þriðjudagur, 29. apríl 2014

Játning.

Ég ætla að gera játningu. Ég er með svona smá frestunaráráttu. Þegar videoleigurnar voru og hétu setti Gummi mér stólinn fyrir dyrnar þegar ég fékk einu sinni 8000.- króna sekt fyrir að skila stórmyndinni DAVE örlítið í seinna fallinu. Hún var samt búin að liggja í sætinu á bílnum í fleiri, fleiri daga og ég búin að keyra margoft framhjá leigunni, en inn fór ég ekki. Eftir það keyptum við bara þær myndir sem okkur langaði að sjá, það var einfaldlega hagkvæmara fyrir okkur :) Það fer stundum á sama veg með aðra hluti sem ég ætla mér að gera. Eins og til dæmis að hengja upp úr þvottavélinni. Ég á það til að þvo sömu vélina tvisvar áður en ég hengi upp úr henni. Og núna er ég búin að vera á leiðinni að byrja á verkefni þessarar viku alveg síðan á þriðjudaginn fyrir viku síðan. Það var svo klukkan þrjú í dag sem ég settist niður og hófst handa.

Mig hafði lengi langað að prófa að föndra eitthvað úr gipsi. Möguleikarnir eru endalausir og ég var orðin alveg ringluð eftir að hafa tekið einn rúnt á veraldarvefnum í leit að hugmyndum. En svo datt ég niður á þá réttu.

Ég byrjaði á því að hekla litlar skálar. Tvær ætlaði ég að nota sem kertastjaka og eina aðeins stærri sem ég hafði ekki hugmynd um hvað ég ætlaði að gera við. Mér fannst bara eins og þetta yrði að vera þrenning.
Ef kunnáttan til að hekla hringlaga dúllu er til staðar er lítið mál að hekla svona skálar. Maður einfaldlega hættir að auka út þegar æskilegu þvermáli botnsins á skálinni er náð og heklar hring eftir hring þar til barmarnir eru orðnir eins háir og maður óskar.

Ég notaði tvöfalt SMART-garn
og heklunál nr 10 til að fá þetta
svolítið gróft.

Það tekur enga stund fyrir gipsið að byrja að harna.
Það er því gott að hafa hraðar hendur áður en það
harnar í fötunni og eyðileggst.
Ég var svo búin að fara í Húsasmiðjuna og kaupa eitthvað sem heitir Multi-gips. Það má bæði nota til að lægfæra veggi og föndra úr því. Utan á pokanum stóð að það ætti að blanda gipsið í hlutföllunum 1:2 þ.e. 1 af vatni á móti 2 af gipsi. Ég sá strax fyrir mér að það yrði allt of þykkt til að heklið kæmi í gegn og snéri því hlutföllunum við. Ég hafði smá áhyggjur af því að gipsið myndi ekki harðna ef ég blandaði það svona þunnt, en viti menn það varð glerhart á innan við klukkutíma!

Til að tryggja að ég næði rétta forminu á kertasjökunum pakkaði ég kertunum inn í matarfilmu og notaði þau til að forma stjakana á meðan gipsið var enn lint. Ég passaði mig samt á því að taka þau úr um leið og þetta fór aðeins að harðna til að koma í veg fyrir að þau hreinlega festust í þeim. Stóru skálina mótaði ég bara með höndunum.

Ég ákvað að fórna ekki eldhúsinu í þetta verkefni og
hreiðraði um mig út á palli :)

Þegar að gipsið hafði þornað dró ég svo fram spreybrúsana og spreyjaði yfir herlegheitin. Þetta kom svona ljómandi vel út! Ég þarf að gera frekari tilraunir með þetta og ef þið ætlið að gera slíkt hið sama held ég að útkoman verði jafnvel enn betri ef maður notar bómullargarn til að hekla úr.



2 ummæli:

  1. Mesti snilli í heimi....mikið er ég glöð að þekkja þig :)

    SvaraEyða
  2. Váá svakalega töff :)

    SvaraEyða