mánudagur, 1. september 2014

Nammi-namm!

Ég er búin að vera í vinnugallanum alla helgina að taka til og mála bílskúrinn svo ég geti frelsað heimilið mitt og þá sem þar búa undan öllu draslinu sem fylgir mér. Það verður líka frábært að geta staðið upp frá því sem maður er að gera án þess að þurfa að ganga frá eftir sig... Af því að það geri ég alltaf! ;) Stundum hef ég mig ekki í hlutina af því að það er ekkert sérstaklega gaman að vera alltaf með stofuna fulla af spreybrúsum og sandpappír og húsið ilmandi eftir því... Og það er heldur ekkert gaman að þufa alltaf að ganga frá eftir sig. Þetta er svona svipað og þegar barnið spyr: "Mamma má ég sturta úr dótakössunum?" og mamman svarar: "Já, ef þú gengur frá eftir þig!" Þetta er ávísun á að barnið snarhætti við að leika sér að dótinu. En þegar vinnustofan verður tilbúin skal ég lofa deila henni með ykkur.

Svo er ég líka komin á Facebook! Endilega líkiði við síðuna mína og deilið henni, hana má finna HÉR.

En að verkefni vikunnar. Við á mínu heimili, þe. við fullorðni helmingurinn, erum algjörlega LKL frelsuð. Þeir sem þekkja okkur hafa sennilega ekki farið varhluta af því ;) Hinn helmingurinn, Litli og Stóri, var svo settur í sex vikna nammibindindi. Hvað er þá meira við hæfi en að föndra nammikrúsir og stilla þeim upp í hillu í eldhúsinu! Flokkast það kanski undir einhverskonar form af ofbeldi? :) Mér til varnar ætlaði ég að hafa tyggjókúlur í krukkunum en fann engar nógu stórar og flottar!

Ég get ekki sagt ykkur hvernig þessi hugmynd fæddist. Ég hef alltaf verið pínu skotin í svona DIY krukkum með einhverjum áföstum plastdýrum á lokinu sem búið er að spreyja í öllum regnbogans litum. Ég var svo í Góða í dag og rak augun í þessa "svöngu" froska og fannst þeir eitthvað svo tilvaldir á svona nammikrukkur. Svo sá ég þessa kertastjaka og datt í hug að það gæti komið vel út að líma krukkurnar ofan á þá til að gera meira úr þessu öllu saman. Krukkurnar sjálfar keypti ég í Nettó...






Þetta er alveg súper einfalt. Það er allt svona dúll bara frekar einfalt, það er meira bara að koma sér að verki. Ég byrjaði á því að líma "svangan" frosk á annað lokið með líminu á myndinni hér til hægri. Það á að vera alveg skothelt í svonalagað er mér sagt en ég hef ekki prófað það áður.
Svo stormaði ég með þetta út í bílskúr og spreyjaði með spreyi sem ég átti. Ég þarf nú að fara að skipta um lit, en það er bara endalaust í þessum brúsum og svo pössuðu litirnir líka bara svo vel í eldhúsið. Ég límdi svo krukkuna á kertastjakann þegar ég var búin að spreyja hann.

Æi, mér finnst þetta voða krúttlegt! Ég sé þetta alveg fyrir mér í allskonar litum, með allskonar fígúrum á lokinu og á allskonar útgáfum af fæti... Væri til dæmis tilvalið borðskraut í barnaafmæli, eða undir jólakonfektið, eða páskanammið... Bara í rétta litnum!


Nú getum við fjölskyldan starað löngunaraugum á þetta þegar við sitjum við matarborðið og snæðum mat án alls viðbætts sykurs! ;)
Þangað til næst...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli