miðvikudagur, 12. mars 2014

Ég get ekki fundið upp hjólið í hverri viku!

Það er alltaf gaman þegar maður getur verið fólki innblástur eða hvatning í hvaða samhengi sem það kann að vera. Góð vinkona mín sendi mér SMS í gærkvöld og benti mér á að kíkja á þessa síðu hér: bergruniris.com sem ég gerði. Þar hafði eigandi síðunnar málað inn í hansahillur að minni fyrirmynd eftir myndum sem birtust í Hús & híbýli, því frábæra tímariti, í fyrra! Ég verð að viðurkenna að ég varð pínulítið montin :) Má það ekki?

En að verkefni vikunnar, sem er lítið og löðurmannlegt, og alls ekki verkefni síðastliðinnar viku! Í síðustu viku var ég með fjölskylduna á skíðum á Akureyri, þar sem við nutum okkar í botn í faðmi fjölskyldu og vina. Þegar ég var búin að sitja stjörf í tvo daga að flétta hálsmen fyrir síðustu færslu var kominn tími til að eyða fjölskyldufríinu með fjölskyldunni, svo ég lagði niður störf... 

Einhverntíman í fyrra uppgötvaði ég dásemdir krítarmálningarinnar. Fór hamförum og málaði hitt og þetta með henni. Ekki bara hluti sem átti að kríta á heldur bara það sem mér datt í hug. Ástæðan er einföld; krítarmálning þekur alveg einsatklega vel og er stjarnfræðilega fljót að þorna. Krítarmálninguna á myndinni hér til hliðar fékk ég í föndurbúðinni í Holtagörðum og mæli hiklaust með henni. Ef mála á hins vega stóran flöt með krítarmálningu er ódýrara að kaupa hana í málningavöruverslunum.

Eins og svo oft áður lá leið mín svo í Góða hriðinn. Teak-æðið sem ég er haldin var í sínum hæstu hæðum á þessum tíma. Þar rakst ég á þessa dýrindis veislubakka á litlar 300 krónur stykkið. Ég keypti upp lagerinn sem taldi 10 stykki. Ég ætlaði mér að mála þá alla með krítarmálningu, en komst nú aldrei lengra en að mála tvo. Ekki það að þetta sé tímafrekt verk, heldur hef ég örugglega bara verið rokin í eitthvað annað þegar þessir voru þornaðir. Mér finnst þetta lífga heilmikið upp á bakkana og það verður svo miklu skemmtilegra að nota þá.
















Svo er líka upplagt að taka gamla og ljóta bakka og hressa aðeins upp á þá með krítarmálningunni eins og ég gerði við þennan bakka úr Tiger á myndinni til hægri.

Þangað til í næstu viku... :)

6 ummæli:

  1. Algjör snilld.....alltaf eitthvað nýtt :)

    SvaraEyða
  2. Þetta er geðveikt flott hugmynd!! :D
    Hvar færðu Blackboard málningu í litum?

    SvaraEyða
  3. Takk stelpur mínar. Ragna, ég fékk þessa í föndurbúðinni í Holtagörðum, og svo fær maður þetta örugglega bara í flestum föndurbúðum :)

    SvaraEyða
  4. Það voru fleiri sem urðu inspireraðir af H&H. Erla systir málaði inní steypt innskot sem virka sem hillur í stofunni að þinni fyrirmynd og það kom sérlega vel út.

    SvaraEyða
  5. Ótrúlega gaman að heyra það Helga! :D

    SvaraEyða
  6. Þetta er bara snilld og svo mundi ég eftir því að hún mamma mín átti svona bakka og til eru ca 50 stk heima hjá pabba. Þá nota ég við ferminguna ;-) Fékk hugmyndina frá þér ;-)

    SvaraEyða