinnubúð staðsett í gamla Kjörgarði. Þar í glugganum hékk akkúrat það sem ég var að leita að! Dásamleg finnsk bómull sem er vélprjónuð í gróft garn.

Garnið er selt í tveggja kílóa einingum og kemur í svona hálfgerðum hrúgum eins og sést á myndinni hér til hægri. Það er ákveðinn ókostur fyrir fólk eins og mig sem vill byrja strax og gefur sér því ekki tíma til að vefja það upp í hnykla. Úr þessu geta myndast alveg rosalegar flækjur get ég sagt ykkur! Garnið er fáanlegt í ótal litum en þar sem við Gummi keyptum nýlega símabekk í Góða hirðinum sem við ætlum að gera upp og láta bólstra fannst mér upplagt að velja liti í stíl við áklæðið sem við völdum.

Ég var búin að ákveða að mottan yrði samansett úr misstórum hringjum sem ég myndi svo sauma saman á brúnunum þar sem hringirnir mætast. Ég var hins vegar ekki búin að ákveða hvort hringirnir yrðu einlitir eða röndóttir, eða hvort mottan yrði regluleg eða óregluleg. Úr varð að allir hringirnir urðu röndóttir.

Ég get hins vegar aldrei gert neitt eins og á að gera það, svo þegar ég var komin vel á veg komst ég að því að mér fannst eiginlega rangan (myndin til hægri hér að neðan) fallegri en réttan (myndin til vinstri), svo ég ákvað að rangan yrði hin nýja rétta!




Þetta var tiltölulega fljótlegt þar sem garnið er svo gróft og áður en ég vissi af var ég búin að hekla 17 misstóra hringi. Nú var bara að ganga frá endunum og ákveða hvort djásnið ætti að vera reglulegt eða óreglulegt í laginu.
Þegar ég var hins vegar búin að ganga frá öllum endunum sá ég að þegar maður heklar röndótt í hring skarast litirnir alltaf aðeins þar sem skipt er um lit. Þetta átti ekkert sérstaklega vel við mig þannig að úr varð að ég saumaði mottuna ekki saman! Ég er ekki búin að gera það upp við mig hvort ég rek herlegheitin upp og hef alla hringina einlita, eða hvort ég reyni að þagga niður í OCD-púkanum og hafi þetta svona :)

Svo núna stendur Gummalingur í stofunni, hofir á mottuna og síendurtekur: "Elva, um hvað ertu að tala? Hvað skarast og hvar skarast það?" ;)


Engin ummæli:

Skrifa ummæli