þriðjudagur, 15. apríl 2014

Dundað í flensuskít...

Þessi færsla er skrifuð með hæsi og hor í nös. Ég er búin að vera að býsnast yfir heilsuleysi annarra í kringum mig svo ég á þetta víst skilið ;) En það er gott að geta dundað sér þegar maður er lasinn. Þá líður tíminn og maður gleymir sér um stund.

Þennan púða saumaði ég fyrir fjórum árum síðan. Ég hafði rekist á svo frábæra hugmynd af blómum sem búin voru til úr filti og fékk þá hugmynd að þau væru upplagt púðaskraut. En eins og svo oft áður kláraði ég ekki verkið. Í kvefpestinni um helgina settist ég svo loksins niður og kláraði púðann.



Mér finnst alltaf smáatriðin fullkomna verkin og þessa litlu miða keypti ég í Stoff och stil í Svíaríki. Það þyrfti svo sannarlega einhver að taka sig til og opna þá snilldarverlslun hér á Íslandi!

Filt er ótrúlega skemmtilegt efni. Það er ódýrt og fæst í miklu litaúrvali og mismunandi þykktum. Annað sem er skemmtilegt við filt er að ef maður skellir því í vélina þá þæfist það og fær svona meira "pró" áferð. Ég átti hvítan filtbút svo mér var ekkert að vanbúnaði.
Þetta er alveg einstaklega auðvelt! Fyrsta vers er að velja sér passlega stórt skapalón til að gera hring. Hann er klipptur út og síðan klippt í spíral eins og sést hér á myndunum til vinstri. Því næst er innri brúnin þrædd með nál og tvinna alla leið, byrjað innst í miðjunni. Þegar búið er að þræða er haldið í báða enda á tvinnanum og rykkt saman. Endarnir eru síðan bundnir kirfilega saman.



Krúttlegt!





Blómin saumaði ég svo bara á púðann. Einfaldara getur það varla verið. Ég sé alveg fyrir mér endalausa möguleika hér og aldrei að vita nema ég skelli í vin handa þessum... Eða bæti við blómum á þennan!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli