föstudagur, 18. apríl 2014

Páskablóm handa ykkur...

Föstudagurinn langi er ekkert lengri en aðrir dagar. Hann inniheldur nákvæmlega 24 klukkustundir eins og allir hinir 364 dagar ársins. Ég er hins vegar búin að koma ótrúlegustu hlutum í verk ásamt því að fara með Litla á slysó, ekkert alvarlegt sem betur fer, og klukkan er bara rétt að verða sex!
Okkur er boðið í mat í kvöld. Og kanski þess vegna er dagurinn minn í dag lengri en dagurinn í gær. Ég þarf ekki að vesenast í eldhúsinu eins og flesta aðra daga. Mig langaði þess vegna að nýta tímann minn í eitthvað skemmtilegt, búa eitthvað til. Þetta vafðist aðeins fyrir mér af því að flestar búðir eru jú lokaðar svo ég varð að gera eitthvað úr því sem ég á til. Þá allt í einu mundi ég eftir hugmynd sem ég hef lengi ætlað að prófa að framkvæma og í hana átti ég allt...
Áldósir sem ekki eru í notkun lengur, límbyssa og sprey í fallegum lit (og af því á ég nóg skal ég segja ykkur) er í rauninni allt sem þarf. Blúnduna setti ég bara á af því að ég mér fannst eitthvað vanta til að fullkomna verkið.














Þetta er í rauninni sáraeinfalt. Límbyssunni er bara stungið í samband og þegar hún er orðin heit notar maður hana til að skrifa einhvern texta eða "teikna" mynd á dósina. Þetta er reyndar aðeins erfiðara en það hljómar og þarfnast smá æfingar. Það góða er samt að ef eitthvað klikkar er mjög auðvelt að pilla límið af dósinni og byrja upp á nýtt. Ég ákvað hins vegar að hafa mínar bara svona, fannst bara smá sjarmi yfir þessu svona ófullkomnu... Límbyssur fást í massavís í Söstrene Grene td. og ég man ekki betur en að ég hafi bara borgað 1000 kr. fyrir mína. Þegar límið er þornað, sem tekur bara augnablik, er spreybrúsinn mundaður og farnar eins margar umferðir og þurfa þykir yfir dósina.


Er þetta ekki krúttlegt? Og hér eru möguleikarnir enn og aftur endalausir! Pennastatíf, box undir te og kaffi, box undir servíettur og box undir allt sem þú hendir alltaf á þennan eina og sama stað á eldhúsbekknum eða á hilluna í forstofunni. Ég gæti haldið endalaust áfram...

Gleðilega páska!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli