þriðjudagur, 1. apríl 2014

"Gæran" eignast vin...

Ég er á haus. Fermingarundirbúiningurinn í hámarki og þá er nú gott að setjast aðeins niður og hekla smá! Mikið er ég feginn að ég keypti ekki þessa 10 kolla sem ég ætlaði að hekla myntugrænar sessur á fyrir veisluna, ég væri þá sennilega í spennitreyju á þrjátíuogeitthvað niður á Hringbraut! :)
Ég gat samt ekki alveg setið á mér. Kollinn á myndinni hér til hliðar keypti ég fyrir löngu síðan og spreyjaði hann í kopar, nema hvað. Ég ætaði svo alltaf að hekla á hann sessu úr íslenskum lopa en kom mér aldrei í það af því að ég kunni ekki að hekla í hring. Þegar við svo fluttum núna í haust þá fórum við í talsvert minna svefnherbergi en við vorum í áður og það lítið að það kemst ekki náttborð mín megin við rúmið. Þessi kollur hefur því þjónað þeim tilgangi síðan og hefur líka verið gripinn upp í eldhús þegar þess hefur gerst þörf. Þá kviknaði hugmynd í mínum haus. Ég skyldi sko aldeilis hekla sessuna og láta svo bara sníða fyrir mig glerplötu til að leggja ofan á kollinn. Þannig gæti hann nýst bæði sem náttborð og kollur! Vei! Auðvitað skyldi þetta framkvæmt fyrir fermingu eins og allt annað svo ég pantaði glerið hjá Íspan, keypti hvítan Álafosslopa og byrjaði að hekla. Ég er semsagt búin að læra að hekla í hring :)
Ég hafði lopann tvöfaldan og notaði heklunál nr 9 því ég vildi að stykkið yrði svolítið götótt. Þetta tók enga stund, svona ca tvo tíma og ég er ekki vanur heklari.

Ég heklaði bara þangað til
stykkið náði aðeins út fyrir
brúnirnar á kollinum.
Glerplatan, lesefni fyrir
svefninn og vekjaraklukkan
komin á "náttborðið".



Ég þræddi svo hvítt Smart-garn meðfram brúninni á hringnum, lagði hann ofan á kollinn og dró saman þar til það hafði strekkst vel á honum og batt svo hnút. Upphaflega hugmyndin var að kollurinn og "gæran" yrðu par en það verður bara að vera svona fjarbúð nema í boðum :) En mikið hrikalega eru þau nú sæt saman!




Ég var svo á flandri um daginn og rak nefið inn í Góða. Ætlaði svo sannarlega ekki að kaupa koll, en þessi öskraði á mig af því að hinn var svo fljótlegur. Og þarna liggur nefnilega hundurinn grafinn... Ég sá strax að ég yrði að hekla sessuna á þennan þétt svo ég þyrfti ekki að bólstra hana líka! Ég keypti því Kambgarn sem er aðeins fínna en Álafosslopinn en er líka íslensk ull, hafði það þrefallt og reif upp heklunál nr 3,5! GUÐ MINN GÓÐUR! Það var þegar ég var á degi tvö að hekla og var ekki nema hálfnuð sem ég hringdi í IKEA og afpantaði þessa 10 kolla...
















Ég keypti svo kremhvítt sprey, pússaði létt yfir fæturna á kollinum og gluðaði spreyinu á. Það er mikilvægt að "rífa" aðeins upp járnið þegar maður er að spreyja svoleiðis hluti því annars lekur spreyið bara og festist ekki við hlutinn sem verið er að spreyja.


Það sem sést hér til vinstri er algjör snilld! Þetta fékk ég í Stoff och stil, sauma- og hannyrðaverslun sem ég hef áður nefnt og kynntist þegar ég bjó í Svíþjóð. Ég fór oft þangað bara til að strjúka efnunum :) Þetta er tala sem er í tvennu lagi. Það gerir manni kleift að leggja td. efnisbút, nú eða heklaða dúllu, yfir töluna og festa það með neðri hlutanum sem smellist undir töluna og heldur því þannig á sínum stað!


En kollurinn er tilbúinn og í þemalit fermingar frumburðarins!
Mér er vonandi fyrirgefið, en einn verður að duga... :)


Engin ummæli:

Skrifa ummæli