þriðjudagur, 23. september 2014

EInfalt fyrir alla!

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mikið náttúrubarn og er ekki með græna fingur. Get varla haldið stofublómunum á lífi og þau fá bara að drekka ef þau eru farin að halla undir flatt! Litirnir í náttúrunni geta hins vegar heillað mig uppúr skónum. Ekki landslagið sjálft eða lögunin á blómunum. Ef maður gefur sér tíma til að rýna í litadýrðina þá getur það veitt mikinn innblástur. Það er sjaldan sem náttúran klikkar á litasamsetningum. Þess vegna held ég líka að haustin séu uppáhalds tíminn minn. Þessi örstutti tími ársins þar sem laufin fara að "fölna" er í raun litríkasti árstíminn! Í morgun leit ég til dæmis út um gluggann og yfir garðinn minn, sem hefur algjörlega verið vanræktur í sumar. Mér varð starsýnt á runnana sem voru blautir eftir rigningu næturinnar en jafnframt skein morgunsólin á þá og magnaði upp þessa ótrúlegu litadýrð sem býr í haustinu. Ég stóðst ekki mátið og hljóp út í garð á tánum og náttfötunum og tók þessa mynd... Enginn filter, ekkert flass eða brjáluð linsa... bara smartsími og ósvikin fegurð!


En að allt öðru. Ég skemmti mér konunglega í vikunni sem leið. Mér finnst alltaf skemmtilegast þegar ég læri eitthvað nýtt. Og nú lærði ég að bora í gler! Það er þolinmæðisvinna, ég skal viðurkenna það, en opnar alveg óteljandi dyr að föndurheimum... Og er ekki fókið. Það eina sem þarf er borvél og sérstakur glerbor.

Ég er lengi búin að ganga með þetta verkefni í maganum. Sá svona einhversstaðar á veraldarvefnum og fannst hugmyndin góð.




















Flöskuna fékk ég í Góða, perustæðið, klóna, rofann og glerborinn fékk ég í BYKO.  Í versluninni Glóey er svo líka hægt að kaupa svona snúrur í öllum regnbogans litum í metravís. Svo kaupir maður stök perustæði, klær og rofa, allt eftir smekk.

Ég byrjaði á því að bora gat á flöskuna, alveg eins nálægt botninum og ég komst. Það tók dágóða stund því borinn hitnar alveg rosalega og maður þarf að passa að glerið springi ekki. Það er líka hægt að gera þetta undir köldu vatni, en ég er ekkert sérstaklega heit fyrir að vera mikið að blanda saman vatni og rafmagni...  Því næst klippti ég klóna sem var á snúrunni af.


















Þegar maður er með svona "tausnúrur" er nauðsynlegt að líma rafmagnsteip utan um þær áður en maður klippir því annars raknar hún upp og verður ljót. Þegar klóin var farin af þræddi ég snúruna í gegnum gatið, tróð restinni ofan í flöskuna og lét svo perustæðið hvíla á flöskuhálsinum. Ég tengdi svo nýju klóna við snúruna.

Þá var ekkert eftir annað en að setja rofa á snúruna til að ekki þyrfti alltaf að kippa úr sambandi til að slökkva...


Og tada! 
Þessi lenti inni hjá unglingnum í skóginum. 


Ég bið ykkur að afsaka myndgæðin hérna... Stundum fangar smartsíminn ekki alveg fegurðina :) 

Svo langar mig að minna ykur á Facebook síðuna mína. Hana getið þið fundið HÉR. Endilega smella einu læki á hana ef þið eruð ekki þegar búin að því :)
Góðar stundir!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli